Framhald þingfundar

Laugardaginn 20. apríl 2002, kl. 20:03:32 (8067)

2002-04-20 20:03:32# 127. lþ. 124.91 fundur 530#B framhald þingfundar# (um fundarstjórn), Forseti HBl
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 127. lþ.

[20:03]

Forseti (Halldór Blöndal):

Ég vil taka fram að gefnu tilefni að það varð samkomulag um það við þingflokksformenn Samfylkingar og Vinstri grænna, og ég hygg að þeir hafi talað við þingflokksformann Frjálslynda flokksins, að það frv. sem hér er á dagskrá yrði tekið fyrir síðari hluta dagsins í dag. Það lá jafnframt fyrir í gær, þegar óskað var eftir því að þá yrði ekki kvöldfundur, að ég mundi hafa kvöldfund í kvöld og það hefur verið kunnugt um skeið.

Ég vil vekja athygli á því að það var ekki að mínu frumkvæði sem tekin var ákvörðun um það að hefja umræður um 64. dagskrármálið, Fiskveiðar utan lögsögu Íslands, stjfrv., sem er mál ekki mikið í sniðum, en það hefur tekið klukkustundir að ræða það mál og eins og sakir standa eru þar þrír hv. þingmenn á mælendaskrá. Síðan gerði ég tilraun til þess að ljúka 65. dagskrármáli, sem er heldur ekki stórt í sniðum, og eins og sakir standa eru þar þrír hv. þingmenn á mælendaskrá.

Ég hygg að rétt sé að það komi fram að það var samkvæmt ábendingum þingflokksformanns Frjálslynda flokksins, Guðjóns A. Kristjánssonar, sem ákvörðun var tekin um það að byrja umræðurnar kl. 3 með því að taka 64. dagskrármálið, Fiskveiðar utan lögsögu Íslands, stjfrv., 670. mál. Þó svo að þessi tími sé liðinn síðan, hartnær fimm tímar að ég hygg, þá hefur einungis unnist tími til að formaður sjútvn. fengi tækifæri til þess að gera grein fyrir nefndaráliti meiri hluta sjútvn. en hin málin bæði, sem eru ekki stór í sniðum, eru hálfrædd eins og málið lítur út nú.

Ég lít svo á að það hafi verið samkomulag um það milli mín og formanna þingflokka stjórnarandstöðunnar að það mál sem nú er á dagskrá fengist rætt síðari hluta þess dags sem við erum á nú. Það er alveg augljóst mál að þegar reynt er að hafa samráð um störf þingsins, þá hlýtur það samráð að vera gagnkvæmt.