2002-04-20 10:55:49# 127. lþ. 124.24 fundur 623. mál: #A breyting á XVIII. viðauka við EES-samninginn (öryggi og hollustuhættir á vinnustöðum o.fl.)# þál. 16/127, Frsm. SAÞ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 127. lþ.

[10:55]

Frsm. utanrmn. (Sigríður A. Þórðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. frá utanrmn. um till. til þál. um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 159/2001, um breytingu á XVIII. viðauka við EES-samninginn.

Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 159/2001 frá 11. desember 2001, um breytingu á XVIII. viðauka (öryggi og hollustuhættir á vinnustöðum, vinnuréttur og jafnrétti kynjanna) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun ráðsins 2001/23/EB frá 12. mars 2001, um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vernd launamanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, atvinnurekstri eða hluta fyrirtækja eða atvinnurekstrar.

Eitt meginmarkmið tilskipunar nr. 2001/23/EB, sem er endurútgefin tilskipun nr. 77/187/EBE með innfelldum breytingum sem leiddu af tilskipun nr. 98/50/EB, er að vernda réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum eða hluta fyrirtækja. Tilskipun nr. 77/187/EBE hefur verið innleidd í íslenskan rétt með lögum nr. 77/1993, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, en eftir stóð að taka upp ákvæði tilskipunar 98/50/EB og er það gert nú með innleiðingu hinnar endurútgefnu tilskipunar. Innleiðing tilskipunarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi og hefur félagsmálaráðherra lagt fram frumvarp til laga um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt og er utanrmn. einróma í þeirri afstöðu sinni.