Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 22. apríl 2002, kl. 21:17:56 (8110)

2002-04-22 21:17:56# 127. lþ. 125.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv. 85/2002, Frsm. meiri hluta EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 127. lþ.

[21:17]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Einar K. Guðfinnsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er í sjálfu sér ekki mikill ágreiningur okkar í milli um þetta mál. Ég held hins vegar að líka sé nauðsynlegt að vekja athygli á öðru atriði sem fram kemur raunar í brtt. meiri hluta sjútvn. þar sem við opnum á þann möguleika að fleiri aðilar en Hafrannsóknastofnun ein geti fengið aflaheimildir til að geta stundað fiskirannsóknir og veitt fisk í því skyni án þess að hafa til þess veiðiheimildir. Þetta er auðvitað gríðarlega þýðingarmikið. Menn hafa bent á, þar á meðal ég, að ein forsendan fyrir því að hægt sé að ná góðum árangri í þessum efnum sé að kalla eftir fleiri sjónarmiðum. Við vitum auðvitað að það er ágreiningur um aðferðafræði og við leysum ekki úr honum nema við köllum eftir fleiri sjónarmiðum í þessum efnum. Ég held þess vegna að þessi breyting út af fyrir sig sem lætur kannski ekki mikið yfir sér við fyrstu sýn geti skipt miklu máli.

Annað í þessu samhengi sem maður hlýtur að árétta er að 1. febrúar sl. tóku gildi ný lög sem fólu það í sér að menn geta landað allt að 5% af afla sínum utan kvóta, og gert það þannig að 80% aflaverðmætisins fari til Hafrannsóknastofnunar. Þær upplýsingar sem ég hef um málið eftir fyrstu tvo mánuðina eru þær að þetta hafi tekið við sér fremur hægt eins og gengur í fyrsta mánuðinum en í öðrum mánuðinum hafi þetta þegar farið að skila álitlegum summum til Hafrannsóknastofnunar sem ætti út af fyrir sig þá að leiða til þess að styrkja fjárhagslegan grundvöll þessarar stofnunar og styrkja þar með vísindalegar rannsóknir hennar.