Uppsagnir hjá Landssímanum á Akureyri

Mánudaginn 22. apríl 2002, kl. 10:00:47 (8073)

2002-04-22 10:00:47# 127. lþ. 125.91 fundur 534#B uppsagnir hjá Landssímanum á Akureyri# (aths. um störf þingsins), ÁSJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 127. lþ.

[10:00]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs um störf þingsins til þess að krefja hæstv. samgrh. skýringa á því sem er að gerast hjá Landssímanum á Akureyri. Þar hafa að undanförnu átt sér stað uppsagnir, að mestu leyti hefur konum verið sagt upp, á mjög hranalegan hátt ef taka má mark á þeim lýsingum sem maður fær af því sem þar hefur átt sér stað. Þessar uppsagnir eiga sér stað hjá ríkisfyrirtæki þvert á stefnu ríkisstjórnar Íslands sem stefnir að því að fjölga opinberum störfum úti á landi. Þess vegna er það mjög brýnt að hæstv. samgrh. geri þinginu grein fyrir því hvað er að gerast hjá þessu ríkisfyrirtæki.

Hér var um að ræða miðaldra konur, sem sumar áttu mjög stutt í eftirlaun, u.þ.b. fimm ár. Þeim var gert að skrifa upp á starfslokasamning korteri fyrir lok vinnudags þannig að hér eru augljóslega mjög óhefðbundnar aðferðir í gangi við að segja upp fólki. Því er mjög nauðsynlegt, virðulegi forseti, með hliðsjón af stefnu ríkisstjórnarinnar í því að fjölga störfum úti á landi hjá opinberum aðilum að hæstv. samgrh. geri þinginu grein fyrir því hvað um er að vera.