Ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar

Þriðjudaginn 23. apríl 2002, kl. 14:15:10 (8156)

2002-04-23 14:15:10# 127. lþ. 126.4 fundur 714. mál: #A ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar# frv. 87/2002, LB
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur, 127. lþ.

[14:15]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Frá því að ég kom á þing hef ég staðið frammi fyrir því að taka afstöðu til hinna ýmsu mála sem menn hafa lagt fyrir þingið. Sum þeirra hafa reynst ganga ágætlega upp og önnur ekki. En það er þó einkenni flestra þessara mála að við eigum möguleika á að taka afstöðu til þeirra á grundvelli upplýsinga sem liggja fyrir, á grundvelli gagna sem liggja fyrir þannig að við þurfum ekki að reka puttann upp í vindinn í því skyni einu að velta því fyrir okkur hvernig vindar blása í þessum málum.

Lífið er í sjálfu sér áhætta og ekki gerist neitt nema menn taki áhættu í þessu lífi. En líklega hefur maður aldrei staðið frammi fyrir því áður að eiga ekki nokkurn möguleika að gera sér minnstu grein fyrir málinu og reyna að svara þeim spurningum sem hér eru á borð bornar varðandi það að íslenska ríkið gangist í ábyrgð fyrir 20 milljarða án þess að nokkuð liggi fyrir um þá áhættu sem verið er að taka, án þess að nokkuð sé sett fram í því skyni til að styrkja þetta annað en greinargerð frá fyrirtækinu Íslenskri erfðagreiningu og ekki síst 23 línur eða svo frá meiri hluta efh.- og viðskn. Á grundvelli þessara gagna er þinginu ætlað að taka afstöðu til málsins.

Virðulegi forseti. Ég velti því fyrir mér þegar ég skoða álit meiri hluta efh.- og viðskn. hvernig á því standi að menn séu ekki tilbúnir að leggja frekari rök fram fyrir því en raun ber vitni að ríkið skuli gangast í þessa ábyrgð. Ég segi það fyrir mig að ég hef ekki hundsvit á lyfjaiðnaði, ekki nokkurt. Ég geri mér enga grein fyrir því hvort þetta sé arðsamasta iðngrein í heimi eða ekki, ekki nokkra. Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að aðra eins áhættu er varla hægt að taka. Því leyfi ég mér að spyrja: Hvað gerir það að verkum að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson er svona mikill sérfræðingur í lyfjaiðnaði þar sem yfirmenn hans í Verslunarráðinu hafa þegar tekið afstöðu gegn þessu máli?

Hvað gerir hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, sem nú gengur í salinn, eða hv. þm. Kristin H. Gunnarsson að svo miklum sérfræðingi í þessum efnum að ekki þurfi nema 23--24 línur til að útskýra það fyrir okkur hinum sem höfum litla þekkingu á þessu, að ekki þurfi frekari rökstuðning? Nú veit ég að hv. þm. Drífa Hjartardóttir er góður og gegn bóndi á Suðurlandi. Hvað gerir það að verkum að hún hefur svo mikla sérþekkingu á þessu máli að ekki þurfi frekari rökstuðnings við, eða hv. þm. Sigríður A. Þórðardóttir sem er formaður hv. utanrmn.? Þetta eru þeir fimm þingmenn sem rita undir meirihlutaálit og leggja til að frv. verði samþykkt án nokkurs einasta rökstuðnings sem nokkru nemur, nema tekið er fram að ekki sé víst að ESA samþykki þetta, þ.e. Eftirlitsstofnun EFTA, það liggur ekki fyrir. En leitað verði annarra leiða ef hún samþykkir það ekki samkvæmt þeim hugmyndum sem nú eru uppi.

Hvaða siðferðilegan rétt höfum við á því að binda ríkissjóð og skattgreiðslur, hvort heldur einstaklinga eða fyrirtækja eða önnur gjöld sem þaðan renna, á þessum forsendum? Hvernig stendur á því að mál af þessum toga kemur eiginlega fyrir þingið? Hvað tryggir það að þetta sé eina og besta leiðin til þess að tryggja hátæknistörf á Íslandi, störf í lyfjaiðnaði? Ætla menn að halda því fram með rökum að ekki megi byggja upp aðrar iðngreinar, ekki síður og ódýrar en með því að leggja um það bil 90--100 millj. undir á hvert starf sem hugsanlega verður til?

