Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 22. apríl 2002, kl. 16:17:17 (8099)

2002-04-22 16:17:17# 127. lþ. 125.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv. 85/2002, ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 127. lþ.

[16:17]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Við fjöllum um frv. til laga um um breytingu á lögum nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Áður en ég hef mál mitt vil ég aðeins almennt um frv. segja að það eru auðvitað stórkostleg vonbrigði að menn skuli vera fastir í því fari að plástra núverandi kerfi og viðhalda því. Frv. er í raun bara viðhald á því kerfi sem við höfum búið við með lítils háttar breytingum. Þar er fyrst og fremst gjaldtökuhliðin sett inn með undarlegri formúlu og síðan svokallaðir pottar með byggðakvótum sem er auðvitað afleiðing af því sem við erum að horfast í augu við hvað varðar þróun byggðar í landinu og allir átta sig á að er eitt af okkar stærri og verri þjóðfélagsmeinum. Því er valin þessi leið til að milda þau vandamál sem eru komin upp og hafa verið og verða í hinum dreifðu byggðum lansins.

Mér finnst eiginlega mjög sorglegt að menn skuli ekki hafa tekið málið alveg frá grunni og reynt að finna nýjan flöt á stjórn þessara mála vegna þess að allt það sem við höfum að stefnt í sambandi við verndun fiskstofnanna á þessu tímabili sem fiskveiðistjórnarkerfið hefur verið í gildi hefur okkur hreinlega mistekist. Því er alveg ljóst að þær aðferðir sem við höfum notað og erum núna að plástra sýknt og heilagt duga ekki. Mér finnst merkilegt að við skulum ekki hafa getað byggt á því t.d. sem kom út úr vinnu auðlindanefndar þar sem hún skilaði alveg skýrum tillögum um það hvernig gjaldtaka fyrir auðlindir skuli vera. Auðlindanefnd komst að þeirri niðurstöðu í skýrslu sinni að greiða bæri fyrir afnot af auðlindinni og það gæti stuðlað að því að sátt tækist um stjórn fiskveiða. Í áliti auðlindanefndar segir, með leyfi forseta:

,,... enda verði sú gjaldtaka ákveðin með hliðsjón af afkomuskilyrðum og uppbyggingu sjávarútvegsins og þeirri óvissu sem hann á við að búa, m.a. vegna ófyrirsjáanlegra breytinga á aflabrögðum og vegna alþjóðlegrar samkeppni, þar á meðal þau skilyrði sem sjávarútvegur annarra þjóða býr við.``

Niðurstöður auðlindanefndar voru í þeim dúr að nefndin varð sammála um að stefna bæri að greiðslu fyrir afnotarétt á öllum auðlindum sem eru í eigu ríkisins eða þjóðar af tveimur ástæðum. Annars vegar til að greiða kostnað ríkisins af stjórn og eftirliti með viðkomandi auðlind og hins vegar til að tryggja þjóðinni í heild sýnilega hlutdeild í þeim umframarði eða auðlindarentu sem nýting hennar skapar.

Nefndin fjallaði um gjaldtöku í tengslum við þau markmið sem henni bar að vinna að samkvæmt erindisbréfi og meiri hluti nefndarinnar telur ljóst að fara þurfi varlega í innheimtu slíks gjalds enda standi sjávarútvegurinn ekki undir mjög auknum álögum. Nefndin ætlaði að gjaldtaka geti enn hraðað samrunaferli í sjávarútvegi og að áhrifa slíks samruna muni gæta í sjávarbyggðum landsins. Meiri hluti nefndarinnar taldi engu að síður að innheimta bæri hóflegt gjald og að það muni stuðla að víðtækari sátt um fiskveiðistjórnarkerfið og þar með komi visst endurgjald fyrir afnotarétt af veiðiheimildum.

