Ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar

Þriðjudaginn 23. apríl 2002, kl. 10:47:52 (8124)

2002-04-23 10:47:52# 127. lþ. 126.4 fundur 714. mál: #A ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar# frv. 87/2002, Frsm. 1. minni hluta JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur, 127. lþ.

[10:47]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég hygg að það hafi ekki verið undir 40 manns sem mættu á fund nefndarinnar að ræða þetta mál og ég held að það sé óhætt að segja að nær undantekningarlaust hafi allir þeir aðilar verið á móti málinu, hvort sem litið er til fjármálamarkaðarins, efnahagsstofnana eða atvinnulífsins. En það eru ein samtök sem vafðist svolítið fyrir mér að greina afstöðuna hjá og skilja vegna þess að það hafa komið upp þrjár afstöður hjá þessum samtökum sem er Verslunarráðið.

Aðstoðarframkvæmdastjóri Verslunarráðsins sem mætti á fund nefndarinnar, Birgir Ármannsson, sagði að Verslunarráðið mundi ekki leggjast gegn málinu. Hann sagði að vísu að Verslunarráðið hefði ákveðið prinsipp í svona málum en menn þyrftu að hafa prinsipp til að geta vikið frá þeim. Einhvern veginn svona orðaði hann það. Síðan hefur komið fram hjá stjórn Verslunarráðsins að hún hafnar þessari hugmynd ríkisstjórnarinnar. Þar er komin afstaða nr. 2, að vera á móti. Birgir Ármannsson situr greinilega hjá við þetta. En síðan kemur framkvæmdastjóri Verslunarráðsins og formaður efh.- og viðskn. sem lýsir því yfir hér að hann ætli að styðja málið. Að vísu sagði hann það svo nýlega í fjölmiðli að hann ætti eftir að koma sér upp sannfæringu í málinu og mér fannst sannfæringin satt að segja ekki mikil í ræðustólnum þó að hann lýsti yfir stuðningi við málið. Þess vegna er ég að reyna að átta mig á afstöðu Verslunarráðsins og spyr hv. formann nefndarinnar: Hver er afstaða Verslunarráðs Íslands til þessa frv.?