Virðulegi forseti. Það er með ólíkindum og þarfnast ítarlegrar rannsóknar hvernig á því standi að mál af þessum toga skuli koma fyrir þjóðþingið. Hér hafa menn leyft sér að bera þessa hugsanlegu ábyrgð saman við þá ábyrgð sem gengist var í vegna samgangna við Ísland fyrir Flugleiðir og fleiri fyrirtæki. Þar var áhættumatið metið upp á nýtt af alþjóðatryggingafyrirtækjum sem mátu það svo að hækka yrði tryggingariðgjöldin. Við þekkjum þó flugheiminn, flugiðnaðinn. Við vitum þar að hverju við göngum. Það er mat okkar varðandi samantekin ráð alþjóðlegra tryggingafyrirtækja um að hækka áhættumatið sem hækkar tryggingariðgjöldin að það sé verjandi að leggjast í þá ábyrgð, enda eru samgöngur lífsnauðsyn fyrir þessa þjóð.

Á sama hátt verður manni á að bera þetta saman við virkjanir sem hugsanlega fá ríkisábyrgð og þær ábyrgðir sem þar liggja að baki. Við vitum þó hvað þar er um að ræða. Við vitum að ríkisvaldið eða opinberir aðilar eiga þau fyrirtæki eða virkjanir sem á að leggja í. Við þekkjum þann rekstur. Við vitum hverjir eru í stjórn. Ég veit ekki einu sinni hverjir eru í stjórn deCODE. Ég hef ekki hugmynd um það og ég segi það alveg eins er. Ég leitaði að því á netinu en fann það ekki. Það getur vel verið að það stafi af vankunnáttu minni í því að leita á netinu. Ég skal ekki útiloka það. En ég fann það ekki. Það er ekki langt síðan við lásum í fjölmiðlum uppi á Íslandi að menn sem hafa setið í stjórnum sem íslensk fyrirtæki hafa átt í hafa lýst því yfir að þar hafi menn eytt peningum á báðar hendur. Gott var ef menn líktu því ekki við drukkna sjómenn þó að þeir hefðu aldrei farið með fé á þann hátt sem þá var gert.

Við erum að gangast í ábyrgð fyrir fólk sem við vitum ekki einu sinni hvert er. Við höfum ekki hugmynd um það. Nei, virðulegi forseti, það er alveg makalaust að nokkrum skuli detta í hug að koma með mál af þessum toga inn í þingið. Auðvitað vilja allir þessu fyrirtæki vel og auðvitað vilja allir að þetta gangi upp. En er það hlutverk ríkissjóðs að gangast í ábyrgð fyrir það? Ég tek undir með hv. þm. Pétri H. Blöndal sem hefur sagt hér á þingi að nær væri að bjóða þessa áhættu út, bjóða þessa ríkisábyrgð út og taka þá boði þess sem mest býður fyrir ábyrgðina. Einhver getur kannski boðið 500 störf fyrir þessa ábyrgð, jafnvel hálaunastörf. Það hefur ekki verið látið á það reyna.

Aðgerðir hæstv. ríkisstjórnar byggja flestar á því að finna patentlausnina. Ef það er ekki álver þá er það einhver önnur patentlausn sem á að koma fram. Að ætla að byggja upp 200 störf með því að gangast í ábyrgð fyrir um það bil 100 millj. á hvert starf hlýtur að vera eitthvað sem menn þurfa að hugsa sig vandlega um hvort gangi upp.

Virðulegi forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að það er líka með ólíkindum hvernig hæstv. ríkisstjórn hefur komist upp með það á hátíðarstundum, að skreyta sig með því að hún sé fyrir almennar aðgerðir. Í sögu lýðveldisins hefur ríkissjóður aldrei verið í eins ábyrgðum og nú, aldrei nokkurn tíma. Í sögu lýðveldisins hefur sennilega aldrei verið gengið í jafnsértæka aðgerð og nú er ætlunin. Þá er ekki síður vert að minnast á það að á undanförnum sex árum, árunum 1996--2002, hafa ríkisútgjöld tvöfaldast. Samt gefur þessi ríkisstjórn sig út fyrir að vera meira fyrir almennar aðgerðir en sértækar og hún gefur sig út fyrir að vera meira fyrir að draga úr ríkisútgjöldum en hitt. Þetta eru hins vegar staðreyndir lífsins.

