Breyting á XX. viðauka við EES-samninginn (umhverfismál)

Laugardaginn 20. apríl 2002, kl. 11:08:43 (7982)

2002-04-20 11:08:43# 127. lþ. 124.25 fundur 636. mál: #A breyting á XX. viðauka við EES-samninginn (umhverfismál)# þál. 17/127, Frsm. SAÞ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 127. lþ.

[11:08]

Frsm. utanrmn. (Sigríður A. Þórðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. frá utanrmn. um till. til þál. um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 162/2001, um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 162/2001 frá 11. desember 2001, um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/53/EB frá 18. september 2000, um úr sér gengin ökutæki.

Tilskipunin markar heildarramma um meðhöndlun allra farartækja sem eigendur vilja losa sig við og felur það í sér að koma þarf upp kerfi sem nær til alls landsins og tryggir móttöku allra bílflaka og, að því marki sem unnt er, annars úrgangs og hluta sem fjarlægðir eru við viðgerðir bifreiða. Felur þetta m.a. í sér að leggja þarf sérstakt úrvinnslugjald á bifreiðar og að fjármunum sem þannig innheimtast verði varið til að reksturs kerfisins.

Innleiðing tilskipunarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi og samkvæmt upplýsingum frá umhverfisráðuneyti er hafinn undirbúningur við endurskoðun löggjafar en þeirri vinnu verður ekki lokið fyrr en með haustinu.

Nefndin vekur athygli á því að nauðsynlegar breytingar á innlendri löggjöf munu ekki ná fram að ganga innan þess frests sem gefinn er til að innleiða tilskipunina hér á landi.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt og er utanrmn. einróma í þeirri afstöðu sinni.