Niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar

Laugardaginn 20. apríl 2002, kl. 12:51:37 (8018)

2002-04-20 12:51:37# 127. lþ. 124.38 fundur 640. mál: #A niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar# (heildarlög) frv. 78/2002, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 127. lþ.

[12:51]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég deili alls ekki þeim sjónarmiðum með hv. þm. Pétri Blöndal að það sé óskynsamlegt inngrip í markaðinn að jafna húshitunarkostnað í einu landi. Ég hef heldur ekki séð nein sannfærandi rök fyrir því að þetta fyrirkomulag, sem tekur mið af þeim veruleika sem við stöndum frammi fyrir því að ákveðin landsvæði hafa aðgang að jarðhita og geta notið góðs af ákaflega ódýru heitu vatni til að hita upp hús en önnur ekki, valdi því að menn taki óskynsamlegar ákvarðanir um fjárfestingar.

Hitt virði ég við hv. þm. að hann er gegnumheill og sanntrúaður markaðshyggjumaður í sér og trúir á óskeikula handleiðslu hins óskeikula markaðar. Það er lífsskoðun út af fyrir sig. Það geri ég ekki. Ég lít hvorki á markaðinn sem óskeikulan né alvitran og þaðan af síður sem herra mannsins. Ég held einmitt að í þessu tilviki stöndum við frammi fyrir mjög skýrum kostum í þeim efnum, hvort við viljum beita samtakamætti, félagslegum lausnum eða hvað við köllum það, til þess að jafna einn af undirstöðuþáttum í lífsskilyrðum fólks, sem það auðvitað er í köldu landi að hafa þak yfir höfuðið og geta kynt upp með viðráðanlegum hætti.

Ég verð að segja að mér finnst hv. þm. nokkuð kjarkmikill að hjóla í þennan þátt málsins með þeim hætti sem hann gerir, vitandi þó væntanlega að kostnaðarmunur fjölskyldna vegna þessa þáttar er marghundraðfaldur í landinu. Það liggur við að fólk sem hæstan hefur kostnaðinn á þessu sviði borgi næstum því ársútgjöld þeirra sem hagkvæmastra hitaveitna njóta í mánuði hverjum. Telur hv. þm. það réttlætanlegt?