Réttarstaða starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum

Laugardaginn 20. apríl 2002, kl. 12:07:51 (8001)

2002-04-20 12:07:51# 127. lþ. 124.35 fundur 629. mál: #A réttarstaða starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum# (EES-reglur, heildarlög) frv. 72/2002, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 127. lþ.

[12:07]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Við ræðum hér um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum. Eins og sést á nál. frá nefndinni skrifa ég undir það með fyrirvara og get ég tekið undir nánast allar athugasemdir síðasta ræðumanns, hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar.

Ég verð að segja að þótt ég styðji þetta mál tel ég það ekki hafa verið nægilega unnið í nefndinni. Þýðingin á þessum reglum Evrópusambandsins, þ.e. þessari tilskipun, er alls ekki boðleg. Ég tel ýmislegt mjög athugavert við málfarið á frv. Við eigum ekki að senda frá okkur plögg eins og þessi, án þess að huga betur að íslenska textanum.

Í umsögnum um málið til nefndarinnar eru tillögur að mun betra orðalagi á ýmsum þáttum frv. en meiri hlutinn í nefndinni kaus að breyta engu og samþykkja frv. óbreytt.

Það kom einnig fram í nefndinni, þegar fulltrúar atvinnurekenda og verkalýðshreyfingarinnar komu á fund nefndarinnar, að málið var greinilega ekki fullunnið af hálfu ráðuneytisins þegar það var lagt fyrir nefndina, a.m.k. hafði vinnu við málið verið hætt í miðjum klíðum og síðan kom það inn til þingsins algjörlega eins og atvinnurekendur vildu að það liti út, án þess að tekið væri tillit til athugasemda frá verkalýðshreyfingunni.

Ég vil gagnrýna það, herra forseti. Ég tel að taka hefði átt tillit til ýmissa atriða hér. Ég vil gera að umtalsefni hér 1. gr. þar sem í ljós kemur að lögin muni ekki gilda um hafskip. Það var þó nokkur umræða um það í nefndinni. Það hefði e.t.v. átt að fá inn í nefndina frekari upplýsingar um réttindi þeirra sem ekki heyra undir þessi lög.

Það var líka gagnrýnt að í frv. vantaði markmiðsgrein og ég get tekið undir það. Sömuleiðis gagnrýni ég að tilskipunin hafi verið túlkuð svo þröngt sem raun ber vitni. Við hefðum vel getað farið yfir málið og tekið inn frekari atriði og aukið rétt launafólks með því. En meiri hlutinn kaus að túlka þetta þröngt og þannig er frv. lagt fyrir þingið til afgreiðslu.

Það hefur einnig verið gagnrýnt að viðurlög vanti ef ekki er farið að þessum lögum. E.t.v. hefði verið ástæða til að setja inn viðurlög í frv. Ég get tekið undir að ástæða hefði verið til þess. Sömuleiðis hefði þurft frekari orðskýringar. Orðskýringarnar í frv. nú þegar, það kom aðeins fram í máli síðasta ræðumanns hvernig staðið er að þeim orðskýringum og hve hráar þýðingarnar eru --- eins og þetta ,,fyrirtæki er einstaklingur`` eða ,,aðilaskipti eru aðilaskipti``. Alþýðusamband Íslands kom með tillögu að breytingu á skilgreiningu á aðilaskiptum sem mér finnst mun skýrari heldur en sú sem er í frv. En ASÍ lagði til að aðilaskipti yrði skýrt á þann veg að aðilaskipti væru hvers konar framsal eða samruni á fyrirtæki sem heldur einkennum sínum, þ.e. skipulagðri heild verðmæta sem notuð verður í efnahagslegum tilgangi, hvort sem um er að ræða aðal- eða stoðstarfsemi. Reyndar hefði ég talið þurfa að skýra aðal- og stoðstarfsemi en það orðalag kemur fyrir í frv. aftur og aftur.

Sömuleiðis hefði ég talið ástæðu til að hnykkja á því í 6. gr. að þegar fjallað er um upplýsingar og samráð, þar sem fyrirtækjum er skylt að láta trúnaðarmönnum starfsmanna eða starfsmönnum í té upplýsingar um ákveðin atriði, ætti að krefjast skriflegra upplýsinga. Upplýsingar geta verið alls konar og ef það eru munnlegar upplýsingar er ekki eins tryggt að menn geti sannað það að þeir hafi fengið upplýsingarnar eða sent þær frá sér.

Það er líka talað um að upplýsingar séu veittar með góðum fyrirvara en segir ekkert um hvað er góður fyrirvari. Það á að gefa upplýsingarnar með góðum fyrirvara áður en aðilaskiptin koma til framkvæmda. Það eru engar skilgreiningar á hvað góður fyrirvari er. Það er auðvitað matsatriði hverju sinni og auðvitað vantar líka refsiákvæði um það ef menn fá ekki upplýsingarnar með góðum fyrirvara.

Ýmislegt er athugavert við þetta frv. Það er nánast bein þýðing úr tilskipuninni. Við hefðum átt að taka tillit til ýmissa athugasemda sem koma m.a. frá BSRB og Alþýðusambandi Íslands, málefnalegra og góðra athugasemda sem ég hefði talið þörf á að taka inn í í frv. Menn voru hins vegar ekki tilbúnir að samþykkja það í meiri hlutanum.

Fyrirvari minn snýr sem sagt að því að þetta er of þröngt túlkað. Það vantar viðurlög og ég hefði viljað sjá þetta frv. á sómasamlegri íslensku.

Herra forseti. Eins og ég sagði áðan mun ég engu að síður styðja þetta mál þó að ég hafi fyrirvara á nál.