Síðan leggur nefndin til tvær tillögur sem hún telur færar í þessu efni, þ.e. að taka svokallað auðlindagjald. Í fyrsta lagi bendir nefndin á hina svokölluðu fyrningarleið og í öðru lagi nefnir hún veiðigjaldsleið. Vegna tímans, virðulegi forseti, ætla ég ekki að fara út í útlistingar á þessum leiðum. En það er alveg klárt að með frv. sem við fjöllum um í dag erum við ekki í grunninn að fara þá leið sem lögð er til í störfum auðlindanefndar. Gjaldtakan sem sett er þarna inn er ekki sú sem byggir á niðurstöðum auðlindanefndar, þ.e. að greiða beri auðlindagjald og að auðlindagjald skuli notað sem stjórntæki við nýtingu viðkomandi auðlindar. Og ekki þarf fisk til. Við erum að tala hér um margs konar annars konar auðlindir, allt frá köldu vatni, möl og öllu sem landið og sjórinn gefur þannig að grunnhugsunin í sambandi við auðlindagjald virðist ekki ná inn í þá vinnu sem lögð er fram í frv. sem við erum að fjalla um.

Segja má að á grunni auðlindanefndar og niðurstöðu hennar hafi verið stofnað til hinnar svokölluðu sáttanefndar um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða, en með ákvæði til bráðabirgða V í lögum nr. 1/1999, sem breyttu lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, var ákveðið að sjútvrh. skyldi skipa nefnd til að endurskoða þau og að þeirri endurskoðun skyldi lokið fyrir lok fiskveiðiársins 2000/2001. Sjútvrh. skipaði nefndina hinn 28. september 1999 og í skipunarbréfi ráðherra komu fram þau markmið að með endurskoðuninni skyldi vinna að tillögum um breytingar á stjórn fiskveiða. Í skipunarbréfi nefndarinnar er sagt:

,,Nefndinni ber að taka tillit til hagsmuna sjávarútvegsins, byggðanna og almennings í landinu í starfi sínu. Markmið breytinganna er að ná fram sem víðtækastri sátt landsmanna um fiskveiðistjórnarkerfið. Þess skal þó gætt að fórna ekki markmiðum um skynsamlega nýtingu og bætta umgengni um auðlindir sjávar né heldur raska hagkvæmni og stöðugleika í greininni.``

Nefndin fær þarna í veganesti stóran og fagran grunn. En það er kunnara en frá þurfi að segja að endurskoðunarnefndin sem skilaði af sér á liðnu hausti margklofnaði í vinnu sinni.

Þær tillögur sem þetta frv. er byggt á byggjast á tillögum úr nefndarvinnunni sem eru fram settar af meiri hluta nefndarinnar, þ.e. fulltrúum sjálfstæðismanna í nefndinni og fulltrúum sjútvrh., fjórum mönnum. Síðan eru í nefndarálitinu þrjár tillögur eða álit sett fram af minni hlutanum, frá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni sem var fulltrúi Samfylkingarinnar í endurskoðunarnefndinni, frá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni sem var fulltrúi framsóknarmanna í endurskoðunarnefndinni og svo frá þeim sem hér stendur fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs.

Álit mitt í endurskoðunarnefndinni byggist á leið sem ég tel að eigi að fara til þess að vinda ofan af núverandi kerfi og byggja upp nýtt kerfi sem sátt væri um. Ég valdi í formúlu minni og framsetningu í greinargerðinni að notfæra mér grunn sem byggist á vinnu auðlindanefndar. Auðlindanefndin, eins og ég sagði áðan í ræðu minni, nefnir tvær leiðir til þess að betrumbæta auðlindastjórn í landinu, þ.e. hina svokölluðu fyrningarleið og veiðigjaldsleið. Þess vegna lagði ég til í nefndinni að lagður yrði grunnur að nýju stjórnkerfi fiskveiða sem byggði á því að nota báðar aðferðir, bæði fyrningarleiðina og veiðigjaldsleið.

Ég vil taka það skýrt fram að ég er ekki talsmaður þess að skattleggja sjávarútveginn og eins og kemur fram í þessu frv. þá var mjög snemma ljóst í nefndinni að til þess að ná þjóðarsátt voru útvegsmenn tilbúnir að greiða fyrir auðlindina --- talan sem svífur yfir vötnunum í frv. kom raunar mjög fljótt fram, þ.e. í kringum 2--2,5 milljarða --- en með það á móti að gjöldum sem útgerðin borgar núna yrði létt af útgerðinni. Nettó værum við því kannski að tala um 1--1,5 milljarða í gjaldtöku á þessum grunni.

