Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Laugardaginn 20. apríl 2002, kl. 16:39:54 (8047)

2002-04-20 16:39:54# 127. lþ. 124.64 fundur 670. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# (norsk-íslenski síldarstofninn) frv. 50/2002, Frsm. 2. minni hluta JÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 127. lþ.

[16:39]

Frsm. 2. minni hluta sjútvn. (Jóhann Ársælsson):

Hæstv. forseti. Við ræðum nú um síldina og þær reglur sem hæstv. sjútvrh. og fylgismenn hans hafa ákveðið að leggja til að gildi við úthlutun á veiðirétti í síld.

Hæstv. forseti. Fyrst vil ég segja að vegna þess að þetta mál var tekið á dagskrá á laugardegi og þingmenn höfðu ekki gert ráð fyrir því að vera hér á fundum fram eftir laugardegi mæli ég fyrir minnihlutaáliti sem Svanfríður Jónasdóttir átti að vera framsögumaður að, en ég skrifaði undir álitið með henni.

Þetta frv. sjávarútvegsráðherra byggist á tveimur atriðum, að Fiskistofa úthluti einstökum skipum aflahlutdeild í norsk-íslenska síldarstofninum á grundvelli aflareynslu þeirra frá því að veiðar hófust aftur á stofninum árið 1994 og síðan er sú regla áréttuð að hafi skip komið í stað annars njóti það aflareynslunnar. Þessar breytingar eru lagðar til eftir að ákveðið hefur verið að veiðar á norsk-íslenska síldarstofninum falli undir 5. gr. laga um veiðar utan lögsögu Íslands og að aflahlutdeildum verði úthlutað á skip.

Jafnaðarmenn hafa þrisvar lagt fram frv. til breytinga á lögunum um fiskveiðar utan lögsögu Íslands í samræmi við það sem Samfylkingin leggur til varðandi úthlutun aflaheimilda samkvæmt lögunum um stjórn fiskveiða, þ.e. að veiðarnar verði boðnar út. Fyrsta þingmálið í þá veru var lagt fram á 121. þingi, síðan á 122. þingi og loks á 126. þingi. Þá hafa fulltrúar jafnaðarmanna í sjávarútvegsnefnd jafnan lagst gegn þeim ráðstöfunum sem meiri hlutinn hefur á hverjum tíma gert vegna norsk-íslenska síldarstofnsins en þær ráðstafanir hafa leynt og ljóst miðað að því að kvótasetja stofninn eins og nú er verið að innsigla. Framangreind frv. og nál. fulltrúa jafnaðarmanna eru hluti af þessu nefndaráliti.

Eins og alkunna er voru veiðar íslenskra fiskiskipa úr norsk-íslenska síldarstofninum ekki stundaðar svo neinu næmi í yfir 30 ár. Á síðustu árum hefur orðið þar breyting á. Með samningum um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum milli síldveiðiþjóðanna á norðanverðu Atlantshafi hafa Íslendingar tryggt sér veiðiréttindi á bilinu 132--233 þús. lestir úr leyfilegum heildarafla. Ef vonir manna um aukningu í stofninum og að stærri hluti hans gangi inn í íslenska lögsögu rætast er nú augljóslega verið að úthluta mun meiri verðmætum, gætu orðið allt að þrefalt meiri, en leiða má af veiðireynslu skipanna í tonnum talið.

Þá liggur ekki fyrir hvort ráðherra hyggst nýta sér þá innskilareglu sem er að finna í 5. gr. laga um veiðar utan lögsögu Íslands og var beitt þegar veiðar á úthafskarfa á Reykjaneshrygg og rækju á Flæmingjagrunni voru kvótasettar á sínum tíma.

Úthlutun ,,varanlegra`` aflahlutdeilda úr norsk-íslenska síldarstofninum er framkvæmd af hálfu sjávarútvegsráðherra þrátt fyrir þá staðreynd að þegar frv. til laga um fiskveiðar utan lögsögu Íslands var afgreitt út úr sjávarútvegsnefnd á sínum tíma sagði í áliti meiri hlutans sem var undirritað af þingmönnunum Árni R. Árnasyni, Stefáni Guðmundssyni, Vilhjálmi Egilssyni, Einari Oddi Kristjánssyni, Hjálmari Árnasyni og Guðmundi Hallvarðssyni: ,,Veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum verði á grundvelli leyfa til veiðanna á sambærilegum forsendum og verið hafa. Veiðireynsla úr þessum stofni myndi ekki grunn að fastri aflahlutdeild.``

Undir þessa yfirlýsingu skrifuðu allir þeir hv. þm. sem ég las hér upp nöfnin á. Eitthvað er að gerast annað núna með þeim tillögum sem hér liggja fyrir.

Samfylkingin styður ekki þá ákvörðun ráðherra að úthluta einstökum skipum aflahlutdeild í norsk-íslenska síldarstofninum enda hafa fulltrúar jafnaðarmanna í sjávarútvegsnefnd ítrekað lagt til að önnur leið yrði valin. Samfylkingin mun því sitja hjá við þær tæknilegu lagfæringar sem hér eru lagðar til vegna þeirrar ákvörðunar ráðherra.

Undir nál. rita Svanfríður Jónasdóttir og Jóhann Ársælsson.

[16:45]

Hæstv. forseti. Meðferðin á íslenska síldarstofninum og réttinum til að veiða þar úr er í hnotskurn það sem stjórnvöld á Íslandi hafa verið að baksa við á undanförnum árum, þ.e. að koma endanlegu eignarhaldi útgerðarmanna á allan veiðirétt við Ísland. Þegar síldveiðarnar hófust var það svo undarlegt að ráðamenn litu á það sem sérstakt vandamál að síldin skyldi vera munaðarlaus, það væri enginn sem ætti hana. Það var stórkostlegt vandamál vegna þess að stefnan sem uppi var var að gera allan veiðirétt að eign í höndum útgerðarmanna.

Og menn fóru af stað, eins og hefur verið rakið hér í ræðu á undan, hjá hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni, og yfirlýsingarnar sem ég las áðan segja sína sögu um það hvernig stjórnmálamenn sem áttu sæti á Alþingi þá litu á málið, þ.e. að veiðiréttur sem yrði til með þessum hætti ætti ekki að mynda grunn að varanlegum réttindum.

Við höfum tekist á um þessi vandamál, þ.e. veiðiréttindi, á hér í sölum Alþingis alveg frá því að kvótakerfi var komið á og munum halda áfram að takast á um þau ef fer sem horfir. En það að menn skuli hafa haft þrek til þess hér í sölum Alþingis, stjórnarmeirihlutinn á Alþingi og ríkisstjórnin skuli hafa haft þrek til þess að taka ákvarðanir um það að koma eignarhaldi með slíkum hætti sem hér er verið að gera á íslenska síldarstofninn, ekki bara að menn fengju leyfi til þess að veiða samkvæmt þeirri veiðireynslu sem þeir höfðu fengið á þeim árum sem þeir stunduðu þessar veiðar í upphafi heldur skuli úthluta þeim aflahlutdeild í þessum stofni. Og það er nákvæmlega sama hversu stór þessi norsk-íslenski síldarstofn yrði, þær útgerðir sem núna eiga veiðirétt í honum mundu eiga allan veiðiréttinn, hvort sem veiðiréttur þeirra mundi tvöfaldast, þrefaldast eða tífaldast.