Þeir reyna jafnvel ekki einu sinni að rökstyðja málið, gera enga tilraun til þess, ekki nokkra, og ætlast til þess að almennir alþingismenn, eins og sá sem hér stendur og fleiri sem litla sem enga þekkingu hafa á lyfjaiðnaði, taki afstöðu til þessa máls á þessum forsendum. Það er alveg makalaust.

Virðulegi forseti. Ég met það svo að ég held að líkurnar á því að þetta gangi upp væru ekki síðri ef við færum með þetta fjármagn til Vegas og legðum þar bara undir 20 milljarða á rautt. Ég held að það væru ekki síðri möguleikar þar. Það er þó alla vega til eitthvað sem heitir rautt og svart. Í því tilviki sem hér um ræðir, og kemur það fram í greinargerðinni, má búast við því að á bak við eitt lyf sem verður til hafi menn hætt við tilraunir með 10 þúsund efnasambönd. Þetta kemur fram í þessari greinargerð, þ.e. að á bak við hvert eitt lyf sem fer í klíníska meðferð hafi 10 þúsund tilraunir með efnasambönd fallið í valinn.

Það að koma einu lyfi á markað, frá því að lagt er af stað og þangað til það er komið á markað, kostar að meðaltali 50--80 milljarða. Menn hafa farið yfir það í morgun hver eiginfjárstaða fyrirtækisins er og í hve langan tíma það getur rekið sig án frekari aðstoðar. Samt koma menn upp og leggja það til við hv. þm. án þess að blikna að þetta skuli gert.

Finnst engum í þessum þingsal að hv. þm. eigi kröfu á því að reynt sé á einhvern hátt með einhverri röksemdafærslu að réttlæta það að farið sé út í þessar aðgerðir? Ég geri mér alveg fyllilega grein fyrir því að tímabundið muni þetta sjálfsagt styrkja gengið, þ.e. menn vænta þess að frekara flæði gjaldeyris verði til landsins. En hvað ætla menn að gera ef ábyrgðin fellur? Þá skilar þetta sér án efa margfalt í að veikja gengið. Hvar ætla menn þá að skera niður? Ætla menn að skera niður sjúkrahús og heilsugæslu á landsbyggðinni? Er það lausnin? Síðan hvenær varð það hlutverk ríkisins að stunda fjárhættuspil? Síðan hvenær fengu hæstv. ráðherrar og meiri hlutinn hér heimildir til þess að stunda fjárhættuspil með ríkissjóð?

Nei, virðulegi forseti. Enginn þarf að velkjast í vafa um afstöðu mína til þessa máls. Ég hef megnustu andstyggð á því og finnst með hreinum ólíkindum að þetta skuli koma inn á hið háa Alþingi. Ég segi það alveg eins og er að ég held að það þurfi rannsóknar við hvernig á því standi að hugmyndir af þessum toga skuli reka á fjörur Alþingis.

Í umræðunni hafa menn farið vítt og breitt yfir þessa hugmynd sem er í sjálfu sér einföld. Hugmyndin er skýr. Hins vegar er röksemdafærslan á bak við hana, þ.e. það sem réttlætir að þingið ráðist í þessa ábyrgð, engin, ekki nokkur.

Menn gera sér vitaskuld fyllilega grein fyrir þeim aðstöðumun sem skapast milli fyrirtækja innan þessarar greinar, milli fyrirtækja sem þurfa að taka lán, milli vaxtakostnaðar hjá þeim fyrirtækjum sem þurfa að taka þessi lán og samkeppnisskekkju sem kemur eðlilega inn í markaðinn. Svona sértækar aðgerðir eru fyrst og fremst að mínu mati til þess fallnar að tefja fyrir því að markaðurinn nái að rétta sig af, að markaðurinn nái að tryggja bætta stjórn hjá fyrirtækjum, að menn leiti eftir bestu fjármögnun og tryggi sem mesta arðsemi vegna þess að inngrip af þessum toga skekkir alltaf þessa hluti. Þess vegna hafa menn frekar sóst eftir almennum aðgerðum en sértækum. Dómur um hugmyndafræði hinna sértæku aðgerða er í raun og veru löngu fallin. Við sjáum á sögunni hvernig fjármagnið hefur farið þar sem gripið var inn í með sértækum aðgerðum. Við getum nefnt mörg dæmi sem menn hafa nefnt í morgun, hvort heldur í landbúnaði eða sjávarútvegi.

