Réttarstaða starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum

Laugardaginn 20. apríl 2002, kl. 11:59:46 (7997)

2002-04-20 11:59:46# 127. lþ. 124.35 fundur 629. mál: #A réttarstaða starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum# (EES-reglur, heildarlög) frv. 72/2002, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 127. lþ.

[11:59]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti, örstutt. Ég tek undir með hv. þm. að frv. mætti gjarnan vera á íslensku. Það er svo knosað málfarið á því að oft er erfitt að skilja það.

Hins vegar vil ég benda á að í hv. félmn. þar sem þetta var rætt kom fram að um sjómenn gilda sérstök lög og með því að fella þá undir þessi lög kynni réttarstaða þeirra versna.

En síðan kemur að því hvort við Íslendingar eigum alltaf að taka upp lágmark í þeim reglum sem Evrópusambandið nefnir. Það er alveg réttmætt að við gætum að sjálfsögðu gert betur. En það eru alltaf tveir aðilar sem koma að atvinnulífinu. Það eru í fyrsta lagi fyrirtækin og hins vegar launþegarnir eða starfsmennirnir. Ef við förum að rugla því fína jafnvægi sem er á milli fyrirtækja og starfsmanna gætum við raskað t.d. atvinnuleysi vegna þess að ef við veitum starfsmönnunum góðan rétt og sanngjarnan þá gæti verið að mörg fyrirtæki sem ætluðu sér að fara í gjaldþrot en gætu hugsanlega lifað áfram ef reglurnar væru ekki of stífar, færu í gjaldþrot. Og starfsmennirnir sem við ætluðum að vernda sitja uppi með ríkari rétt en atvinnulausir.

Herra forseti. Það er spurning hvort hv. þm. vill hafa það sem er nánast orðið náttúrulögmál í Evrópusambandinu, þ.e. 10% atvinnuleysi og ungt fólk fær ekki vinnu í stórum hópum langt fram eftir starfsævinni. Þetta fá menn fá í kaupbæti þegar þeir auka rétt launþega um of á kostnað fyrirtækjanna, því jafnvægið er mjög viðkvæmt og fínt.