Þetta lýsir því ákaflega vel sem er að gerast og hefur verið að gerast á undanförnum árum hvað varðar auðlind íslensku þjóðarinnar. Hún skal hvað sem tautar og raular verða öll að eign þeirra sem stunda útgerð á Íslandi. Og það er seilst í alls konar rökstuðning fyrir þessu. Ég minnist þess að í dómi Hæstaréttar, sem fjallaði um þetta mál, taldi hann --- og þar komu menn upp um sig sem kváðu upp þann dóm, að þeir höfðu ekki lesið heima, þeir höfðu ekki farið yfir söguna hvernig veiðiréttur sem nú er úthlutað til veiða á hinum ýmsu tegundum á Íslandsmiðum, hefur orðið til, vegna þess að þeir komu upp um sig með því að segja að úthlutunin hefði átt sér málefnalegar forsendur.

Það má sjálfsagt segja að úthlutunin hafi átt málefnalegar forsendur að sumu leyti, þ.e. að því leyti til sem úthlutunin hefur byggst á því að útgerðarmenn hafi verið að veiða í frjálsu umhverfi og samkeppni hver við annan. En það er einungis hluti af veiðiréttinum sem þannig er til kominn. Það er hægt að nefna ýmis dæmi um ákvarðanir stjórnvalda sem beinlínis voru teknar til þess að koma eignarhaldi á veiðiréttindunum í hendur útgerða. Tilteknum fjölda skipa voru úthlutuð sérstök réttindi, t.d. til þess að veiða í dragnót hér í Faxaflóanum. Það voru yfirlýsingar um það þá að slík réttindi til tiltekins ákveðins, afmarkaðs hóps mundu aldrei verða að eignarréttindum í höndum þeirra sem slík réttindi fengju. (Gripið fram í.) Það er búið að úthluta öllum slíkum réttindum í hendur þeirra manna sem gerðu út þessi skip sem eignarréttindum á veiðirétti. Það er hægt að nefna dæmi um það að tveimur til þremur skipum hafi verið úthlutaður réttur til þess að veiða rækju í tilteknum fjörðum. Engir aðrir fengu þar að komast að.

Tveim eða þrem árum seinna var þessum réttindum úthlutað sem réttindum sem hægt var að framselja sem eignarréttindum og menn seldu. Ýmsir útgerðarmenn fengu úthlutað veiðiréttindum út á það að sendar hefðu verið inn tilkynningar um að það ætti að smíða einhver skip. Kilir uppi á landi urðu allt í einu að einhverjum tilteknum tonnafjölda. Fjölveiðiskip sem ákveðið hafði verið að byggja fengu úthlutað veiðiréttindum. Ríkið skammtaði þessum aðilum veiðiréttindi. Einhverjir skipstjórar sem höfðu verið við störf um borð í skipum sem einnig hafði verið úthlutað veiðiréttindum, fengu réttindi þannig að út á útgerð sama skipsins fengust tvöföld réttindi með þeim hætti. Ef menn fluttu veiðiréttindi af Suðvesturlandi til Norðurlands þá bættust 25% ofan á veiðiréttindin sem flutt voru á töluvert löngu tímabili. Ekki er hægt að halda því fram að fyrir öllum þessum veiðiréttindum sem ég hef verið að telja upp og urðu til með þessum hætti hafi verið málefnaleg ástæða og að þau hafi verið einhvers konar atvinnuréttindi sem urðu til með þessum hætti. Það er fráleitt að halda slíku fram.

Og um síldina, sem við erum að fjalla hér um, má segja mjög svipaða hluti. Síldin var ekki einhver stofn sem menn réðust í að veiða og hefðu átt frumkvöðlarétt að, eins og það hefur líka stundum verið kallað, til þess að fá úthlutaðan veiðirétt vegna þess að menn hefðu verið að leggja í margra ára veiðar og kostnað til þess að nýta einhverja nýja stofna. Veiðiréttindin í síldinni urðu til í samningum við aðrar þjóðir og þeir sem fengu að veiða síldina komu til leiks þegar búið var að semja um að það mætti veiða hana.

Þetta sem ég er að tala hér um er allt saman hluti af hinu mikla þrætumáli sem er eignarhaldið og hvernig með það skuli fara á þessari auðlind okkar þjóðar. Hér hafa ráðið ferðinni í sölum Alþingis og ríkisstjórna undanfarinna ára menn sem hafa haft þá stefnu, hafa haft þá bjargföstu ákvörðun á bak við sína stefnu að veiðiréttindi á Íslandsmiðum, rétturinn til að nýta Íslandsmið ætti að vera séreign útgerðarmanna. Og það er hluti af þeirri stefnu sem birtist í því að menn skuli hafa þrek til þess að leggja fram tillögur hér í sölum Alþingis um það að íslenski síldarstofninn skuli vera eign þeirra sem hafa nýtt hann frá því að samningar náðust, hversu stór sem hann verður í framtíðinni.

Mig langar til þess að fara svolítið yfir þau viðbrögð sem Samfylkingin hefur verið með við þessu og það fólk sem í henni er og hefur lagt fram tillögur á undanförnum árum til þess að reyna að leysa þessi vandamál. Ég ætla að byrja á því að nefna hér að á 121. löggjafarþingi fluttu Sighvatur Björgvinsson, Jón Baldvin Hannibalsson, Össur Skarphéðinsson og Ágúst Einarsson frv. til laga og í því frv. voru einungis tvær greinar.

Fyrri greinin hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Ráðherra er heimilt, þrátt fyrir ákvæði 2. og 6. mgr., að bjóða árlega út veiðiheimildir á norsk-íslenska síldarstofninum. Er þá útgerðum fiskiskipa sem hæf eru til þess að stunda síldveiðar heimilt að gera tilboð í tiltekið aflamark af síld. Ráðherra skal ákveða útboðsskilmála og skal þar kveðið á um hámark og lágmark þess aflamarks sem heimilt er að bjóða í vegna einstaks fiskiskips, skilafrest á tilboðum og önnur atriði er máli skipta vegna útboðsins. Þá er ráðherra heimilt að ákveða í útboðslýsingu að ekki verði tekið tilboðum undir tilteknu lágmarksverði.

