Ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar

Þriðjudaginn 23. apríl 2002, kl. 16:25:21 (8160)

2002-04-23 16:25:21# 127. lþ. 126.4 fundur 714. mál: #A ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar# frv. 87/2002, PHB
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur, 127. lþ.

[16:25]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég vil byrja á að taka fram að ég er eindregið á móti þessari ríkisábyrgð til Íslenskrar erfðagreiningar og móðurfyrirtækis þess, deCODE. Ég mun greiða atkvæði gegn frv. og brtt. hv. efh.- og viðskn. Ég mun greiða atkvæði gegn því að frv. fari til 3. umr., sem ég geri þó sárasjaldan.

Sú áhætta sem við mundum taka með samþykkt þessa frv. væri stórhættuleg fyrir ríkissjóð og hefði ófyrirséðar afleiðingar fyrir atvinnulífið. Ég vil hins vegar taka fram að ég hef mikla trú á Íslenskri erfðagreiningu. Ég hef líka trú á því að fyrirtækið hasli sér völl í nýrri grein, þ.e. í lyfjaþróun. En það er hins vegar svo mikill áhætturekstur að hann ætti að vera fjármagnaður með áhættufé, ekki með lánsfé og síst af öllu með ríkisábyrgð. Fari svo að þetta frv. verði samþykkt vona ég það besta, að dæmið gangi upp. Það eru ákveðnar líkur til þess.

Herra forseti. Alþjóðleg þróun segir okkur að menn séu að hverfa frá sértækum aðgerðum í efnahagsmálum yfir í almennar aðgerðir. Þeir gefa atvinnulífinu almennar forsendur til að starfa eftir og hætta að mismuna fyrirtækjum og skekkja samkeppni þeirra. Þetta gera menn vegna þess að sértækar aðgerðir leiða til lélegri reksturs, lélegri stjórnunar, óþarfa launaskriðs og samkeppni um starfsfólk þegar styrkt fyrirtæki keppa við önnur fyrirtæki um starfskraft. Þetta skekkir líka staðarval. Slíkir styrkir eru yfirleitt settir á laggirnar til að lokka fyrirtæki til staða þar sem ekki er skynsamlegt að hafa viðkomandi rekstur.

Í umsögnum um þetta frv. hefur starfsmannasamkeppnin sérstaklega verið undirstrikuð, samkeppnin um starfsmenn. Bent er á að fyrirtæki í þessum geira, lyfjafyrirtæki og aðrir slíkir sem þurfa vísindamenn, muni þurfa að borga hærri laun fyrir bragðið og standi verr að vígi. En það hefur ekki verið nefnt að heilbrigðisþjónustan mun öll líða fyrir samkeppni um starfsfólk. Þetta nýja fyrirtæki mun væntanlega taka til sín marga þaðan sem geta stundað meinatæknistörf. Þetta er jú spurningin um það að rækta mýs og því um líkt.

Herra forseti. Í þessu dæmi er afskaplega mikil áhætta. Í fyrsta lagi náttúrlega rekstraráhætta eins og í öllum fyrirtækjum og síðan áhættan af því að þetta fyrirtæki er með mjög fáar vörur, þessi nýja starfsemi. Annaðhvort uppgötva menn ekkert lyf, eitt lyf eða tvö lyf og það þykir afskaplega góður kostur ef menn ná að uppgötva tvö lyf. Þetta er svokölluð punktaáhætta, eins og teningur með þremur hliðum sem kastað er. Spurning er um hvaða líkur eru á hverri hlið vegna þess hvernig hlutabréf í slíkum greinum eru metin. Það má áætla að gjaldþrotalíkurnar í hreinni þróun lyfja séu yfir 90% en hagnaðurinn er óskaplegur ef menn finna eitt, svo maður tali nú ekki um ef þeir finna tvö lyf. Fari svo fer gengið væntanlega langt yfir 100, sem upphaflega er selt á einum.

Til viðbótar þessu ætla menn að prófa nýjar aðferðir við þróun lyfja, þ.e. aðferðir sem byggja á erfðafræði. Það er mjög spennandi og skemmtilegur kostur en eykur áhættuna enn frekar og gerir enn frekar mótsagnakennt að nota til þess ríkisábyrgð.

Það er nefnt í grg. með frv. að dreifa megi þessari áhættu með því að taka yfir verkefni frá öðrum og útdeila verkunum til annarra fyrirtækja á svipuðu sviði. Með því dreifa menn áhættunni en minnka líka hagnaðarvonina. Það er hugsanlegt að gjaldþrotalíkurnar lækki niður í 50--60% við slíka dreifingu. En eftir sem áður eru alltaf miklar líkur á að dæmið gangi ekki upp.

