Niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar

Laugardaginn 20. apríl 2002, kl. 12:58:33 (8022)

2002-04-20 12:58:33# 127. lþ. 124.38 fundur 640. mál: #A niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar# (heildarlög) frv. 78/2002, ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 127. lþ.

[12:58]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Við fjöllum hér um frv. til laga um niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar. Hv. þm. Pétur Blöndal var í ræðustól á undan mér og ljóst er að hann vill fara markaðsleiðir en í nefndinni er einhugur um þá leið sem fara á hér.

Ég er ósammála hv. þm. Pétri H. Blöndal, sérstaklega hvað þetta mál varðar. Það verður að geta þess að það sem við Íslendingar gerðum á 8. áratugnum, með uppbyggingu hitaveitna alls staðar þar sem gengið gat, massífum rannsóknum og síðan uppbyggingu hitaveitna allan 8. áratuginn og fram á 9. áratuginn, að til lengri tíma litið hefur þetta orðið til að skapa stórkostlega auðlind fyrir þetta samfélag.

Það má segja að hluti breytinganna hafi orðið á markaðslegum forsendum, þ.e. olían hækkaði svo mikið að menn sáu sér hag í því til framtíðar að fara í þessa uppbyggingu. En uppbyggingin varð þó fyrir áeggjan og að hluta til með opinberum fjármunum til að hraða þessari uppbyggingu. Það hefur komið okkur til góða mjög víða um landið og stórlega minnkað innflutning á eldsneyti frá útlöndum. Þetta er spurning um hvernig maður nálgast hlutina og oft á tíðum er réttlætanlegt að leggja til opinbert fé, sjái maður að slíkt geti til lengri tíma litið leitt til að þjóðin sem heild hagnast enn meira en áður var. Eins og ég segi var gott samkomulag um þetta frv. í nefndinni og skrifa ég undir nál.

[13:00]

Niðurgreiðslur á rafmagni eru ekki nýjar af nálinni. Raforka til hitunar íbúðarhúsa hefur verið niðurgreidd í tæplega tvo áratugi. Á fjárlögum ársins 2002 eru ætlaðar 853 milljónir úr ríkissjóði til þessara niðurgreiðslna, en afsláttur Landsvirkjunar er 100 milljónir og afsláttur Orkubús Vestfjarða og Rafmagnsveitna ríkisins nemur um 20 millj. kr. Auk þess kunna að vera niðurgreiðslur hjá öðrum veitufyrirtækjum, en upphæð þeirra hefur ekki verið tekin saman. Alls gætu því niðurgreiðslur á rafhitun húshitunar og afsláttur orkufyrirtækja numið um 1.000 millj. kr.

Ég tel mikilvægast í þessu frv. að þrátt fyrir niðurgreiðslurnar er til staðar hvati til þess að byggja upp nýjar hitaveitur. Þannig geta hitaveitur eða sveitarfélög sem vilja byggja upp hitaveitur fengið styrkinn greiddan til þess að fara yfir í jarðvarmaveitur og við á hinu háa Alþingi höfum reynslu af því. Þegar hafa nokkrar veitur notfært sér þetta fyrirkomulag til þess að bæta og stækka dreifikerfi sín eða byggja nýjar veitur. Þannig hefur Hitaveita Blönduóss fengið 6,6 millj. kr. af opinberu fé til þess að stækka dreifikerfið. Það háttar þannig til víða þar sem hitaveitur eru í rekstri að stofnkostnaður við stækkun dreifikerfisins er ekki arðbær út af fyrir sig fyrir viðkomandi fyrirtæki og þá er í mörgum tilfellum mjög æskilegt að styrkja viðkomandi veitur til þess að stækka dreifikerfin sem getur síðan leitt til þess í mörgum tilfellum að það er verið að undirbyggja möguleika á annarri atvinnuuppbyggingu en þegar er á svæðinu. Má þar nefna að með stækkun dreifikerfa víða hjá þessum veitum er kannski verið að leggja grunn að því að stór landsvæði verða fýsilegri t.d. fyrir sumarbústaðabyggð eða ferðaþjónustuaðila sem byggja mjög mikið á því að hafa aðgang að nægu heitu vatni.

Ég tel að þetta sé mjög mikilvægt og þetta sé innbyggt í frv. Að vísu er í frv. endurgreiðsla sem er miðuð við fimm ár. Við vorum mörg sem vildum fara lengra og taka tíu ára tímabil. Sennilega hefði það verið æskilegra. Raunar er það augljóslega dýrara fyrir ríkissjóð. En hefðum við haft það í frv. að taka tíu ára tímabil hefði að sama skapi verið enn þá meiri hvati fyrir þær veitur sem vilja stækka sig, byggja við dreifikerfi sitt eða að byggja nýjar veitur. Það hefði verið enn auðveldara en er samkvæmt þessu frv.

Auðvitað erum við öll þannig stemmd að við viljum að byggð séu upp orkufyrirtæki á grunni jarðhitans sem víðast. Það fyrirkomulag sem við tölum um hér og er aukið og styrkt hefur orðið til þess t.d. að Hitaveita Dalabyggðar hefur fengið 39,6 milljónir eins og kemur fram í frv. Hitaveita Dalvíkur hefur vegna stækkunar dreifikerfisins þar fengið 25,3 milljónir. Þar sem ég þekki vel til staðhátta þar þá er það borðleggjandi mjög mikið framfaraskref sem á sér stað með þeim möguleika sem Hitaveitu Dalvíkur er gefinn með þessum styrk til þess að byggja upp hitaveitu á Árskógsströnd og í þorpunum á Árskógssandi og í Hauganesi. Án styrkjarins hefði þetta að öllum líkindum verið mjög erfið framkvæmd. En með styrknum er dreifikerfi Hitaveitu Dalvíkur komið á allt þetta svæði og það gjörbreytir möguleikum manna til atvinnuuppbyggingar í þessum litlu þorpum og síðan kemur verulegur hluti sveitabæjanna með. Þetta tel ég vera mjög til góða. Fleiri hafa fengið möguleika á þessu, t.d. Hitaveita Drangsness, Hitaveita Skagafjarðar vegna stækkunar dreifikerfisins í Skagafirði, Hitaveita Stykkishólms vegna nýrrar veitu og síðan Hitaveita Öxarfjarðar vegna tiltölulega nýrrar veitu.