[14:30]

Nei, virðulegi forseti. Það er með ólíkindum að við skulum standa frammi fyrir því að þurfa að taka afstöðu til þessa máls á þeim forsendum sem hér er lagt upp með.

Ég vil líka segja það, virðulegi forseti, að það væri ólíkt áhættuminna að mínu mati að ríkissjóður gæfi þá út skuldabréf í stað þess að gera þetta með þeim hætti sem hér er ætlunin að gera. Hin einfalda ábyrgð felur í sér að þegar hún fellur --- ef hún fellur og þegar hún fellur --- fellur hún öll í einu, með vaxtakostnaði, innheimtukostnaði og öllu vegna þess að hún fellur ekki á ríkissjóð fyrr en það verður búið að ganga að fyrirtækinu og kanna til hlítar hvort þar séu einhverjar eignir sem geta gengið upp í kröfur. Ég met það svo að menn verði búnir að gjaldfella bréfin og ég ætla ekki að reyna að reikna út hvaða fjárhæðum við stöndum þá frammi fyrir eða gætum staðið frammi fyrir þegar vaxtakostnaður, dráttarvaxtakostnaður og innheimtukostnaður og allt sem á hana er fallið er komið upp.

Ég held þess vegna, virðulegi forseti, að það sé miklu skynsamlegra og minni áhætta sem fælist í því að ríkið gæfi einfaldlega út bréf í dollurum og lánaði fyrirtækinu. Þá gætum við a.m.k. fylgst með því hvenær afborganir færu fram og við gætum þá stjórnað því miklu frekar hvernig áhættunni væri dreift. Ég átta mig ekki alveg á hugmynd hv. þm. Péturs H. Blöndals í brtt. Hann hefur haldið ræður um að hann sé andvígur þeirri einföldu ábyrgð sem hér er ætlunin að gangast í en samt er hún inni í hugmyndum hans. En hann bætir reyndar við: ,,eða kaupa slík skuldabréf`` sem ég skil eins og ég lagði upp með áðan.

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að ákvörðun um að fara þessa leið er tekin á fundi sem ekki margir hafa komið að. Að þessari hugmynd hafi skolað inn á þing er alveg með eindæmum, a.m.k. miðað við það stjórnarfar sem við teljum í umræðum á hátíðarstundum og tyllidögum að hér sé, lýðræði, og hér taki menn afstöðu á grundvelli samvisku sinnar og hugmynda um það hvað hentar samfélaginu best.

Í raun og veru getur maður fátt sagt í þessari umræðu annað en það að maður vonar það besta. Maður vonar að þetta fjárhættuspil gangi upp. Ég vona að við stöndum ekki frammi fyrir því eftir einhvern tíma að greiða 30, 40, 50 milljarða á einu bretti ef þetta gengur ekki upp. Við fáum hins vegar svörin fyrr en reiknað er með í þessu frv. Bréfin eru til sjö ára en við fáum sennilega svörin fyrr við því hvort fyrirtækinu takist ætlunarverk sitt.

Ég vil segja að lokum, virðulegi forseti, að ég mun greiða atkvæði gegn þessu. Ég er mjög undrandi á því að hugmyndir á borð við þessa skuli reka á fjörur þingsins. Ég er mjög ósáttur við það að hv. þingmenn þurfi að taka afstöðu til þessa máls á grundvelli þeirra gagna sem hér liggja fyrir. Meira að segja Seðlabanki Íslands treystir sér ekki til að meta áhættuna af þessu fyrirtæki þó að hv. þm. í meiri hluta efh.- og viðskn. treysti sér til þess. Þeir sem treysta sér til að meta áhættuna leggjast allir gegn því að þessi leið verði farin. Ég get í sjálfu sér ekki sagt annað, virðulegi forseti, en að ég vona að það fjárhættuspil sem ríkisstjórnin ætlar að fara út í verði ekki til þess að skaða almannaþjónustu í landinu.