2002-04-20 10:58:08# 127. lþ. 124.24 fundur 623. mál: #A breyting á XVIII. viðauka við EES-samninginn (öryggi og hollustuhættir á vinnustöðum o.fl.)# þál. 16/127, ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 127. lþ.

[10:58]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Eins og hv. frsm. utanrmn. tók fram var nefndin einróma í afgreiðslu sinni á þessu máli, þessari þáltill. um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 159/2001. Hér er verið að fjalla um XVIII. viðaukann, öryggi og hollustuhætti á vinnustöðum, vinnuréttur og jafnrétti kynjanna.

Mig langar af því tilefni að vekja athygli hv. þingmanna á einu atriði, vegna þess að það er með þetta mál eins og sum önnur sem hafa verið rædd hér í morgun, að það er ýmislegt sem hangir á þeirri spýtu og ýmislegt annað sem hefur verið og er til umfjöllunar á hinu háa Alþingi og í nefndum sem verður fyrir áhrifum af þessari reglugerðarsetningu eða lagasetningu.

Hér er m.a. verið að innleiða tilskipunina hvað varðar réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum og það kallar á lagabreytingar hér á landi eins og fram kom í máli hv. frsm. og þær má finna á þskj. 990.

Það vill þannig til í hv. umhvn. hefur í þessari viku verið fjallað um frv. til laga um nýja Umhverfisstofnun. Það var tekið úr nefndinni ef ég man rétt hér rétt fyrir helgi. Um það mál standa þó nokkrar deilur, sérstaklega er varða vinnubrögð og upplýsingar til starfsmanna og samráð við þá. Ég hjó eftir því í umsögnum um það frv. að þar vísaði Félag íslenskra náttúrufræðinga til þess að við stofnun þeirrar nýju Umhverfisstofnunar þar sem í raun og veru er verið að leggja niður nokkrar aðrar ríkisstofnanir og setja undir einn hatt og því um aðilaskipti að ræða að því er best verður séð, þá vakti Félag íslenskra náttúrufræðinga athygli á því að ef ekki næðist samkomulag við starfsmenn um að fá sambærileg störf eins og á að gera, þá vaknar auðvitað biðlaunarétturinn. Ef um þetta verður deilt, þá er á það bent í þessari umsögn að hin nýja löggjöf sem byggir á forsögn Evrópusambandsins um aðilaskipti ætti hér við. Nú var það þannig í hv. umhvn. þar sem ég á sæti að við ræddum það mál ekki í samhengi, þ.e. Umhverfisstofnunina og þá tilskipun sem hér er til umfjöllunar, enda var nú flýturinn ansi mikill á afgreiðslu frv. um Umhverfisstofnun.

Ég vildi gjarnan nota þetta tækifæri, þó hér sé um samkomulagsmál að ræða og í raun og veru hið besta mál sem hér hefur verið afgreitt úr hv. utanrmn., að benda hv. þingmönnum á að það er náttúrlega ýmislegt sem fylgir með í kaupunum og gæti eins og í öðrum málum kannski komið í bakið á stjórnvöldum vegna þess flýtis og laklegra vinnubragða sem eru á öðrum málum á hinu háa Alþingi og er ég þá sérstaklega að vísa til frv. um Umhverfisstofnun.