Ég held að við séum öll sammála um að þetta sé gott fyrirkomulag. Við getum hins vegar deilt um hvað endurgreiðslutímabilið eigi að vera langt. Hæstv. iðnrh. hefur fallist á fimm ár. En eins og ég segi þá var vilji í nefndinni, og verður þá að endurskoða það eins fljótt og menn treysta sér til, að fara í endurgreiðslu sem nemur tíu árum. Margir telja að það mundi enn auka áhuga manna á því að fara í hitaveitur víðar um landið þar sem þær eru ekki nú þegar.

Ég tel að í frv. sé stigið mjög mikilvægt skref líka því auðvitað á það að vera þannig þegar greiddur er niður orkukostnaður að mjög mikilvægt er að almenningur sé upplýstur um hvaða verðmæti hann er með í höndunum þannig að niðurgreiddar afurðir, hvort sem það er rafmagn eða annað, mega alls ekki leiða til þess að menn fari að bruðla með hitann eða afurðirnar. Þess vegna er mjög mikilvægur kafli settur inn með brtt., þ.e. að fara í orkusparnaðaraðgerðir. Það getur reyndar reynst mjög vel fyrir landið allt saman vegna þess að í brtt. er lagt til að verja skuli til orkusparnaðar allt að 1% af því fé sem ákveðið er á fjárlögum til niðurgreiðslna á kostnaði við húshitun til þess að styrkja nýjar hitaveitur. Orkusparnaðaraðgerðir skulu stuðla að því að draga úr kostnaði við niðurgreiðslur á húshitunarkostnaði og Orkustofnun skal gera áætlun um hvernig fénu skulið varið og leggja hana fyrir iðnrh. til staðfestingar.

Ég held að þó að þetta sé sett inn í frv. með brtt. um niðurgreiðslu á húshitunarkostnaði þá eigi kannski að taka orkusparnaðarmál upp á miklu víðtækari grunni. Við ættum að taka það mál inn á öðrum forsendum vegna þess að það er morgunljóst að þar sem eru ódýrar hitaveitur í dag er mjög mikið bruðlað með orkuna. Maður finnur strax fyrir því sjálfur. Ég bý t.d. sjálfur við dýra hitaveitu. En síðan kemur maður inn á orkuveitusvæði þar sem hitaveita er ódýrari eins og í minni heimabyggð á Dalvík og ég tala nú ekki um á höfuðborgarsvæðinu. Þar bruðlar fólk augljóslega mjög mikið með orku, hefur allt of heitt í húsum sínum o.s.frv. Ég held að hæstv. ríkisstjórn og hv. Alþingi eigi að leggja drög að því að gert verði átak í því að upplýsa fólk um það hvernig fara skuli með þessa auðlind án þess að það sé til nokkurra óþæginda fyrir viðkomandi vegna þess að bruðl með orku eins og það tíðkast hér landi er yfirleitt vegna vanþekkingar. Það er enginn að tala um að menn eigi að skera niður við sig orku, alls ekki, heldur að nota hana skynsamlega og rétt.

Bruðl með orku er stórmál vegna þess að ef menn framkalla orkusparandi hugsunarhátt í landinu má í fyrsta lagi fresta uppbyggingu virkjana vegna aukins iðnaðar og fjölgunar í samfélaginu. Það liggur augljóslega fyrir. Hver sú virkjun sem er hægt að fresta að reisa vegna orkusparandi aðgerða skiptir milljörðum. Þetta hafa aðrar þjóðir farið í gegnum, ég tala nú ekki um Norðurlandaþjóðirnar sem hafa farið mjög markvisst í gegnum þetta ferli varðandi orkusparnað. Sparnaðurinn af því er talinn í milljörðum króna ef almenn þátttaka fæst í verkefni af því tagi að spara orku á öllum sviðum.

Þó svo að við höldum að heita vatnið sé óþrjótandi auðlind þá er það ekki svo. Orkusparandi aðgerðin, meðvitund fólksins um orkunýtingu, getur leitt til stórbætts rekstrar hitaveitna víða um landið. Hitaveitur draga stundum niður í holunum sem dælt er upp úr og það að minnka orkunotkunina gerir það augljóslega að verkum að minna þarf að bora.

(Forseti (GÁS): Forseti vill inna hv. þm. eftir því hvort hann eigi mikið eftir af ræðu sinni því ráðgert hafði verið að gera hlé á þessum fundi frá klukkan eitt til hálftvö, matarhlé.)

Virðulegi forseti. Ég á reyndar ekki mjög mikið eftir. En ég þigg það að gera hlé og klára mál mitt á svo sem eins og tíu mínútum eftir það.

(Forseti (GÁS): Þá verður það svo og hv. 6. þm. Norðurl. e. gerir hlé á ræðu sinni. Enn fremur er gert hlé á þessum fundi og honum fram haldið kl. 13.30.)