[16:30]

Herra forseti. Við erum að tala um 20 milljarða áhættu sem óskað er eftir að Alþingi heimili. Þetta yrði svipað og allar lífeyrisgreiðslur Tryggingastofnunar á einu ári, um 277 þús. kr. á hverja fjögurra manna fjölskyldu. Á sama tíma og ráðamenn vara menn við að skrifa upp á og taka áhættu er hv. þm. ætlað að skrifa upp á fyrir alla þjóðina 277 þús. kr. á hverja fjögurra manna fjölskyldu. Það eru sennilega mánaðartekjur fjölskyldunnar, jafnvel fyrir skatt.

Herra forseti. Í nál. meiri hluta hv. efh.- og viðskn. segir svo á bls. 2, með leyfi herra forseta:

,,Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er grein fyrir hér að framan og lagðar eru til í sérstöku þingskjali.

Hjálmar Árnason var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 17. apríl 2002.``

Undir nál. þetta rita síðan hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, formaður og framsögumaður, Einar K.Guðfinnsson, Kristinn H.Gunnarsson, Sigríður A. Þórðardóttir og Drífa Hjartardóttir. Þessir hv. þm. leggja til við hv. Alþingi að samþykkja þetta frv.

Því fylgir mikil ábyrgð, herra forseti, að leggja til að Alþingi samþykki þetta frv. Ég hef líkt því við að maður með bílpróf setjist um borð í júmbóþotu og ætli að taka hana á loft. Það er mikil ábyrgð fólgin í því að taka ákvörðun án þess að hafa til þess vit eða þekkingu.

Í þessu dæmi þarf að leggja mat á áhættuna, leggja mat á viðskiptaáætlanir, besta kost, versta kost og millikost, og leggja mat á gjaldþrotalíkur. Menn þurfa að hafa reynslu af áhættufjárfestingum til að taka svona ákvörðun. Þetta hefur hv. efh.- og viðskn. tekið ákvörðun um á sex dögum. Ég segi og skrifa, herra forseti, sex dögum. Væntanlega hafa þeir lagt nótt við dag og ekki gert neitt annað á meðan. Þegar stórfyrirtæki taka slíka áhættu þarf a.m.k. sex vikur með her af sérfræðingum sem þekkja inn á viðkomandi rekstur, viðkomandi grein og allt umhverfi hennar, þ.e. sérfræðingum í lyfjaþróun og erfðafræði. (HjÁ: Af hverju sex vikur?) Stundum eru það sex mánuðir, herra forseti, vegna framkvæmda. (HjÁ: Af hverju ekki sex ár?) Það eru yfirleitt sex vikur lágmark og upp í sex mánuðir sem þarf til að geta tekið ákvörðun um hvort menn ætli að fjárfesta eða ekki. Að sjálfsögðu gengi ekki að nota til þess sex ár því þá er viðskiptaáætlunin úrelt.

Til þessa þurfa menn að hafa mikið vit á fjárfestingum. Í fyrsta lagi að hafa fjárfest, kunna að fjárfesta, vita hvað áhætta er og hvaða líkur eru á tapi. Menn þurfa að hafa reynslu á viðkomandi sviði, þ.e. í lyfjaþróun, sem Íslendingar hafa hingað til alls ekki komið nálægt fyrir utan eitt lítið fyrirtæki sem er að hefja rekstur.

Ábyrgð þeirra hv. þm. sem skrifa undir þetta nál. og leggja til að hv. Alþingi samþykki þetta frv. er mjög mikil.

Herra forseti. Sú spurning vaknar: Hvers vegna er þetta fyrirtæki valið? Af hverju völdu menn einmitt þetta fyrirtæki til að byggja upp vísindasamfélag á Íslandi? Það er til fjöldinn allur af fyrirtækjum sem búið geta til nákvæmlega sama vísindasamfélagið. Ég vil t.d. nefna Fiskeldi Eyjafjarðar sem er að þróa lúðueldi með vísindalegum aðferðum. Það er þó eitthvað sem við kunnum, eitthvað sem við getum, eitthvað sem við höfum náð góðum árangri í. Ég vil nefna fjármálastarfsemi ýmiss konar þar sem hægt er að ná inn sérfræðingum til landsins.

Hvers vegna í ósköpunum er þetta ekki hreinlega boðið út? Ríkissjóður gæti auglýst í viðskiptablöðum um allan heim: Bjóðum 20 milljarða ríkisábyrgð til að ná til landsins vísindastörfum, má vera 57% af fjárfestingu, forsendan er að starfið kosti ekki meira en 110 milljónir á hvert starf og því þurfa að fylgja vísindamenn sem koma til landsins í þróunarvinnu og rannsóknir? Af hverju bjóða menn þetta ekki út, herra forseti? Ég skil ekki af hverju menn velja einmitt þetta fyrirtæki, sem reyndar er mjög gott og hefur sýnt góða takta. Ég sé þó ekki að menn þurfi endilega að velja þessa áhættu að veita til ríkisábyrgð.

