Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 22. apríl 2002, kl. 21:13:40 (8108)

2002-04-22 21:13:40# 127. lþ. 125.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv. 85/2002, Frsm. meiri hluta EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 127. lþ.

[21:13]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Einar K. Guðfinnsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. vék aðeins að spurningunni um líffræðina á bak við þetta allt saman sem ég er alveg sammála um að skiptir langmestu máli í þessu sambandi. En þá hlýt ég að vekja aðeins athygli á því að ég held að í annan tíma hafi ekki verið meiri og skipulegri umræður um þessi mál heldur en á undanförnum missirum.

Hæstv. sjútvrh. hefur einmitt beitt sér fyrir því að farið skyldi mjög skipulega ofan í þessi mál, kallað til erlendra sérfræðinga og það sem stendur kannski upp úr í hinni almennu umræðu er það ágæta fyrirspurnaþing sem var haldið á sl. vetri og að mínu mati var mikilvægt vegna þess að þar gafst tækifæri til þess að hlýða á mjög andstæð sjónarmið í þessum efnum.

Aðalmálið er þó það hvað varðar þetta frv. að vekja athygli hv. þm. á því að í nefndaráliti okkar í meiri hluta sjávarútvegsnefndar er einmitt vikið að þeim atriðum sem hv. þm. gerði að umtalsefni þegar við segjum svo, með leyfi virðulegs forseta:

,,Samkvæmt frumvarpinu er álagning veiðigjaldsins byggð á mælingu á þorskígildum. Í meðferð nefndarinnar kom fram gagnrýni á þessa mælieiningu. Var meðal annars bent á að hún gæti hvatt til veiða á stærri fiski og að ójafnræði kynni að hljótast af milli einstakra veiðarfæra og landshluta. Meiri hluti nefndarinnar telur að endurskoða þurfi þessar reglur svo og reglur um slægingarstuðul og kvótanotkun og að taka þurfi á spurningunni um undir- og yfirstuðul vegna stærðar fisks. Meiri hlutinn álítur nauðsynlegt að endurskoðun verði lokið í tæka tíð, svo að nýjar reglur geti tekið gildi við upphaf fiskveiðiársins 2003/2004.``

Það er ljóst að þetta er býsna flókið mál. Þetta er ekki mál sem menn hrista fram úr erminni. Þess vegna var það okkar niðurstaða að mæla svo fyrir um í nefndarálitinu að þessi endurskoðun skyldi fara af stað, menn skyldu setja sér ákveðinn tímaramma því það er ljóst að mikill hluti af þessu verður að taka gildi við kvótaáramót. Það er óraunhæft að það geti tekist við næstu kvótaáramót og þess vegna finnst mér það vera metnaðarfullt markmið af okkar hálfu að reyna að ganga þannig frá þessum reglum að þær geti tekið gildi við kvótaáramótin þar á eftir.