Ég tel að auðlindagjaldsleið og þar með veiðigjaldsleið eigi að vera verkfæri til þess að stjórna því hvernig við notum og nýtum auðlindina. Ég tel að gjaldtakan eigi ekki að vera skattlagning eins og margir álíta að nú sé raunin orðin með þessu frv. Ég held að auðlindagjaldsleiðin eigi að undirbyggja það að hægt verði að stjórna fiskveiðum og að það eigi að nota gjaldtökuna sem stjórntæki. Á þessu er mjög mikill munur. Miðað við þetta frv. eru slík verkfæri ekki nothæf. Hér er aðeins verið að tala um gjaldtöku eða gjaldstofn.

Við verðum að horfast í augu við að eftir hátt í tveggja áratuga fiskveiðistjórn á grundvelli kvótakerfisins er ekki sýnilegt að sá megintilgangur kerfisins að byggja upp fiskstofnana og láta þá skila hámarksafrakstri hafi náðst. Í mörgum tilvikum er ástand fiskstofnanna núna svipað eða jafnvel verra en fyrir daga kvótakerfisins. Auk þess hefur réttlega verið bent á að kvótakerfið hamlar mjög allri nýliðun og kynslóðaskiptum í atvinnugreininni. Þó því sé ekki haldið fram að öll sökin sé kvótakerfisins verður því ekki á móti mælt að árangurinn að þessu leyti er ákflega rýr og takmarkaður.

Fram hefur komið í ræðum hv. þm. í dag að við stöndum frammi fyrir 150--200 þúsund tonna afkastagetu þorskstofnsins. En á góðum árum þess stofns var hér verið að veiða alla vega 350 þúsund tonn og jafnvel í bestu árum upp í 450 þúsund tonn. Hér er náttúrlega um gríðarlega hagsmuni að ræða og sorglegt er til þess að vita að með þeim aðferðum sem við höfum notað erum við alltaf að hjakka í sama farinu hvað þessa stofna varðar og okkur hefur engan veginn tekist að ná þeim markmiðum sem átti að ná með kvótasetningunni.

[16:30]

Rétturinn til viðskiptakvóta, bæði möguleikinn til leigja öðrum veiðiheimildir í stað þess að nota þær sjálfur og varanleg sala þeirra, hefur haft í för með sér að ákveðnir aðilar hafa átt kost á að hagnast gríðarlega. Slíkur gróði, ekki síst þegar hinir sömu hverfa úr sjávarútvegi með milljónatugi, hundruð milljóna eða milljarða andvirði veiðiheimilda, samrýmist vægast sagt illa ákvæðum fiskveiðistjórnarlaganna um sameign þjóðarinnar.

Þjóðin hefur í raun staðið frammi fyrir þessari staðreynd, þ.e. að ná til sín kvótagróðanum. Og þessi staðreynd hefur gert þjóðina í heild sinni hvað ósáttasta við kerfið. Menn hafa horft upp á að einstakir aðilar hafa tekið út úr greininni, og þar með skuldsett sjávarútveginn, milljarða á milljarða ofan, tekið út úr greininni og hagnast gríðarlega. Í því sambandi eru menn að tala um tugi milljarða, kannski á bilinu 30--40 milljarða.

Framsal veiðiheimilda, sú staðreynd að byggðarlögum í núverandi kerfi er ekki tryggður neinn réttur, hefur stundum leitt til að kvóti hefur horfið á brott og miklir staðbundnir erfiðleikar skapast í atvinnumálum. Þessu ástandi fylgir mikið öryggisleysi í sjávarbyggðum og enginn veit hver verður næst fyrir barðinu á slíkum hremmingum, jafnvel þó að staðan kunni að vera þokkaleg sem stendur. Hröð samþjöppun veiðiheimilda, sameining fyrirtækja og stækkun, hefur víða haft í för með mér sársaukafullar breytingar af þessum toga. Einkum hafa minni sjávarbyggðir, sem mikið byggja á bátaútgerð og ekki njóta þess að hafa höfðuðstöðvar einhverra stóru fyrirtækjanna í byggðarlaginu, átt undir högg að sækja við núverandi fyrirkomulag. Fiskvinnslufyrirtæki sem engan aðgang hafa að veiðiheimildum, fiskverkafólk, sjómenn og aðrir íbúar sjávarbyggðanna eru þolendur þessa ástands og þess öryggisleysis sem það hefur víða skapað.

