Framhald þingfundar

Laugardaginn 20. apríl 2002, kl. 20:06:18 (8068)

2002-04-20 20:06:18# 127. lþ. 124.91 fundur 530#B framhald þingfundar# (um fundarstjórn), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 127. lþ.

[20:06]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég vil staðfesta það sem hæstv. forseti segir um samkomulag um störf þingsins í dag að öðru leyti en því að við höfðum ekki komist að samkomulagi um kvöldfund. Reyndar kom það fram í máli hæstv. forseta að það hefði verið hans ákvörðun og ásetningur sem okkur var kynntur í gær og í fyrradag en við höfum mótmælt því. Við höfum ekki talið eðlilegt að hér yrði efnt til kvöldfundar. Það var aldrei neitt samkomulag um það hvenær umræðu lyki um sjávarútvegsmálin, enda höfðum við ekki leitað eftir umboði til slíks. En um það var samkomulag að umræðan færi fram nú síðdegis.

Þá vil ég taka fram að þingið hefur verið afkastamikið í dag. Við höfum tekið til umræðu mjög mörg mál, stór og smá í sniðum, og afgreitt þau. Við höfum gengið til atkvæða um fjölmörg lagafrumvörp og þáltill. og afgreitt þau út úr þinginu þannig að í dag höfum við skilað góðu dagsverki.

Ég vil taka undir mikilvægi þess að við göngum senn til samninga um þinglokin. Mér finnst það skipta máli að við höldum þannig á málum að áætlanir þingsins standi og ég vil alveg taka þeirri áskorun frá hæstv. forseta að auðvitað á þá að reyna á báða aðila til vilja til samkomulags en til þess að slíkt geti orðið þurfum við að fá heildarsýn yfir vilja ríkisstjórnarinnar og stjórnarandstöðunnar og síðan beiti hæstv. forseti þingsins sér fyrir því að finna leið til að ljúka þinghaldinu á tilsettum tíma.