Heimildaöflun um veiðimenningu Vestur-Norðurlanda

Laugardaginn 20. apríl 2002, kl. 11:32:06 (7991)

2002-04-20 11:32:06# 127. lþ. 124.30 fundur 460. mál: #A heimildaöflun um veiðimenningu Vestur-Norðurlanda# þál. 22/127, Frsm. SAÞ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 127. lþ.

[11:32]

Frsm. utanrmn. (Sigríður A. Þórðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. frá utanrmn. um till. til þál. um samvinnu við heimildaöflun og skráningu gagna um veiðimenningu Vestur-Norðurlanda.

Með tillögunni er lagt til að ríkisstjórn Íslands verði falið, í samvinnu við landstjórnir Færeyja og Grænlands, að efna til samstarfs um heimildaöflun og skráningu gagna um veiðimenningu Vestur-Norðurlanda til að tryggja varðveislu sameiginlegrar arfleifðar en tillagan byggist á tilmælum nr. 1/2001 sem samþykkt voru á ársfundi Vestnorræna ráðsins á Grænlandi 2001.

Nefndin leggur einróma til að tillagan verði samþykkt.

Ég tek undir það með hv. þingmönnum Steingrími J. Sigfússyni og Þórunni Sveinbjarnardóttur að vestnorræna samstarfið er mjög mikilvægt og mikilvægt að Íslendingar taki þátt í því á öflugan hátt. Það hefur verið að styrkjast undanfarin ár og um síðustu helgi var undirritaður sérstakur samstarfssamningur milli vestnorrænu þjóðanna, Grænlands, Íslands og Færeyja.