Réttarstaða starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum

Laugardaginn 20. apríl 2002, kl. 11:47:51 (7996)

2002-04-20 11:47:51# 127. lþ. 124.35 fundur 629. mál: #A réttarstaða starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum# (EES-reglur, heildarlög) frv. 72/2002, SJS
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 127. lþ.

[11:47]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Mál ganga nú býsna hratt fram. Það eru ekki nema nokkrar mínútur síðan við ræddum hér einmitt, og þá í kippu af málum frá hv. utanrmn., þáltill. sem þessu máli tengist, þ.e. að taka upp ákvæði tiltekinnar tilskipunar sem síðan er þá aftur gefin lagastoð með þessu frv. Ég get að hluta til vísað til þess sem ég sagði þá um það mál. Enginn minnsti vafi leikur á því að þessi ákvæði fela í sér umtalsverðar réttarbætur eða fela í sér mikilvægan rétt fyrir launamenn sem er trygging þeirra fyrir því að launakjör þeirra og starfsréttindi yfirfærist eða haldist eftir því sem við getur átt eins og þau standa og eru fyrir hendi, samningsbundin og með öðrum hætti, á þeim degi sem aðilaskipti eiga sér stað og færast þá yfir til þess sem tekur við fyrirtækinu, þ.e. þess sem kallaður er framsalshafi í frv.

Það sem ég geri hins vegar athugasemdir við, herra forseti, og veldur þeim fyrirvara sem ég hef á um stuðning við frv. eins og fram kemur í nál. er í fyrsta lagi sú nálgun sem mér sýnist hér vera nánast að öllu leyti, þ.e. að um algjöra lágmarksnálgun sé að ræða, að í raun sé gengið út frá því að það beri að reyna að taka tilskipunina upp og setja henni lagastoð á þeim grunni að hvergi verði veittur nema sá lágmarksréttur sem tilskipunin tryggir.

Herra forseti. Eins og ég hef áður sagt finnst mér svolítið metnaðarlítið og dapurlegt að ekki skuli í einhverjum tilvikum vera tekið upp til sjálfstæðrar skoðunar í undirbúningi mála af þessu tagi þar sem aðilar vinnumarkaðarins koma nú oft að, þ.e. að vegna séríslenskra aðstæðna eða af öðrum ástæðum velji menn hér að búa öðruvísi um hlutina eða færa mönnum í einhverjum tilvikum ríkari rétt. Það getur verið auðvitað á báðar hliðar. Það geta verið ákvæði sem tengjast starfsmönnum í vissum tilvikum. Það gætu verið ákvæði sem tengjast fyrirtækjunum í öðrum tilvikum. Þetta minni ég nú á, herra forseti, vegna þess að mér finnst svolítið fara þannig hér oft þegar þessi mál eru á dagskrá að verkefni Alþingis og okkar sé eingöngu að taka við þessu eins og þetta er og lögfesta þetta þannig án þess svo mikið sem velta fyrir okkur hvort í einhverjum tilvikum, þar sem við höfum svigrúm til, og það höfum við að sjálfsögðu, sé ástæða til að ganga öðruvísi frá máli, t.d. veita fleirum en tilskipunin að lágmarki tekur til einhver tiltekin réttindi eða búa um þau með einhverjum öðrum hætti.

Herra forseti. Þarna vekur auðvitað athygli, og það hefði að mínu mati þurft að skoðast miklu betur áður en frv. verður gert að lögum, að samkvæmt b-lið 2. mgr. 1. gr. laganna, þar sem fjallað er um gildissvið þeirra, skal undanskilja hafskip. Og hvað þýða hafskip í þessu sambandi, herra forseti? Eru það skip sem eitthvert fyrirtæki sem heitir Hafskip á? Nei. Eru það fraktflutningaskip á heimshöfunum? Nei. Það eru, ef við höfum náð að læra það rétt í félmn., í raun og veru öll stærri skip sem fara á sjó og eitthvað að ráði frá ströndinni. Það þýðir að svo til allur íslenski flotinn lendir í þessum flokki. Með því er sem sagt, herra forseti, verið að ákveða að sá réttur sem ætlunin er með lögunum að tryggja starfsfólki við aðilaskipti að fyrirtækjum nýtist ekki íslenskum sjómönnum. Þeir verða þar undanþegnir. Nú er það ekki þannig að sjávarútvegsfyrirtæki gangi ekki kaupum og sölum eða sviptingar gangi ekki yfir á vinnumarkaði þeirra sem starfa í íslenskum sjávarútvegi bæði á sjó og landi.

En svona er þetta nú, herra forseti. Það verður að segjast eins og er að það var alls ekki unnt að vinna þetta eins og þurft hefði, t.d. með því að fá fulltrúa sjómanna og aðila vinnumarkaðarins til þess að setjast yfir þennan þátt málsins sérstaklega og skoða hvort það sé svona sem menn vilja ganga frá þessu eða hvort eitthvað annað komi til greina.

Það er alveg ljóst að við þurfum ekki, við erum ekki þjóðréttarlega skuldbundin til að gera þetta öðruvísi. Það má sleppa íslenska flotanum þarna nokkurn veginn eins og hann leggur sig og ákveða að lögfesta bara lágmarksgrundvöll tilskipunarinnar. En það er ekki þar með sagt að það sé endilega það sem eðlilegast sé að gera út frá íslenskum aðstæðum. Ég hef grun um það, herra forseti, að ástæða þessa ákvæðis sem undanþiggur hafskip til viðbótar þeim breytingum sem stjórnvöld gera þegar þau færa verkefni innan stjórnkerfisins --- það er sömuleiðis undanþegið hér, þ.e. réttur starfsmanna við aðilaskipti stofnast t.d. ekki ef um verkefnaflutning innan Stjórnarráðsins er að ræða eða aðrar slíkar breytingar sem tengjast þá endurskipulagningu opinberrar stjórnsýslu, enda er vel um það búið í öðrum lögum reyndar og við hvort sem er með ákvæði í lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna sem taka á því.