Hæstu tilboðum skal jafnan tekið meðan aflaheimildir hrökkva til. Séu tvö eða fleiri tilboð jafnhá en heildaraflamark ekki nægjanlegt til þess að taka þeim að fullu skal tilboðunum tekið með hlutfallslegri skerðingu. Tilboðsgjafi er bundinn af tilboði sínu en á þó rétt á að falla frá því sé um slíka skerðingu að ræða. Tilboðsgjafi skal staðgreiða aflamark og skal aflamarkið skráð á viðkomandi fiskiskip þegar það hefur verið greitt að fullu. Tekjum af útboði aflaheimilda skal varið til haf- og fiskirannsókna og til slysavarna sjómanna, þar á meðal til rannsókna sjóslysa samkvæmt nánari ákvörðun Alþingis.``

Í greinargerðinni stendur, með leyfi hæstv. forseta:

,,Eins og alkunna er hafa veiðar íslenskra fiskiskipa úr norsk-íslenska síldarstofninum ekki verið stundaðar svo neinu nemi í yfir 30 ár. Á allra síðustu árum hefur orðið þar breyting á. Norsk-íslenski síldarstofninn hefur verið í mikilli framför eftir langvarandi lægð og eru nú merki um að hann sé að ganga á gamlar slóðir. Með samningi um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum milli síldveiðiþjóðanna á norðanverðu Atlantshafi, sem gerður var á sl. ári og Íslendingar eru aðilar að, tryggðu Íslendingar sér veiðiréttindi úr stofninum á hafsvæðunum utan íslensku fiskveiðilögsögunnar, og á vertíðinni, sem hefst í vor, hafa Íslendingar öðlast rétt til veiða á 230 þúsund tonnum af síld úr stofninum. Á þessu og síðasta ári hófust því á ný síldveiðar íslenskra skipa úr norsk-íslenska síldarstofninum --- veiðar sem miklar vonir eru bundnar við og þá ekki síst ef stofninn hefur göngu sína á fornar veiðislóðir innan íslensku fiskveiðilögsögunnar.

Vegna þess hve langur tími er liðinn frá því að síldveiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum voru stundaðar af íslenskum fiskiskipum er ekki á neinni veiðireynslu að byggja hjá þeim flota sem nú hyggst stunda þær veiðar. Síldveiðiskipin, sem þessar veiðar stunduðu fyrir þrjátíu árum, eru flest horfin úr íslenska flotanum og útgerðir margra þeirra hættar störfum. Íslendingar standa því frammi fyrir aðstæðum, þegar veiðarnar hefjast aftur, sem eru alls ólíkar því sem átt hefur við um veiðar úr öðrum fiskstofnum á Íslandsmiðum og utan þeirra þar sem byggt var á margra ára veiðireynslu skipa sem í útgerð voru þegar stjórnkerfisleiðir voru valdar.

[17:00]

Á komandi síldarvertíð er gert ráð fyrir frjálsum veiðum með þeim einu takmörkunum að þau skip ein fái veiðiheimildir sem sérútbúin eru til síldveiða. Þar sem líklegt er talið að árið 1997 kunni að vera fyrsta ár af 3--6 árum þar sem síldveiðiútgerðir afla sér veiðireynslu er verði grundvöllur að aflamarksúthlutunum síðar óttast margir að mikið kapphlaup verði meðal síldarútgerða um að hefja veiðar sem allra fyrst og veiða strax sem allra mest til þess að tryggja sér sem hæsta hlutdeild úr heildarkvótanum, 230 þús. tonnum, sem ákveðinn hefur verið. Rökin eru ekki síst þau að með því væru útgerðarmenn síldarskipa að tryggja sem best stöðu sína hvað aflahlutdeild varðar í þeim tilgangi að standa sem best að vígi þegar að því kæmi að aflakvóta yrði úthlutað í samræmi við veiðireynslu. Fari svo óttast menn m.a. að manneldismarkmið í síldveiðum verði víkjandi og verðmæti síldveiðanna fyrir þjóðarbúið verði mun minna en vera ætti og verið gæti. Þá er einnig á það bent að sé stefnt að úthlutun aflamarks á skip með slíkum aðdraganda sé ráðgert að ganga enn lengra á þeirri braut að úthluta ókeypis verðmætum til tiltekinna einstaklinga og útgerða --- ókeypis aflakvótum í síldveiðum --- sem að þessu sinni hafi ekki verið undirbyggð á grundvelli veiða skipa heldur fyrir tilstilli samninga sem handhafar almannavalds hafa gert við aðrar þjóðir. Því er óeðlilegt með öllu að gera ráð fyrir að slíkum verðmætum verði innan fárra ára skipt upp á milli nokkurra aðila án þess að gjald komi fyrir.

Með frumvarpi þessu er lagt til að sú stefna verði mótuð varðandi veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum að sá kostur verði gefinn í lögum að í stað veiða með ókeypis aðgangi tiltekinna veiðiskipa og með úthlutun ókeypis aflakvóta í framtíðinni séu veiðiheimildir seldar á frjálsum markaði til útgerða þeirra skipa sem búin eru til síldveiða. Verði frumvarpið að lögum á sjávarútvegsráðherra þann kost að velja slíka leið, en það á hann ekki í gildandi lögum. Í frumvarpinu eru jafnframt ákvæði um hvernig að slíku útboði á aflaheimildum skuli staðið verði sú leið valin.

Í umræðum um veiðileyfagjald, þ.e. sölu aflaheimilda, hafa komið fram ýmsar tillögur og hugmyndir um útfærslu, en með veiðileyfagjaldi er átt við gjaldtöku í tengslum við úthlutun veiðiheimilda. Nokkur dæmi um slíka útfærslu eru nefnd í þingsályktunartillögu þingmanna jafnaðarmanna um veiðileyfagjald (3. máli 121. löggjafarþings). Í frumvarpinu er sú útfærsluleið valin hvað varðar sölu veiðileyfa á norsk-íslenska síldarstofninum að selja veiðileyfi í almennu útboði þar sem útgerðir allra íslenskra skipa, sem stundað geta síldveiðar, hafa sama rétt til þátttöku. Þótt sú útfærsluaðferð sé valin hér ber ekki að hafa það til marks um að flutningsmenn séu þeirrar skoðunar að hana beri að velja öðrum fremur hvað varðar framkvæmd veiðileyfagjalds í öðrum fiskveiðum. Þar koma aðrar aðferðir ekki síður til greina eins og rakið er í tillögu jafnaðarmanna sem vikið var að hér að framan.