Í umfjöllun og skýrslugerð um áhrif fiskveiðistjórnarkerfis á byggðaþróun er þessi þáttur að öllum líkindum vanmetinn. Framsal veiðiheimilda og leigubrask hefur leitt til stórfelldra árekstra í samskiptum sjómanna og útvegsmanna og kostað verkföll og átök sem ítrekað hafa leitt til lagasetningar sem svipt hefur sjómenn samningsrétti.

Virðulegi forseti. Frv. sem við fjöllum um hér sýnir að menn gera sér grein fyrir hræðilegum afleiðingum kerfisins sem við búum við. Það er þess vegna sem stofnað hefur verið til svokallaðra byggðakvóta, potta sem eru settir upp með ýmsum formúlum. Þessir pottar munu slaga upp í ein 15 þús. tonn þegar allt er talið sem hér á að vera hægt að úthluta eftir geðþótta frá sjútvrn. Ég held að þetta sé mjög slæmt upplegg, að ætla sér að slökkva eldana í hinum dreifðu sjávarbyggðum landsins með geðþóttaákvörðunum þegar illa gengur í sjávarbyggðunum, með ölmusum úr þessu pottafyrirkomulagi.

Eins og fram hefur komið hjá mörgum öðrum hv. þm. segja menn kannski sem svo að þrátt fyrir allt sé þetta betra en ekki neitt. Þeir sem hafa heildarsýn yfir dæmið eru hins vegar andvígir því hvernig hlutirnir eru settir upp. Ég segi fyrir mína parta að miðstýrt pottakerfi af þessu tagi, byggðakvótar sem er útdeilt úr ráðuneyti af hæstv. sjútvrh., er fyrirkomulag sem alltaf mun leiða til úlfúðar. Menn munu segja: Þeir eru að úthluta --- þessi fékk en ekki við hinir. Þess vegna hefur mér fundist mikilvægt að setja fram tillögu, sem ég hef gert á vegum flokks míns, varðandi heildaruppstokkun og endurskoðun á fiskveiðistjórnkerfnu, með nýrri formúlu sem gæti sjálfvirkt orðið til að breyta gersamlega um kúrs. Það er ekki verið að gera slíkt með því frv. til laga sem hér er lagt fram.

Í frv., áður en brtt. voru lagðar fram, voru menn meira að segja svo djarfir að leggja til hvaða hlutdeild menn mættu hafa í hinum einstöku tegundum. Þá var frv. í þeim dúr að samkvæmt teóríunni var hægt fyrir tvær útgerðir að eiga allan ýsukvóta og tvær útgerðir að eiga allan ufsakvóta, þ.e. menn máttu hafa 50% hlutdeild, tvær útgerðir allan karfakvóta, tvær grálúðukvótann og síðan máttu menn eiga að hámarki 12% í þorski og 20% í síld, loðnu og úthafsrækju. Sem betur fer er í brtt. við frv. dregið úr þessu og lagt til að hámarksaflahlutdeild í ýsu verði ekki nema 20%, í ufsanum 20% og í karfanum er farið úr 50% og niður fyrir 35%. Hámarkshlutdeild í grálúðu breytist úr 50% og verður 20%.

Þessi framsetning, eins og hún kemur fram í upprunalega frv., endurspeglar í raun hugsun þeirra sem ráða ferðinni í þessum málum og það hefur staðið upp úr hverjum manni sem hefur tjáð sig um þetta í samanbandi við vinnu endurskoðunarnefndarinnar að menn hefðu haft þá sýn á stjórnarheimilinu að hér eigi að vera þrjár, fjórar, kannski sjö útgerðir að hámarki. Þar með vita menn náttúrlega nákvæmlega á hvaða vegferð þeir eru. Þess vegna koma auðvitað fram hugmyndir eins og varðandi grálúðuna og karfann. Maður getur ímyndað sér til hvers það hefði leitt ef menn hefðu haft þá möguleika að skipta þessum stofnum á milli sín. Ég held að það sé ekki tilviljun að þetta kom fram. Menn hafa auðvitað reiknað sig fram til að best sé að vera bara með tvö öflug útgerðarfyrirtæki sem sæki suður á Reykjaneshrygg og festa það þar með til þessara tveggja aðila. Á hinn bóginn geta menn komið sér saman um það og rætt sín á milli varðandi grálúðuna að önnur tvö fyrirtæki gætu skipt henni á milli sín. Þannig er hugsunin í þessu. Hún byggir á því sem menn kalla á hátíðarstundum hagræðingu innan greinarinnar. Þá gleymast öll önnur atriði í sambandi við sjávarbyggðirnar, fólkið og þær eignir fólks úti á landi sem verða verðlausar o.s.frv.

