Samningur um alþjóðastofnun fjarskipta um gervitungl

Laugardaginn 20. apríl 2002, kl. 11:35:17 (7993)

2002-04-20 11:35:17# 127. lþ. 124.31 fundur 615. mál: #A samningur um alþjóðastofnun fjarskipta um gervitungl# (einkavæðing) þál. 23/127, Frsm. minni hluta SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 127. lþ.

[11:35]

Frsm. minni hluta utanrmn. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti minni hluta utanrmn. í þessu máli. Ástæða þess að ég kýs að sitja hjá við afgreiðslu þess eða veita því ekki brautargengi er að ég hef miklar efasemdir um að það sé til farsældar fallið að fara út í þá einkavæðingu á því ágæta að mínu mati og vel heppnaða samstarfi sem þjóðir heimsins hafa byggt sér upp í gegnum alþjóðastofnunina INTELSAT á sviði fjarskipta um gervitungl og að það sé a.m.k. ótímabært, ef ekki bara að slíkar hugmyndir ættu alls ekki að vera á dagskrá til framtíðar litið einu sinni, að fara út í þá einkavæðingu. Það skapar líka ákveðna erfiðleika sem m.a. lýsa sér í því að þá verður að aðskilja annars vegar rekstur stofnunarinnar á þessu sviði og hins vegar það samræmingar- og eftirlitshlutverk sem hún hefur haft með höndum.

Sérstök ástæða er til, herra forseti, að hafa áhyggjur af stöðu fátækari og vanþróaðri ríkja í þessu sambandi sem hafa litla sem enga möguleika sjálf að annast um þessa hluti á eigin vegum. Það eru ekki síst þau sem hafa notið mjög góðs af hinu alþjóðlega samstarfi enda var það strax frá byrjun lagt til grundvallar að allir skyldu hafa aðgang að þessari tækni og þeim möguleikum og slíkur aðgangur skyldi vera án mismununar. Það hefur að sjálfsögðu verið handhægt að tryggja í gegnum hið opinbera eignarhald samstarfsríkja í stofnuninni eins og þetta hefur verið hingað til.

Það má auðvitað segja, herra forseti, og nota þau nauðhyggjurök að menn standi hér frammi fyrir gerðum hlut því að ljóst er að við Íslendingar út af fyrir sig annaðhvort tökum við þeim breytingum eins og þær eru eða ekki. Þær eru frágenginn hlutur og hefðu menn viljað koma öðrum sjónarmiðum á framfæri þá hefðu menn auðvitað þurft að gera það í vinnu málsins. Ég hygg að hér hafi, eins og stundum áður, þeir um vélað og mestu um ráðið sem sjálfir eru í litlum vanda staddir í þessum efnum, þ.e. stjórþjóðirnar og þróaðri ríkin sem hafa bæði tækni og fjárhagslega getu í sínum færum til þess að leysa úr málum sjálf og eru minna upp á það komin að slíkt alþjóðasamstarf sé áfram rekið á þeim jafnréttisgrundvelli og með þá hugsun að leiðarljósi sem innbyggð var í því strax á sjötta og sjöunda áratugnum þegar það hófst, að tryggja skyldi öllum jafnan rétt og jafnan aðgang að slíku kerfi.