Litlar upplýsingar eru tiltækar um markaðsverð á aflaheimildum vegna síldveiða í frjálsum viðskiptum og engar um slík viðskipti með aflaheimildir í norsk-íslenska síldarstofninum því að engin slík viðskipti hafa orðið. Ógerningur er því með öllu að spá fyrir um hvert gæti orðið markaðsverðmæti þeirra aflaheimilda í útboði sem hér er gerð tillaga um. Í frumvarpinu er hins vegar gert ráð fyrir að allar tekjur, sem ríkið kynni að hafa af útboðinu, renni til þess að greiða kostnað í þágu sjávarútvegsins sjálfs og sjómanna, þ.e. til haf- og fiskirannsókna og slysavarna sjómanna, þar á meðal til rannsókna sjóslysa. Fyrir það fé, sem fengist með útboðinu, ætti að vera unnt að efla mjög þá starfsemi sem hér um ræðir sjávarútveginum og sjómönnum til velfarnaðar.

Með útboði á aflaheimildum er einnig komið í veg fyrir að manneldismarkmiðum í síldveiðum verði vikið til hliðar eins og margir óttast að verða muni við núverandi aðstæður. Séu veiðiheimildir keyptar gegn gjaldi í stað ókeypis aðgangs verður ríkari nauðsyn til þess að verðmæti aflans verði sem allra mest. Munu útgerðarmenn og sjómenn þá huga að því að skipuleggja veiðar sínar með þeim hætti í stað þess að ná sem mestu magni án tillits til verðmætis.

Umræður um sölu aflaheimilda í hefðbundnum veiðum hafa verið vaxandi á Íslandi og samkvæmt nýrri skoðanakönnun á vegum Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands hafa rösklega 75% landsmanna lýst sig fylgjandi því grundvallarsjónarmiði. Tímabært er því orðið að lögð sé fram á Alþingi tillaga í mynd lagafrumvarps um hvernig af slíku geti orðið og vegna þeirrar sérstöðu, sem veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum hafa, er tilvalið að beita þar slíkri aðferð. Með samþykkt frumvarpsins gefst einstakt tækifæri til þess að framkvæma þá stefnu sem mikill meiri hluti þjóðarinnar hefur lýst fylgi við og verða sér úti um mjög dýrmæta reynslu af slíkri framkvæmd sem gæti nýst við endurskoðun á fyrirkomulagi aflamarkskerfisins í öðrum veiðum sem stundaðar eru frá Íslandi.

Öfugt við flestar aðrar fiskveiðar miðast síldveiðiárið við almanaksár og er því lagt til að frumvarp þetta, ef að lögum verður, öðlist gildi 1. janúar 1998. Eru þá a.m.k. fjórir mánuðir þar til síldarvertíð getur hafist og er það góður tími til þess að undirbúa þá nýju framkvæmd, sölu aflaheimilda úr norsk-íslenska síldarstofninum, sem frumvarpið gerir ráð fyrir.``

Ég held að það sé full ástæða til að rifja upp þessa tilögu einfaldlega vegna þess að hún var tímabær þegar þarna var komið sögu. Og ég tel að það hafi verið mikið slys að menn skyldu ekki taka þau veiðiréttindi sem þarna voru í boði og bjóða þau fram þar sem jafnræði hefði verið haft til hliðsjónar og allir hefðu staðið jafnir gagnvart því að nálgast þessi veiðiréttindi með þeim hætti sem þarna var lagt til.

En það var nú ekki aldeilis að hér í sölum Alþingis eða við það ríkisstjórnarborð sem þá var væri áhugi á því að leita eftir slíkum leiðum. Áhuginn virtist einungis beinast að því að reyna að finna leiðir eða láta tímann líða kannski öllu fremur, eins og dæmið sannar sem við erum hér með í höndunum, þangað til menn hefðu komið sér upp þreki til þess að bera fram tillögu um það að úthluta þessu varanlega til útgerða sem stunda síldveiðar við Ísland. Og nú hefur hæstv. sjútvrh. öðlast þrekið og meiri hlutinn á Alþingi virðist vera tilbúinn til þess að ganga fram í því að staðfesta það hér í sölum Alþingis að þeir útgerðarmenn sem gera út á síldveiðar á Íslandsmiðum eigi norsk-íslenska síldarstofninn, hversu stór sem hann verður í framtíðinni.

Þetta er auðvitað gjörsamlega ótækt og ætti ekki að vera meiri hluti fyrir því á hv. Alþingi að fara leið eins og þessa. Og ég verð að segja það, hæstv. forseti, að ég veit að hæstv. forseta blöskra slíkar aðfarir sem hér eru á ferðinni, að verið sé að slá eignarhaldi þeirra sem eru núna í útgerð á Íslandi á allan norsk-íslenska síldarstofninn, inn í framtíðina.

Fleiri frumvörp af því tagi sem ég var hér að lýsa hafa verið flutt. Á 122. löggjafarþingi 1997--1998 var flutt frv. til laga, sem Sighvatur Björgvinsson, Jón Baldvin Hannibalsson, Össur Skarphéðinsson og Ágúst Einarsson fluttu líka, sem hafði sama tilgang og það frv. sem ég var að lýsa hér áðan. Í nál. 2. minni hluta sjútvn. á 122. löggjafarþingi á þskj. 1345, um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum, kemur eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

,,Jafnaðarmenn hafa lagt til, bæði á þessu þingi (146. mál) og því síðasta, að veiðiheimildir úr norsk-íslenska síldarstofninum yrðu boðnar út og að gerðar yrðu viðeigandi breytingar á lögunum um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, nr. 151/1996. Það er skoðun jafnaðarmanna að með þeirri skipan mála væri líklegast að markmið fiskveiðistjórnunar um hagkvæmar veiðar og réttláta úthlutun veiðileyfa næðist fram.

Eins og alkunna er hafa veiðar íslenskra fiskiskipa úr norsk-íslenska síldarstofninum ekki verið stundaðar svo neinu nemi í yfir 30 ár. Á allra síðustu árum hefur orðið breyting á því. Norsk-íslenski síldarstofninn hefur verið í framför eftir langvarandi lægð og er þess vænst að hann muni brátt ganga á gamlar slóðir. Með samningi um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum milli síldveiðiþjóðanna við norðanvert Atlantshaf tryggðu Íslendingar sér veiðiréttindi úr stofninum á hafsvæðum utan íslensku fiskveiðilögsögunnar og á næstu vertíð koma 202 þúsund lestir í hlut Íslendinga.

Vegna þess hve langur tími er liðinn frá því að veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum voru stundaðar af íslenskum fiskiskipum er ekki á neinni veiðireynslu að byggja hjá þeim flota sem hyggst stunda þessar veiðar. Síldveiðiskipin, sem veiðarnar stunduðu fyrir þrjátíu árum, eru flest horfin úr íslenska flotanum og útgerðir margra þeirra hættar störfum. Íslendingar standa því frammi fyrir aðstæðum sem eru alls ólíkar því sem þeir hafa vanist við veiðar úr öðrum fiskstofnum á Íslandsmiðum og utan þeirra þar sem oftast var byggt á margra ára veiðireynslu skipa sem voru í útgerð þegar stjórnkerfisleiðir voru valdar.