Virðulegi forseti. Í þessu frv. eru líka brtt. við 1. gr., varðandi rannsóknirnar. Ég var talsmaður þess í nefndinni að fleiri aðilar kæmu inn í rannsóknirnar. Það er að vísu brtt. sem gerir mögulegt að hæstv. sjútvrh. geti veitt heimild til rannsókna en það er því skilyrði háð að Hafrannsóknastofnun fari yfir umsækjendur, gefi grænt ljós fyrir sitt leyti eða umsögn til hæstv. ráðherra. Ég var tilbúinn, virðulegi forseti, til að hafa þessa heimild miklu opnari. Ég held að stofnanir eins og háskólarnir okkar o.s.frv., séu fullfærar um að stunda rannsóknir af miklum krafti og gefa kannski aðra sýn á stöðu sjávarútvegsins og verndunarpólitík okkar í því sambandi.

Í frv. er gengið út frá því að umsögn Hafrannsóknastofnunar liggi fyrir en ég tel að það hefði mátt vera opnara. Ég hef lagt á það megináherslu að staðbundnir stofnar og rannsóknir á þeim, hvað varðar þorskinn, eru óplægður akur. Ef það reynist rétt sem margir halda fram að hér séu margir staðbundnir stofnar í þorskinum er fiskveiðistjórnarkerfi sem byggir á heildarkvóta fyrir íslenskan þorsk gersamlega hrunið. Menn verða að stokka öll þessi mál upp á nýtt. Það er í raun furðulegt að menn skuli ekki hafa opnað augun í því efni. Hver mundi treysta sér til að gefa út heildarkvóta í rækju þegar ljóst er að við erum með staðbundna stofna, hvort sem er Ísafjarðardjúpsrækja, Húnaflóa-, Axarfjarðar- eða Eldeyjarrækja? Að mínu mati standa þessi mál á svo veikum grunni hvað þetta varðar og þess vegna þurfum við að auka rannsóknarþáttinn verulega þar.

Í frv. er sett upp formúla fyrir gjaldtökuna. Ég ætla tímans vegna ekki að fara sérstaklega yfir hana. Ég tel að grunnhugsunin í sambandi við þessa gjaldtöku, eins og hún er sett fram í frv., sé röng. Ég held að hún eigi að vera á svipuðum nótum og lagt er upp með í vinnu endurskoðunarnefndarinnar, að auðlindagjald sé verkfæri til að stjórna því hvernig við förum í auðlindina. Til þess að nefna dæmi höfum við möguleika á því, ef við lítum á þetta sem verkfæri til að stjórna því hvernig við förum í auðlindina. Sem dæmi, eins og hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson benti á, getum við á vissum stöðum, eða gagnvart veiðarfærum eða gagnvart bátaflokkum, stýrt með gjaldtökunni, haft hana mismunandi.

Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson benti á að þorskurinn fyrir norðan land væri miklu smærri og þess vegna fengju menn minna út úr sínum kvóta þar en á ýmsum öðrum svæðum. Í mínum huga væri auðlindagjald á þessum grunni verkfæri sem hægt væri að beita þannig að auðlindagjaldið, t.d. fyrir þorskinn fyrir Norðurlandi, yrði lægra, ef mönnum sýndist svo, en auðlindagjaldið á stærri þorski.

Ef maður fylgir þessari hugsun með auðlindagjaldið getum við líka tekið sem dæmi auðlind sem einkaaðilar og ríki taka gjald fyrir. Við skulum bara taka dæmi eins og malartekjur. Þar er beitt auðlindagjaldi. Yfirleitt er það þannig að landeigandi, hvort sem er ríki eða einstaklingur, tekur gjald fyrir hvert tonn malar. Síðan þegar farið er að vinna þessa afurð --- sumir eiga góðar malarnámur með góðri möl en aðrir eiga malarnámur sem blandaðar eru öðrum efnum --- stýrist gjaldtakan af því hvers konar efni menn hafa að vinna úr, hvort menn þurfa að þvo mölina o.s.frv. Í raun er þessi formúla vel nothæf hvað varðar stjórn fiskveiða á sama hátt og við notum svona aðferðir til þess að stýra vinnslu á möl í þessu tilfelli. Gjaldtakan er notuð sem sjóður til að ganga frá landinu á nýjan leik o.s.frv. Þetta stýrist af svona atriðum. Ég held að við hefðum átt að vinna þetta miklu betur á grunni hugsunarinnar sem auðlindanefnd setur fram og fá það inn í heildstætt frv. um stjórn fiskveiða, þar sem við sköpuðum okkur verkfæri til að stjórna þessum málum af einhverju viti. Auðlindagjaldi sem tekið væri á þennan hátt gætum við beitt til allra mögulegra hluta, til fiskverndar ef okkur sýndist svo.