En skyldi nú kannski ekki ástæða þessa vera sú, herra forseti, að þegar menn voru að semja þessar tilskipanir úti í Brussel þá þótti þeim ekki auðviðráðanlegt að láta þetta t.d. taka til hins alþjóðlega kaupskipaflota? Sjávarútvegur er lítil atvinnugrein og jafnvel siglingar í mörgum þessara landa og þar sem þær vega þungt er oft um að ræða alþjóðlegan, jafnvel alþjóðlega skráðan kaupskipaflota á heimshöfunum. Mætti nú svo sem ýmislegt um það fyrirkomulag allt saman segja, herra horseti. Þar hefur hálfgert þrælahald leynt og ljóst verið ástundað á starfsmönnum frá þróunarríkjum. En þannig er það nú.

En það er ekki þar með sagt að við eigum hér þegar við ákveðum hvar við drögum mörkin í þessum efnum uppi á Íslandi að gefa okkur það fyrir sjálfgefið að íslenski flotinn sé þarna undanskilinn. Ekkert hindrar það að hafa hann þarna með, ekkert bannar okkur það ef við viljum ákveða það svo og við ráðum því hér á Alþingi vel að merkja. Hefur farið einhver efnisleg umræða fram um það hvort menn séu bara alveg sáttir við þetta og allir vilji hafa það þannig að íslenskir sjómenn njóti ekki þessa réttar? Ég lýsi nú eftir henni.

Þetta mun vætnanlega þýða að hluti starfsfólks í mjög mörgum fyrirtækjum hefur þennan rétt við aðilaskipti, þ.e. í blönduðum sjávarútvegsfyrirtækjum þar sem fólk starfar bæði í landi og á sjó. Þá geri ég ráð fyrir því að landfólkið hafi þennan rétt en ekki sjómennirnir. Það finnst mér ekki einboðið að hafa þannig. Það hefði e.t.v. mátt skoða það t.d. að undanskilja kaupskipaflotann til samræmis við hið alþjóðlega fyrirkomulag, ef mönnum hefðu þótt sérstök rök fyrir því, t.d. kaupskipaflota í millilandasiglingum. Hér er nú reyndar ekki eiginleg alþjóðleg skipaskráning. En það hefði mátt fara yfir og skoða það. En mér finnst alls ekki sjálfgefið að fiskiskipaflotinn sé skilinn þarna eftir út undan og svona almennt þá harma ég þá lágmarksnálgun sem hér er að finna á öllum sviðum.

Herra forseti. Síðan mætti kannski gera nokkrar athugasemdir ef maður eiginlega --- ég vil nú ekki segja, legði sig niður við það --- legði sig eftir því við orðalag hér og framsetningu mála og þessarar blessaðar hráu þýðingar á tilskipunum sem eru meiri háttar hausverkur. Það ergir mann svo á köflum að lesa ýmsilegt sem að manni ber að maður fer að velta því fyrir sér hvort það væri ekki bara betra að sleppa því að standa í þessum þýðingum heldur en að koma þessu yfir á eiginlega óbrúklega íslensku og framsetningu af því tagi sem hér getur að líta.

Til dæmis hljóðar 4. tölul. 2. gr. um orðskýringar þannig:

,,4. Aðilaskipti eru aðilaskipti á efnahagslegri einingu ...``

Það er nú svona heldur knosað, herra forseti, að orða þetta svona.

Eða 3. töluliðurinn:

,,3. Fyrirtæki er einstaklingur,`` --- fyrirtæki er einstaklingur, --- ,,félag, opinberir aðilar og aðrir þeir sem stunda atvinnurekstur ...``

Fyrsti málsliðurinn þarna er nú ekki skemmtilegur, að fyrirtæki sé einstaklingur. Þetta stafar auðvitað af því að menn eru að berja þarna saman þýðingu á einhverjum orðskýringum, væntanlega úr enskri tungu, hverrar málfræði er önnur og setningarskipan en í íslensku. Út úr því koma svona hlutir. Ég held, herra forseti, ef menn ætla sér að þýða þetta á frambærilega íslensku á annað borð að þeir verði að reyna að leggja talsverðan metnað í að finna út úr þýðingunum og koma þeim í sæmilega setningarskipan en reyna ekki um of á þanþol tungunnar. En það finnst mér vera alveg hreint á ýtrustu mörkum hér í ýmsum tilvikum.

Herra forseti. Ég mun að sjálfsögðu greiða þessu frv. atkvæði mitt af því að það felur í sér réttarbót svo langt sem hún nær. En ég hef þessa fyrirvara á og ég áskil mér allan rétt til þess að skoða það þó síðar verði að þetta verði útfært á einhvern annan hátt og sérstaklega farið yfir það hvernig öðruvísi verði frá þessu gengið varðandi íslenska sjómenn og starfsmenn í íslenskum sjávarútvegi, sem er auðvitað atvinnugrein í allt öðru samhengi hér en hún er víðast hvar annars staðar á svæðinu sem tilskipunin tekur til.