Með frumvarpi jafnaðarmanna hefur sú stefna verið mótuð varðandi veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum að ákveðið verði í lögum að í stað ókeypis úthlutunar aflakvóta til tiltekinna veiðiskipa verði veiðiheimildir seldar þeim sem hug hafa á að stunda veiðarnar.

Í umræðum um veiðileyfagjald, þ.e. sölu aflaheimilda, hafa komið fram ýmsar tillögur og hugmyndir um útfærslu, en með veiðileyfagjaldi er átt við gjaldtöku í tengslum við úthlutun veiðiheimilda.``

Ég ætla að sleppa því að fara yfir meira úr þessu nál. nema, með leyfi forseta, hér í lokin þar sem stendur:

,,Sú niðurstaða sem birtist í frumvarpi sjávarútvegsráðherra er málamiðlun milli ríkisstjórnarflokkanna, málamiðlun milli þeirra sem ekki vilja að veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum ,,myndi grunn að fastri aflahlutdeild``, sbr. nefndarálit meiri hluta sjávarútvegsnefndar við afgreiðslu frumvarps til laga um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, og þeirra sem vilja þegar fara að stýra veiðunum með úthlutun veiðiheimilda á grunni slíkrar reynslu, sbr. 5. gr. laga um fiskveiðar utan lögsögu Íslands.`` --- Þeir sem þarna er átt við eru þingmennirnir sem ég las upp hér í upphafi ræðu minnar, hæstv. forseti, sem skrifuðu allir undir þennan fyrirvara, að þeir teldu að þessar úthlutanir ættu alls ekki að mynda grunn til slíkrar úthlutunar sem hér um ræðir.

Niðurlagið í nefndaráliti jafnaðarmanna frá 30. apríl 1998 hljóðar svo, með leyfi forseta: ,,Niðurstaðan er bastarður sem hvorki mun uppfylla kröfur um hagkvæmar veiðar né réttláta úthlutun veiðiheimilda.

Annar minni hluti mun ekki styðja þessa niðurstöðu en leggur til að í stað slíkrar málamiðlunar verði veiðarnar frjálsar enn um sinn, sbr. breytingartillögur þar um í sérstöku þingskjali, enda sé það næstbesti kostur við veiðistjórnun þegar aðstæður eru eins og nú varðandi norsk-íslenska síldarstofninn.``

Hæstv. forseti. Þarna var verið að bregðast við enn einni bráðabirgðaniðurstöðu ríkisstjórnarinnar og hæstv. sjútvrh. sem allar hafa greinilega verið hugsaðar í eina átt, þ.e. að teygja tímann þangað til að þeir teldu að það hentaði að gera þessi veiðiréttindi að eign, framtíðarréttindum þeirra sem stunda útgerð þeirra skipa sem hér um ræðir.

[17:15]

Og á 125. löggjafarþingi er þetta mál enn á ferðinni. Ég ætla, með leyfi hæstv. forseta, að grípa hér niður í álit 2. minni hluta sjútvn. vegna sambærilegs máls þá:

,,Með frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 38/1998 er ríkisstjórnin að leggja til að skip sem voru við síldveiðar á árunum 1995, 1996 og 1997 fái veiðiheimildir afhentar af hálfu hins opinbera án endurgjalds og þurfi síðan ekki að veiða neitt en megi umsvifalaust selja allar þær veiðiheimildir sem þau fá.`` --- Nú voru menn komnir á þennan punkt. Nú voru menn orðnir tilbúnir að leyfa mönnum að selja réttindin. Þetta var á árinu 1998. --- ,,Önnur skip sem fá veiðiheimildir en voru ekki við síldveiðar á árunum 1995, 1996 eða 1997 mega hins vegar ekki framselja neitt heldur verða þau að veiða allt.`` --- Allt sem þau fá úthlutað. --- ,,Í desember árið 1998 féll frægur dómur, nr. 145, í Hæstarétti. Meginniðurstaða hans var sú að það samræmdist ekki atvinnufrelsis- og jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar að þeir einir gætu fengið veiðileyfi sem hefðu haldið skipum sínum til veiða á tilteknum árum. Í janúar síðastliðnum féll í undirrétti svokallaður Vatneyrardómur þar sem niðurstaðan er sú að sama eigi við um veiðiheimildir og það sem Hæstiréttur komst að niðurstöðu um varðandi veiðileyfi, að það samræmdist ekki jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar að þeir einir fengju úthlutað veiðiheimildum eða kvóta sem leiði rétt sinn til reynslu tiltekinna ára.``

Og nú langar mig til þess að setja fram hugleiðingar mínar um þá niðurstöðu sem þarna var vitnað til, þ.e. að Hæstiréttur kemst að þeirri niðurstöðu, reyndar eftir að ríkisstjórnarflokkarnir höfðu túlkað dóm Hæstaréttar með tilteknum hætti og síðan fellur annar dómur, og niðurstaðan er sú, hvort sem mönnum líkar það nú betur eða verr að þá stendur sá dómur Hæstaréttar eftir að það hafi verið brot á stjórnarskránni að veita mönnum ekki veiðileyfi ef þeir sæktu um.

Það hlýtur að vera mikið umhugsunarefni hvort þeirrar veiðireynslu sem ríkið hefur verið að viðurkenna sem undirstöðu fyrir réttindi útgerðarmanna til þess að fá úthlutað veiðirétti til langs tíma hafi verið aflað í því umhverfi sem hér er verið að lýsa, þ.e. á meðan veiðileyfi voru í gildi á Íslandsmiðum sem voru brot á stjórnarskránni. Þeir sem höfðu veiðileyfi á Íslandsmiðum á þeim tíma sem veiðirétturinn varð til sem þarna um ræðir fengu þau veiðiréttindi út á veiðireynslu sem þeir öfluðu sér á meðan aðrir gátu ekki fengið veiðileyfum úthlutað, sem Hæstiréttur hefur núna óumdeilanlega úrskurðað að hafi verið brot á stjórnarskránni.

Það hlýtur að vera ástæða til þess að draga í efa að slík réttindi standist vegna þess að það er vitað að á þeim tíma sem þetta ástand varði voru margir útgerðarmenn sem hefðu tekið þátt í útgerð ef þeir hefðu haft til þess veiðileyfi. Slík veiðileyfi kostuðu offjár og hömluðu því að aðilar kæmu til leiks, t.d. við það að veiða íslensku síldina.

