Niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar

Laugardaginn 20. apríl 2002, kl. 12:57:04 (8021)

2002-04-20 12:57:04# 127. lþ. 124.38 fundur 640. mál: #A niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar# (heildarlög) frv. 78/2002, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 127. lþ.

[12:57]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Þetta er afskaplega áhugaverð umræða. Spurningin er um hvort einstaklingurinn sé fær um það að líta til framtíðar þegar hann tekur ákvarðanir, t.d. hvort hann eigi að búa á Sauðárkróki, þar sem er afskaplega ódýr og hagkvæm hitaveita, eða á Skagaströnd þar sem þarf að hita upp með olíu.

Ég hef meiri trúi að einstaklingurinn sé fær um að meta kosti sína til framtíðar en hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon. Ég tel að hann hafi meira vit á því hvernig hann á að haga lífi sínu en ég. Ég get ekki sagt honum hvernig best er fyrir hann að lifa, eins og margir hv. þm. virðast hafa trú á.

Ég hef hins vegar lagt til að í þessu máli verði skoðað að fólk fái hreinlega greiðslur fyrir að búa á þessum stöðum og geti síðan sjálft ákveðið hvort það kaupir ofurdýrt rafmagn til húshitunar eða hvort það nýtir aðra möguleika, t.d. hitaveitu sem notast við eldivið, rekavið, kol, olíu eða einhverja aðra orkugjafa. Það yrði bara að eftirláta einstaklingum. Ég hef það mikla trú á einstaklingnum að hann geti metið það miklu betur sjálfur en við hér í Reykjavík.