Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 22. apríl 2002, kl. 11:42:10 (8089)

2002-04-22 11:42:10# 127. lþ. 125.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv. 85/2002, HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 127. lþ.

[11:42]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Í greinargerð í nál. sem hv. þm. Jóhann Ársælsson er framsögumaður fyrir, segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

,,Þá er hlaupið til með handstýrðar úthlutanir og aðgerðir sem eru jafnvel fundnar út með því að skoða stöðu og þarfir einstakra útgerða.``

Svo mörg voru þau orð. Þessi hv. þm. talar um að þetta beri vott um pólitíska spillingu. Hann talar um að þingmenn séu með þessum hætti að skáka aflaheimildum í kjördæmi sín og taka frá öðrum og hefur stór orð um að þannig hafi tekist að kaupa menn til þess að taka afstöðu í þinginu gegn vilja sínum. Það er það sem þessi hv. þm. hefur verið að segja. Síðan þegar hann er spurður hvort hann sé einn af þessum þingmönnum með þessa spilltu afstöðu þá hlýtur þessi þingmaður að segja satt. Hann má þó eiga það og rétt er að meta það við hv. þm. að hann segir: ,,Já, ég greiddi atkvæði með þessum sértæku aðgerðum.`` Það vekur aftur spurningu um það, herra forseti, hvort nokkur þingmaður hafi í annan tíma lýst betur pólitísku siðferði sjálfs sín en þessi þingmaður gerði í þessari ræðu sinni.