Þetta nál. sem ég er að vitna í hér, hæstv. forseti, er frá 4. apríl 2000 og þegar það er lagt hér fram í Alþingi hefur niðurstöðu Vatneyrardóms verið vísað til Hæstaréttar en ekki var fallinn dómur í því máli þá. En ég vitna áfram í nál., með leyfi forseta:

,,Fyrir utan það siðleysi sem felst í að afhenda réttinn til veiðanna án endurgjalds keyrir auðvitað um þverbak að ríkisstjórnin skuli leggja það til að síðan gildi ekki sömu reglur fyrir alla. Reglur ríkisstjórnarinnar fara eftir því hvort skip var við síldveiðar árið 1995, 1996 eða 1997. Það ræður hvernig þau eru meðhöndluð. Þetta eru töfraárin að mati ríkisstjórnarinnar, þau ár sem gefa rétt til úthlutunar ókeypis gæða sem síðar má selja. Ef viðskiptin með veiðiréttinn eru talin svona mikilvæg, af hverju eru veiðiheimildirnar þá ekki boðnar út þannig að allir sitji við sama borð?

Þegar lögin um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum voru sett vorið 1998, fyrir tæpum tveimur árum, og leystu af hólmi þá aðferð að nota úthafsveiðilöggjöfina sem grundvöll veiðanna, lögðu jafnaðarmenn til að síldarkvótarnir yrðu boðnir út. Það var og í samræmi við sérstakt þingmál í þá veru sem þá hafði tvisvar verið flutt af jafnaðarmönnum. Það gekk út á að úthafslögunum yrði breytt þannig að heimilt yrði að bjóða síldarkvótana út. Í því áliti sem fulltrúar jafnaðarmanna í sjávarútvegsnefnd lögðu á sínum tíma fram við 2. umr. um frumvarp ríkisstjórnarinnar sem varð að lögum nr. 38/1998, um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum, kemur m.a. fram að með þeirri skipan mála að veiðarnar yrðu boðnar út væri líklegast að þau markmið fiskveiðistjórnar um hagkvæmar veiðar og réttláta úthlutun veiðiréttarins næðust fram.

Því áliti var jafnframt lýst að frumvarpið væri bastarður, niðurstaða málamiðlunar stjórnarflokkanna sem ekki gátu komið sér saman um hvort veiðireynsla úr síldarstofninum ætti að mynda grunn að fastri aflahlutdeild eða ekki eins og meiri hluti nefndarinnar hafði áréttað sérstaklega við setningu úthafsveiðilaganna árinu áður. Nú virðist hins vegar samstaða um málið meðal stjórnarþingmanna. Veiðireynsla á ekki aðeins að mynda grunn að fastri aflahlutdeild og veiðirétti heldur fullkominn framsalsrétt, nánast eignarrétt sem ókeypis er afhentur þeim sem héldu skipum sínum til síldveiða á tilteknum árum. Gildandi lög segja að sjávarútvegsráðherra eigi fyrir 1. nóvember árið 2000 að leggja fram frumvarp um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum. Því er ljóst að með þeim breytingum sem verið er að leggja til er verið að tjalda til einnar nætur. En þar sem ríkisstjórnin kýs, þrátt fyrir það, að ganga til breytinga á lögunum í þá veru sem áður er lýst munu fulltrúar Samfylkingarinnar í nefndinni leggja fram breytingartillögur við frumvarp ríkisstjórnarinnar og fylgja þannig eftir þeirri skoðun að líklegast sé að markmið fiskveiðistjórnar um hagkvæmar veiðar og réttláta úthlutun veiðiheimilda fáist með því að bjóða veiðarnar út.``

Undir þetta rituðu hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir og sá sem hér stendur.

Á 126. löggjafarþingi birtist þetta mál enn á ný og sagan heldur áfram. Á því löggjafarþingi flytjum við sams konar tillögur og birtum svipað nál. og ég var að vitna hér í áðan, hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir og sá sem hér stendur. Á 126. löggjafarþingi flytja jafnaðarmenn frv. til laga um breytingar á lögum um fiskveiðar utan lögsögu Íslands og þar eru flutningsmenn hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir, Sighvatur Björgvinsson, Sigríður Jóhannesdóttir og Össur Skarphéðinsson ásamt þeim sem hér stendur.

Tillögugreinin í því frv. er samhljóða þeirri tillögu um breytingar á þessum lögum sem ég las upp í upphafi máls míns, ég ætla ekki að endurtaka það, hæstv. forseti. En ég ætla, með leyfi forseta, að vitna í grg. Þar var lagt til að þau lög, sem hefðu orðið til ef þetta frv. hefði verið samþykkt, öðluðst gildi 1. jan. 2001. Í grg. stendur, með leyfi hæstv. forseta:

,,Í 3. gr. laga um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum, nr. 38/1998, segir að sjávarútvegsráðherra skuli fyrir 1. nóvember árið 2000 leggja fyrir Alþingi frumvarp um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum eftir árið 2000. Þrátt fyrir þetta ákvæði hefur sjávarútvegsráðherra lagt til með frumvarpi að lögin um norsk-íslenska síldarstofninn verði áfram í gildi. Frestun þess að leggja fram nýtt frumvarp um veiðarnar byggir hann á þeirri forsendu að sú efnislega endurskoðun sem mælt er fyrir um í 3. gr. laganna verði framkvæmd samhliða heildstæðri endurskoðun sem nú er unnið að á lögum um stjórn fiskveiða á vegum nefndar sem sjávarútvegsráðherra skipaði á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða XXVII í lögum um stjórn fiskveiða, nr. 38 15. maí 1990. Þetta frumvarp gerir hins vegar ráð fyrir að veiðarnar fari fram skv. 5. gr. laganna um fiskveiðar utan lögsögu Íslands og þingmenn Samfylkingarinnar leggja því til breytingar á þeim til samræmis við það sem Samfylkingin leggur til varðandi úthlutun aflaheimilda samkvæmt lögunum um stjórn fiskveiða. Eins og alkunna er voru veiðar íslenskra fiskiskipa úr norsk-íslenska síldarstofninum ekki stundaðar svo neinu næmi í yfir 30 ár. Á síðustu árum hefur orðið þar breyting á.`` --- Og veiðarnar hafa verið stundaðar samkvæmt samningi þar um. --- ,,Vegna þess hve langur tími leið frá því að síldveiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum voru stundaðar af íslenskum fiskiskipum var ekki á veiðireynslu að byggja hjá þeim flota sem tekið hefur þátt í veiðunum. Síldveiðiskipin, sem veiðarnar stunduðu fyrir þrjátíu árum, hafa flest horfið úr íslenska flotanum og útgerðir margra þeirra eru hættar störfum. Það fyrirkomulag sem gilt hefur við veiðarnar á undanförnum árum átti ekki að skapa grunn að fastri aflahlutdeild, sbr. álit meiri hluta sjávarútvegsnefndar um frumvarp til laga um veiðar utan lögsögu, 57. mál á 121. þingi, þar sem segir: ,,Veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum verði á grundvelli leyfa til veiðanna á sambærilegum forsendum og verið hafa. Veiðireynsla úr þessum stofni myndi ekki grunn að fastri aflahlutdeild.````

Ég held, hæstv. forseti, að ég sé í þriðja sinn að nefna í ræðu minni þá yfirlýsingu, og ég las hana upp í upphafi ræðu minnar, sem hv. þingmenn stjórnarflokkanna skrifuðu undir. En áfram í grg. frá Samfylkingunni í janúar 2001, með leyfi forseta:

,,Samfylkingin telur að löngu sé tímabært að skipa þessum málum til frambúðar og skapa veiðum úr norsk-íslenska síldarstofninum lagaramma og starfsumhverfi þannig að útgerðir þeirra viti að hverju þær ganga. Lagt er til að um veiðarnar gildi lögin um fiskveiðar utan lögsögu Íslands og að veiðarnar séu boðnar út, einnig að sjávarútvegsráðherra ákveði útboðsskilmála og skal þar kveðið á um hámark þess aflamarks sem heimilt er að bjóða í vegna einstaks fiskiskips, skilafrest á tilboðum og önnur atriði er máli skipta vegna útboðsins.

