Breyting á bókun 26 við EES-samninginn (störf Eftirlitsstofnunar EFTA)

Laugardaginn 20. apríl 2002, kl. 10:46:07 (7977)

2002-04-20 10:46:07# 127. lþ. 124.23 fundur 622. mál: #A breyting á bókun 26 við EES-samninginn (störf Eftirlitsstofnunar EFTA)# þál. 15/127, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 127. lþ.

[10:46]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Hafi ég verið sjónarmun á undan ætla ég samt sem áður ekki að tefja hv. þm. Steingrím J. Sigfússon mjög lengi frá því að geta komið hingað upp og flutt tímamótaræðu sína sem við bíðum spennt eftir að hlýða á.

Ég vildi einungis segja það í framhaldi af orðum hv. þm. Bryndísar Hlöðversdóttur að þetta mál var ekki skoðað í efh.- og viðskn. í tengslum við umfjöllun nefndarinnar á frv. ríkisstjórnarinnar um ríkisábyrgð á skuldabréfum sem deCODE ætlar að selja. Við ræddum þetta að engu leyti.

Mér finnst það vera nokkuð djarflega mælt af hálfu hv. þm. Sigríðar Önnu Þórðardóttur að koma hér upp og segjast treysta því að þetta hafi verið skoðað af hálfu ríkisstjórnarinnar, nokkrum mínútum eftir að hún hefur tekið undir með umkvörtunum og umvöndunum hv. þingmanna yfir því sleifarlagi sem er að finna á vinnu ríkisstjórnarinnar varðandi mikilvæga lagagerð. Hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir hefur réttilega bent á það og ávítaði hv. þm. Ögmund Jónasson fyrir að hafa skilið þetta með öðrum hætti. Hún benti á að þingnefndin hefði unnið ákaflega gott verk varðandi ályktunartillöguna sem við ræddum hérna áðan þegar hún breytti í 19 greinum frumvarpi sem kom frá ríkisstjórninni, vegna þess að þar hafði, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon benti á, jafnvel hæstv. iðn.- og viðskrh. gleymt því að til eru lög um viðskiptabanka og sparisjóði í landinu.

Miðað við þetta og miðað við þá reynslu sem hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir hefur nýlega haft í utanrmn., þá segi ég að það er kjarkur í konu sem kemur hingað og segist bara treysta því að ríkisstjórnin hafi skoðað þetta. En bersýnilega hefur hún ekki hugmynd um það.