Þjóðhagsstofnun o.fl.

Laugardaginn 20. apríl 2002, kl. 13:59:08 (8030)

2002-04-20 13:59:08# 127. lþ. 124.9 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, ÖJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 127. lþ.

[13:59]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Með því að leggja niður Þjóðhagsstofnun er verið að veikja undirstöður lýðræðis. Umræðu um efnahags- og atvinnumál þarf að byggja á traustum upplýsingum, en forsenda slíkrar umræðu er að þeir sem taka þátt í henni, hvort sem það eru alþingismenn, samtök launafólks eða aðrir, þurfa að hafa aðgang að upplýsingum.

Með þessum breytingum er verið að draga úr slíku aðgengi og það er verið að færa vinnslu gagna og efnahagsspár undir pólitískt framkvæmdarvald í ríkara mæli en verið hefur. Við megum ekki láta það sama henda okkur og henti Nýsjálendinga. Þegar Nýsjálendingar fóru loksins að vakna til vitundar um afleiðingar einkavæðingar sem þá hafði verið framkvæmd mótmælalaust í sex ár fór nýsjálenska þjóðhagsstofnunin loksins að ranka við sér og gerðist ósammála forsætisráðherra sínum. Hvað skyldi hann hafa gert? Hann lagði stofnunina einfaldlega niður. Þetta er ekki til eftirbreytni, herra forseti.