Þessi stefna er í samræmi við þá stefnu Samfylkingarinnar að bjóða eigi út nýtingu takmarkaðra gæða sem eru í þjóðareign eða þjóðarforsjá.``

Hæstv. forseti. Ég verð að segja eins og er að ég hefði gjarnan viljað hafa þessa ræðu mína betur skipulagða en hún er, en vandi minn er sá að hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir átti að hafa framsögu fyrir okkur samfylkingarmenn hér í dag en hún hafði ekki gert ráð fyrir því að vera á fundi hér svo seint á laugardegi og gat því ekki mætt til starfans. Ég hef þess vegna flutt þessa framsögu og hafði ekki tækifæri til þess að skipuleggja þessa ræðu eins og best hefði verið á kosið.

En áður en ég lýk þessari ræðu langar mig til þess að nefna fáeinum orðum það sem ég byrjaði á að tala um og það er að mér finnst að þessi málefni sem við erum nú að fjalla hér um, þ.e. veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum, séu í raun í hnotskurn það vandamál sem við erum að fást við um eignarhaldið á nýtingunni til þess að gera út á Íslandsmiðum og hér hafi það komið einna skýrast í ljós í þessu hvað varðar norsk-íslensku síldina og svo í þeim atriðum sem ég taldi upp áðan, þ.e. þegar íslensk stjórnvöld hafa með ýmsum aðferðum verið að koma eignarhaldi og réttindum til þess að stunda útgerð á Íslandi í hendur aðila án þess að fyrir því séu eðlileg málefnaleg rök sem væru fólgin í einhvers konar veiðireynslu. Það er auðvitað aldeilis hörmulegt að við skulum standa í þeim sporum að það sé búið að búa til einkaeignarrétt handa fjölmörgum útgerðarmönnum á Íslandi með þeim hætti sem hér er verið að gera.

[17:30]

Ég sé ekki að aðferðirnar við það að koma eignarhaldinu til íslenskra útgerðarmanna sem stunda síldveiðar, íslenskra útgerðarmann sem keyptu kili uppi á landi á sínum tíma, íslenskra útgerðarmanna sem fengu sérleyfi í rækju í tvö, þrjú ár og fengu síðan úthlutað veiðiréttindum á grundvelli þess án þess að nokkrir aðrir gætu fengið tækifæri til þess að taka þátt í því að skapa slík réttindi, útgerðarmanna sem ,,keyptu`` veiðiréttindi sunnan af landinu og fluttu norður og fengu viðbætur upp á 25% í þorskinum þess vegna, útgerðarmanna sem voru á sóknarmarki sem þeir fengu síðan úthlutað veiðiréttindum út á.

Allt voru þetta allt öðruvísi aðferðir heldur en Hæstiréttur var að vitna til þegar hann komst að þeirri niðurstöðu að úthlutanir sem hefðu farið fram til útgerðarmanna hefðu átt sér málefnalegar forsendur. Ég tel að eitt af því alvarlegasta sem gerðist þegar Hæstiréttur fjallaði um þessi málefni hafi verið það að þar var ekki fjallað um þessi mál. Það er augljóst að hæstaréttardómararnir hafa ekki vitað um það sem hefur verið að gerast í gegnum tíðina vegna þess að í umræðunni hefur ævinlega verið haft uppi að útgerðarmenn hafi fengið úthlutað veiðiréttindum af því að þeir hafi verið að gera út á þeim tíma sem veiðiréttindin eru miðuð við. Og látið hefur verið að því liggja að það starfsumhverfi sem þeir voru í hafi verið eðlilegt þannig að engin sérréttindi hafi valdið því að menn hafi síðan fengið áframhaldandi sérréttindi út á þau.

Því miður er þetta svona og um þetta mætti auðvitað margt segja. Eitt langar mig að tala um í því sambandi vegna þess að ég held að ástæða sé til að gera það eins oft og mögulegt er. Því hefur nefnilega verið haldið fram lengi og af mörgum, m.a. ýmsum ágætum lögfræðingum, einn hefur þar fremstur gengið, Sigurður Líndal, sem hefur haldið því fram að veiðiréttindi á Íslandsmiðum væru atvinnuréttindi og talað um þau eins og hver önnur atvinnuréttindi. Þetta hefur ruglað marga í ríminu og margir hafa viljað meina að þarna væri þá verið að tala um sambærileg atvinnuréttindi og menn tala um í daglegu tali þegar um atvinnuréttindi er að ræða. En auðvitað er ekki slíku til að dreifa. Réttindi sem hægt er að kaupa og selja eru ekki atvinnuréttindi með sama hætti og þau atvinnuréttindi sem menn hafa eignast vegna náms t.d. og eru tengd námi og starfi þeirra manna sem fá þau.

Það er ekkert vafamál að t.d. skipstjórnarréttindi eru atvinnuréttindi. Það er ekki vafamál og um það deila menn ekki. Skipstjóri sem er útgerðarmaður hefur atvinnuréttindi sem skipstjóri. Ef þessi skipstjóri var útgerðarmaður á þeim tíma sem hamingjan féll mönnum í skaut og þeir fengu réttindi út á þá fékk hann slík réttindi í sínar hendur og sumir hafa verið að streitast við að halda því fram að þarna hafi atvinnuréttindi hans verið á ferðinni. En hvað þá um skipstjórann sem var skipstjóri á skipi hjá öðrum? Voru atvinnuréttindin þá aldrei önnur en atvinnuréttindi útgerðarmannsins? Voru atvinnuréttindin aldrei önnur en atvinnuréttindi þess sem átti hlutafé í fyrirtækinu? Eru það allt í einu orðin atvinnuréttindi manna að eiga hlutafé í fyrirtæki? Hvers slags della er þetta eiginlega sem menn eru komnir út í þegar þeir nota það sem aðalröksemd fyrir því að hægt sé að afhenda mönnum þau gæði sem hér um ræðir að þau fylgi því að eiga hlutafé í fyrirtæki?