[16:45]

Þarna koma stórar spurningar inn í. Margir vísindamenn og hv. þm. hafa bent á að e.t.v. sé staða þorskstofnsins svona slæm af því að við erum að taka allt of mikið út úr bíómassanum í hafinu af því sem hefur verið grunnfæða fyrir þorskinn. Það gefur náttúrlega augaleið að einhvers staðar kemur það niður að við erum að veiða 800 þús. til milljón tonn af loðnu sem er grunnfæða fyrir þessa tegund. Við erum að veiða tugi þúsunda tonna af rækju. Fyrir örfáum áratugum veiddum við nánast ekki neitt. Þetta eru hlutir sem menn verða að velta fyrir sér og á grunni slíkrar veiðistjórnar með gjaldtöku sem hefur það meginmarkmið að vernda fiskstofnana er hægt að beita slíkum aðferðum á þennan hátt eins og ég greindi um áðan í ræðu minni með mölina.

Hér er farin sú leið að viðhalda því kerfi sem við höfum búið við og það er mjög miður. Stjórnarmeirihlutinn treystir sér augljóslega ekki til að fara í róttækar breytingar á kerfinu. Þannig er staða málsins. Þá lenda menn út í fen eins og þau að setja upp byggðapotta til að geta slökkt eldana þegar vandamálin koma upp, vandamál sem eru fyrirséð og augljóslega koma í kjölfar þess sem menn eru að gera í þessu sambandi. Menn eru að skapa grunn til þess að fyrirtækin verði færri og þau verði stærri og hin svokallaða hagræðing fái framgang. Það er mergurinn málsins. Síðan er þessi málamiðlun og til að allt verði ekki vitlaust í hinum dreifðu byggðum og afkomugrunnurinn gersamlega tekinn undan mönnum þá ætla menn að leika sér með þessa svokölluðu byggðakvóta upp á hartnær 15 þús. tonn ef allt væri gírað í botn. Þetta er vond leið og það sem er verst við þetta allt saman er að engar líkur eru til þess að þetta bæti umgengnina um nytjastofna sjávar. Við munum hjakka í sama farinu og eygjum ekki möguleikana á því að fiskstofnarnir byggist upp vegna þess að við höfum ekki borið gæfu til þess að byggja upp nýjan grunn sem gæti gefið okkur einhverja von um að við gætum byggt upp stofnana á nýjan leik. Það er ekki með felldu að eftir allan þennan árafjölda, hartnær 20 ár, skulum við vera í sömu sporum eða verr sett hvað þorskstofninn varðar. Það er gersamlega óásættanlegt. Og þá er náttúrlega eitthvað mjög mikið að eins og flestir hljóta að sjá.

Virðulegi forseti. Hér eru engir tilburðir til þess að upphefja nýja hugsun, leggja grunn að nýju kerfi sem gefur okkur einhverja von, alls ekki. Hér er haldið áfram á sömu braut nánast með byggðapottum sem geta aldrei orðið til þess að nein rótfesta verði í sjávarbyggðum landsins því að hvorki hreppsnefndir né einstaklingar í hinum dreifðu sjávarbyggðum munu til lengri tíma litið láta bjóða sér að koma með betlistaf í hendi til þess að fá lífsviðurværi frá miðstýrðu kerfi. Menn munu ekki endast í því. Menn munu ekki sjá framtíð í því. Menn munu notfæra sér það um stundarsakir en það verður aldrei grunnur sem menn telja sig vera örugga með að byggja á af neinu tagi.

Virðulegi forseti. Ég gæti í sjálfu sér flutt um þetta langt mál en ég á eftir tvær ræður og mun koma inn í umræðuna á seinni stigum og læt máli mínu lokið að sinni.