Utanríkismál

Mánudaginn 22. apríl 2002, kl. 10:15:42 (8082)

2002-04-22 10:15:42# 127. lþ. 125.94 fundur 537#B utanríkismál# (aths. um störf þingsins), RG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 127. lþ.

[10:15]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs um störf þingsins og meðferð Alþingis á utanríkismálum. Undanfarna daga hafa verið miklar fréttir í fjölmiðlum um tvíhliða samning Íslands og Bandaríkjanna um varnarmál sem tengjast aðild okkar að NATO, hugsanlegar breytingar á Keflavíkurflugvelli og meðferð þessara mála í bandaríska þinginu og í bandarískum fjölmiðlum. Það er þaðan sem fréttirnar af þessu berast hingað.

Þessi mál hafa verið athyglisverð aflestrar, ekki síst í Morgunblaðinu sem hefur farið inn í þingræður og hefur flutt okkur afstöðu bandaríska þingsins í hvívetna. Það er afstaða mín að þegar slíkt mál kemur upp þá eigi utanrmn. Alþingis samstundis að koma saman og ræða þessi mál, það sé hinn rétti vettvangur. Vandi utanrmn. er að æðstu menn ríkisstjórnarinnar hafa verið erlendis en á þessum morgni höfum við haldið fund um annað mál í utanrmn. Alþingis og þar hef ég óskað eftir því og við fulltrúar Samfylkingarinnar að um leið og hæstv. utanrrh. kemur til landsins þá verði farið yfir þessi mál í nefndinni og er ekki óeðlilegt að gera ráð fyrir því að þau geti komið til umræðu í kjölfarið hér í þessum sal.

Þannig, herra forseti, tel ég að eigi að vinna. Það er mjög mikilvægt að Alþingi Íslendinga hafi jafnsjálfsagða umfjöllun um þessi stóru mál og Bandaríkjaþing. Þannig hefur það ekki verið. Við höfum ítrekað spurt um framvindu umræðu um varnarsamninginn. Litlar fréttir hafa komið. Nú hafa þær borist erlendis frá. Nú förum við alþingismenn sjálfir í þetta mál, öflum upplýsinga og höfum skoðun á þeim.