Herra forseti. Við 1. umr. sagði ég að ekki væri munur á ríkisábyrgð og beinu láni. Ríkissjóður gæti hreinlega gefið út skuldabréf, selt á markaði og lánað svo beint. Það er enginn munur á því. Reyndar er þetta lán sem um ræðir með kauprétti og kaupskyldu miðað við gengið 18 dollarar. Ef maður bætir ábyrgðargjaldi við vexti ríkissjóðs og dregur frá gjald vegna þessa kaupréttar er maður kominn með vexti sem ríkissjóður gæti rukkað fyrirtækið um fyrir að veita því beint lán. Það finnst mér að ríkissjóður eigi að gera. Fari illa fær ríkissjóður ekki neitt. Hann þarf að borga 20 milljarða og tapar fé sínu, hvort sem hann lánar eða veitir ríkisábyrgð. Hann er búinn að fá jafnmikið ríkisábyrgðargjald með hvorum hættinum sem er.

Gangi hins vegar vel fær hann bara ríkisábyrgðargjaldið við að að veita ábyrgðina, en hann fengi þá alla vega kaupréttinn og möguleika á hagnaði í fyrirtækinu ef vel gengi. Ef gengið færi upp í 100 gæti ríkissjóður hagnast dável á þessu dæmi. Það eru ákveðnar líkur á því og það eru þær líkur sem við veðjum öll á. Þess vegna finnst mér eðlilegt að ríkissjóður láni frekar en að veita ríkisábyrgð. Það er enginn munur á áhættunni.

Það er svo aftur önnur saga að ef illa gengur verður lánveitandinn að ganga að fyrirtækinu áður en hann fær ríkisábyrgðina. Hann verður sem sagt að setja fyrirtækið í gjaldþrot, líka þau 600 störf sem eru til í dag. Þannig yrði öllum iðnaðinum rústað ef illa færi fyrir þessari lyfjaþróun.

Mér finnst að það ætti hreinlega að koma til greina að kaupa hlut í fyrirtækinu. En ég geri reyndar ekki tillögu um það. Ef illa færi mundi fyrirtækið geta lifað eða lafað áfram og þyrfti ekki að fara í gjaldþrot og áfram færi fram sú starfsemi sem er til staðar í dag. En þetta er munurinn á að taka lán til reksturs eða hlutafé til reksturs. Þess vegna velja fyrirtæki í áhætturekstri yfirleitt áhættufé, og verða að gera það, en ekki lánveitingar.

Herra forseti. Ég hef lagt fram brtt. um að ríkissjóði eða fjmrh. verði auk þess að veita ábyrgð heimilt að kaupa skuldabréfið sem um ræðir og njóta þannig kaupréttarins sem því fylgir. Þessa tillögu mun ég draga til 3. umr. Af hverju? Vegna þess að ég er eindregið á móti þessari minni eigin tillögu. Hafi Alþingi hafi samþykkt tillögu hv. efh.- og viðskn. við 2. umr., sé sá skaði er skeður, mun ég leggja til að fjmrh. verði heimilt að kaupa skuldabréfin til að minnka skaðann, þ.e. ríkissjóður eigi þó alla vega kauprétt á hlutabréfum í fyrirtækinu og njóti þess ef vel gengur. Þannig yrði skellurinn jafnframt minni, þ.e. hann fengi þá alla vega eitthvað fyrir sinn snúð. Hann fær annars ríkisábyrgðargjaldið og ekkert annað ef vel gengur og tapar öllu saman ef illa gengur.

Hvers vegna geri ég þetta? Af hverju geri ég ekki tillögu um að ríkissjóður fái bara að lána fyrirtækinu? Það er til þess að nota grg. frv. sem byggir greinilega á einhverju samkomulagi við fyrirtækið, um að slíkur kaupréttur fylgi með í kaupunum. Það byggir greinilega á einhverju samkomulagi. Þetta er minna tap og ekki eins vondur kostur og það að veita bara ríkisábyrgð.

Herra forseti. Ég hef fengið nokkur bréf á netinu --- ekkert voðalega mörg, svona þrettán --- og þar á meðal eitt þar sem spurt var: Hvað gerist fyrir þá þingmenn sem greiða þessu atkvæði fjárhagslega ef ríkissjóður þarf að borga 20 milljarða, þ.e. 277 þús. kr. á hverja fjögurra manna fjölskyldu? Hverju eru þessir þingmenn að hætta? Segjum að eftir þrjú, fjögur og kannski sjö ár komi upp sú staða að það þurfi að fara að borga, hverju eru þeir í rauninni að hætta? Engu. Ekki fjárhagslega. Ekki umfram aðra Íslendinga. Þessi maður vildi leggja til að samþykkt yrði að þeir borguðu þá tífalt, 2,8 milljónir, úr eigin vasa ef illa færi. Þeir fyndu þá alla vega fyrir því, einhverri ábyrgð.

Annar sagði að það væri snilld --- sá er reyndar staðsettur á vesturströnd Bandaríkjanna, Íslendingur sem þar er við störf --- að láta sér detta í hug að einhver ríkissjóður ábyrgðist þvílíka áhættu sem lyfjaþróun, það væri snilld að fá slíka hugdettu. En að fá hana samþykkta væri enn þá meiri snilld, herra forseti.