Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 22. apríl 2002, kl. 21:11:25 (8107)

2002-04-22 21:11:25# 127. lþ. 125.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv. 85/2002, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 127. lþ.

[21:11]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég held að sú gjaldtaka sem hér er að koma til sögunnar dragi ákaflega skammt hvað það varðar að vega upp þennan mun. Ef við notum sem mælikvarða á hann þann mun á verði sem við sjáum annars vegar í leiguliðakerfinu o.s.frv., þegar menn eru að láta veiða veiðiheimildirnar fyrir sig, og hins vegar það verð sem gengur á markaði, þá er stundum svoleiðis himinn og haf þar á milli að maður á erfitt með að skilja það og á auðvitað erfitt með að skilja hvernig í ósköpunum menn komast af þeir sem veiða fiskinn og fá fyrir hann fjórðung af því sem þeir gætu ef þeir ættu veiðiheimildirnar sjálfir og fengju að selja hann frjálst á markaði.

Já, á jafnræðisgrundvelli. Auðvitað er það best að menn keppi, það sé ekki stórkostlegur aðstöðumunur fyrir fram fólginn í einhverju kerfi af því tagi að sumir hafi verðmæt réttindi ókeypis en aðrir þurfi að borga þau dýrum dómum. Það eru ekki sanngjörn samkeppnisskilyrði. Það er augljóst mál. Slíkt kerfi getur verndað óhagkvæmni og eru svo sem mörg dæmi þess. Það má heimfæra þetta upp á styrkja- og millifærslukerfi og segja að þetta sé næsti bær t.d. við þær miklu millifærslur og styrki sem vinir okkar Færeyingar festust í um áralangt bil í sínum sjávarútvegi með skelfilegum afleiðingum. Það er stutt bæjarleið þarna á milli, það er alveg rétt. Ég tek það svo að við hv. þm. séum að mörgu leyti sammála um það.

Til að laða þarna fram hagkvæmni eru að mínu mati kannski aðallega tvær leiðir færar og önnur er sú að horfa á hagkvæmni heildarinnar, að við horfum ekki bara á einn þátt, veiðarnar, heldur leyfum okkur þá hina gömlu hugsun að horfa á samþættar veiðar og vinnslu og séum að skoða hvað skilar mestum hámarksverðmætum fyrir þjóðarbúið. Hin leiðin er að skilja þarna á milli og láta vera markað á milli. Þetta eru í aðalatriðum þær aðferðir sem ég sæi þá færar.