Niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar

Laugardaginn 20. apríl 2002, kl. 12:54:52 (8020)

2002-04-20 12:54:52# 127. lþ. 124.38 fundur 640. mál: #A niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar# (heildarlög) frv. 78/2002, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 127. lþ.

[12:54]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki óánægður með lífsskoðun hv. þm. Péturs Blöndals. Hann hefur hana í friði fyrir sig mín vegna. Ég er hins vegar ósammála honum og vil gjarnan rökræða grundvallarþætti af þessu tagi, t.d. hvort við ætlum að vera svo hörð í markaðshyggju að við hverfum t.d. bara alveg frá því fyrirkomulagi að jafna lífsskilyrði fólks hvað undirstöðuþætti af þessu tagi varðar.

Þá værum við virkilega að svara spurningunni um hvort við ætlum að gera markaðinn að algerum herra lífs okkar og láta hann, eins og hv. þm. benti réttilega á, einan ráða því hvernig íslenskt samfélag lítur út eftir 10 eða 50 ár, hvar fólk býr og hvar ekki og annað þar fram eftir götunum, eins og engin önnur sjónarmið og ekkert annað skipti máli. Samkvæmt þessu væri réttlætanlegt að ýta öllu öðru en lögmálum markaðarins til hliðar.

Ég held að þetta sé hvorki félagslega né menningarlega skynsamlegt eða réttlætanlegt. Ég held reyndar að þetta sé líka efnahagsleg heimska vegna þess að markaðurinn er oft mjög skammsýnn og blindur. Ef markaðurinn mundi t.d. leggja í eyði stóran hluta landsins vegna þess að þar væri engum ráðstöfunum beitt til að jafna kyndingarkostnað eða aðra undirstöðuþætti búsetu og mannlífs og svo kæmi allt í einu í ljós að þetta hefði verið efnahagslegt glapræði vegna þess að það hefði veikt efnahagslega undirstöðu þjóðarinnar til lengri tíma litið og gera það að verkum að við nýttum ekki verðmætasköpunarmöguleika sem lægju í byggðum landsins, torvelda uppbyggingu ferðaþjónustu o.s.frv. vegna þess að það væri ekkert fólk eftir í landinu til þess að annast um móttöku ferðamanna og kynna og sýna landið, gæta þess o.s.frv.

Er þetta ekki dálítið einfölduð og barnaleg mynd, að með hrárri markaðshyggju komist menn alltaf að réttri niðurstöðu og þannig eigi samfélögin að mótast og af engu öðru?