Mér hefur fundist það vera með miklum endemum að hlusta á röksemdafærslu af þessu tagi, um þessi réttindi sem íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að gera að eignarréttindum fyrir útgerðarmenn á Íslandi og hið frjálsa framsal hefur gjörsamlega valdið eðlisbreytingu á því sem menn hefðu hugsanlega viljað kalla atvinnuréttindi áður. Það er auðvitað augljóst hverjum manni sem vill leggja sig í það að velta þessu fyrir sér.

Það er því ekki um það að ræða að hér séu á ferðinni atvinnuréttindi. Hér eru hins vegar á ferðinni hlunnindi eða sérréttindi og fyrst og fremst einokunarréttindi sem hið opinbera hefur ákveðið að láta í hendur tiltekinna aðila sem eru valdir, ekki með einni aðferð heldur fjölmörgum aðferðum í gegnum tíðina. Og það er fráleitt að halda því fram, eins og Hæstiréttur gerði á sínum tíma, að það hafi verið málefnalegar ástæður fyrir því að menn fengu þessar úthlutanir, nema í einhverjum tilfellum. Við getum sagt og ég býst við að Hæstiréttur hafi fyrst og fremst átt við það að hafi menn stundað veiðar þessi tilteknu þrjú ár sem oftast eru nefnd þá hafi það verið málefnalegar ástæður. En að það séu málefnalegar ástæður þegar ríkið kallar allt í einu til útgerðarmenn og segir: Við erum búin að semja um að fá að veiða síld úr norsk-íslenska stofninum, gjörið þið svo vel. Og að menn skuli síðan fá úthlutað réttindum út á slíkt, það hlýtur að vera af einhverju öðru tagi.

Það sem ég var að nefna áðan þegar sjútvrn. og hæstv. sjútvrh. ákváðu á sínum tíma að ákveðinn hópur skipa mætti veiða með dragnót í Faxaflóanum, og nokkrum árum seinna var ákveðið að þessi hópur fengi úthlutað veiðiréttindum út á þessar veiðar, lokaður hópur sem enginn fékk að koma inn í, að vísu er það ekki rétt því að þingmenn stóðu í því hér að troða einum og einum útgerðarmanni inn í þennan hóp. Og svo fengu þessir menn, sem með pólitískum þrýstingi einstakra þingmanna úr kjördæmum höfðu fengið að fara inn í hópinn, úthlutað veiðiréttindum út á allt saman. Þetta eru líklega málefnalegar ástæður fyrir úthlutun eða hvað? Nei, það er sko ekki um slíkt að ræða.

Og aftur um úthlutanir hins opinbera þar sem menn gengu svo hart fram að þess eru dæmi að hæstv. sjútvrh. hafi úthlutað tilraunaveiðileyfi í rækju til tveggja eða þriggja ára og svo úthlutað aflahlutdeild út á það eftir að þrjú árin voru liðin. Það fengu engir aðrir að koma nálægt. Þetta eru líklega málefnalegar ástæður fyrir því að viðkomandi fengju þessar úthlutanir. (Gripið fram í: Og tilraunaveiðar ...) Og fleiri tilraunaveiðar sem ég svo sem þekki ekki allar.

Ég segi bara eins og er og endurtek það: Mér finnst það eitt af því verra sem gerst hefur í þessari umræðu þegar Hæstiréttur féll í þá gryfju að taka afstöðu til þessara hluta á grundvelli sem hann hefur greinilega ekki kynnt sér nægilega vel.

Hæstv. forseti. Það hafa verið átök um sjávarútvegsmálin. Nú eru þrjú frv. sem liggja hér fyrir þinginu sem hæstv. aðalforseti þingsins hefur tjáð mér að hann ætli að klára umræður um á þessum þingfundi. Ég verð að segja það alveg eins og er að mér finnst í því fólgið töluvert ofbeldi á okkur þingmönnum. Í fyrsta lagi fengum við afar takmarkaðan tíma til þess að undirbúa okkur undir þessar umræður. Við þurftum að skila af okkur nefndarálitum með miklum hraða. Hér eru á ferðinni afar stór mál. Og síðan er annað sem á auðvitað eftir að ræða betur um en það hafa á síðustu stundu verið að koma fram breytingar á þeim málum sem hér um ræðir. Þriðja frv. sem liggur hér fyrir, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun, var kynnt á síðasta fundi nefndarinnar og er flutt af meiri hluta sjútvn. Það frv. hefur ekkert verið skoðað til þess að athuga hvaða vandamál fylgi því að gera þessar breytingar. Og það frv. þarf líka að skoða í ljósi þess að hæstv. forsrh. hefur lýst því yfir að nú þurfi aldeilis að taka til. Það sé líklega algjörlega ólöglegt að innheimta einhver gjöld fyrir útgerðarmenn eða iðnaðarfyrirtækin í landinu með einhverjum reglum frá Alþingi. Hið opinbera hafi líklega alls ekkert leyfi til þess að gera svona hluti. Það hlýtur því að þurfa að velta því fyrir sér hvort ástæða sé þá til þess að auka í fyrir Landssamband smábátaveiðimanna, auka í innheimtu af þessu tagi með því frv. sem nú hefur verið flutt. Samt sem áður ætlar hæstv. forseti að keyra málin áfram á fullri ferð í staðinn fyrir að nefndin hefði auðvitað átt að taka þetta mál og skoða það miklu betur.

Hitt málið sem á að ræða hérna, sem ætti að öllu eðlilegu að vera stærsta málið, er veiðigjaldsmálið, sem á víst að vera sættir ríkisstjórnarinnar við þjóðina eða heimsbyggðina, held ég, í sjávarútvegsmálum. Því ætti kannski að gera svolítið hærra undir höfði en að ræða það um miðnættið á laugardagskvöldi eða fram eftir nóttu. En það stefnir allt í það.

Ég mótmæli þessum vinnubrögðum. Ég tel að þau séu ekki eðlileg og mér finnst að hæstv. forseti sé að misbeita valdi sínu á okkur þingmönnum með þessum hætti. En ég ætla ekki að hafa þessa ræðu mína lengri, hæstv. forseti. Ég fæ tækifæri til þess að tala fimm sinnum í sjávarútvegsmálunum og líklega sjö sinnum, svo ég ætla aðeins að skipuleggja þær ræður þannig að ég spili ekki öllu út í einu sem ég þarf að ræða. Ég á eftir tvær ræður í þessu máli sem ég nefndi áðan og tvær ræður í því sem ég nefndi þar á undan og svo á ég eftir eina ræðu í þessu, þannig að það verður snúið að klára sig af þessu öllu saman, en hæstv. forseti virðist ætla að keyra málin áfram þannig að okkur sé nauðugur einn kostur að nýta okkur ræðutíma okkar út í æsar, en sem betur fer verður hvíld á milli.