Ég held að Íslendingar mættu alveg hugsa aðeins til baka og velta því fyrir sér hvílík gjörbreyting varð á stöðu okkar hér úti í miðju Atlantshafinu þegar Ísland gerðist aðili að þessum samningi og byggði hér fyrstu jarðstöðina sem kom í gagnið um 1980, ef ég man rétt. Þá varð algjör umbylting á stöðu Íslands í fjarskiptalegu tilliti vegna þess að við eða Póstur og sími fyrir okkar hönd gerðist aðili að því samstarfi og við nutum góðs af allri þeirri fjárfestingu og allri þeirri uppbyggingu sem þarna var sameiginlega unnið að og þurftum í raun og veru ekki annað að gera sjálfir en að leggja okkar litla hlut af mörkum í hlutfalli við þjóðartekjur okkar eða íbúatölu eða þann sambærilega mælikvarða sem þarna var lagður til grundvallar, þ.e. þegar iðgjöldin sjálf voru greidd eða hvort það var nú þjóðarframleiðsla, nú man ég það ekki nákvæmlega. En eitt er víst að slíkt fyrirkomulag og slíkt samstarf var smáríkjum eins og Íslandi afar hagstætt, þannig að í okkar hlut þurfti fyrst og fremst að koma að byggja jarðstöðina hér og koma upp móttökubúnaðinum. Það gerði okkur í einu vetfangi kleift að komast í fullkomið fjarskiptasamband og opnaði leið t.d. fyrir beinar sjónvarpsútsendingar til og frá landinu.

Það þarf síðan ekki held ég að ræða um það meira, herra forseti, að þróunin hefur orðið hröð og það er eiginlega erfitt að ímynda sér heiminn eins og hann var fyrir þann tíma þegar mönnum þykir sjálfgefið að fréttaatburðir utan úr heimi birtist hér á sjónvarpsskjánum samstundis en þá er nú ekki lengra síðan þetta að menn þurftu að sæta hér flugsamgöngum, og t.d. myndefni af atburðum, lifandi myndir komust yfirleitt ekki til landsins fyrr en um sólarhring eftir að þær voru sendar af stað frá útlöndum.

Annan þátt þessa máls, herra forseti, vil ég líka gera að athugunarefni og það er sú leið sem hér er valin og er sambærileg við það sem valið var í fyrra þegar hliðstætt mál, INMARSAT, var hér á dagskrá. Þar var einmitt um mjög sambærilegar breytingar að ræða á alþjóðastofnun og alþjóðasamstarfi sem hafði verið byggt upp í opinberri alþjóðlegri stofnun og skilað miklum árangri þar sem voru fjarskipti á hafinu, að eignarhlutur Íslendinga í þeim fyrirtækjum sem þarna verður komið á fót, þ.e. hinum einkavædda þætti starfseminnar, rekstrarþættinum, að hér á að velja þá leið, sambærilega við það sem gert var á síðasta ári, að skilja eignarhlut ríkisins eftir í Landssímanum hf. Nú er enginn vafi á því að ríkið á þennan hlut því að um opinbert fyrirtæki var að ræða sem fór með eignarhaldið fyrir hönd Íslands. Ég hefði talið að það hefði átt að skoða og í rauninni eindregið mælt með því að fyrst um sinn a.m.k. yrði eignarhlut ríkisins komið fyrir hjá því sjálfu, hann yrði leystur út úr Landssímanum og íslenska ríkið eða t.d. Póst- og fjarskiptastofnun eða einhver slíkur aðili færi með eignarhaldið fyrir hönd ríkisins.

Nú er það að vísu svo sem betur fer að komin er upp biðstaða í einkavæðingarbrölti ríkisstjórnarinnar hvað Landssímann varðar, kann vel að vera að hann verði að langmestu leyti og yfirgnæfandi leyti í eigu ríkisins enn um sinn, en það breytir ekki hinu að þessi áform eru enn þá einhvers staðar vakandi og þá mundi það gerast að ekki bara væri þessi breyting á orðin í hinni alþjóðlegu stofnun og hún sett yfir í einkarekstrarform heldur mundi eignarhluturinn af okkar hálfu líka lenda yfir í hendur einkaaðila og hverfa frá ríkinu ef um einkavæðingu Landssímans yrði að ræða. Þetta hefur, herra forseti, að mínu mati alls ekki verið rætt eða skoðað eins og vert og skylt væri. Ég hefði viljað sjá aðrar leiðir farnar í þessum efnum og treysti mér ekki til að styðja þetta mál eins og það er hér fram borið.