Ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar

Þriðjudaginn 23. apríl 2002, kl. 17:01:27 (8166)

2002-04-23 17:01:27# 127. lþ. 126.4 fundur 714. mál: #A ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar# frv. 87/2002, Frsm. 2. minni hluta ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur, 127. lþ.

[17:01]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (andsvar):

Herra forseti. Við erum hér að ræða um 20 þús. millj. kr. ábyrgðartryggingu sem gefin yrði fyrir hönd þjóðarinnar gagnvart fyrirtækinu deCODE. Hér stóð í pontu hv. þm. sem talaði um skuldastöðuna hjá fyrirtækinu, að fyrirtækið væri skuldlaust.

Ég vil spyrja hv. þm. að hvaða marki hann hafi kannað fjárhag og sjóðstreymi hjá þessu fyrirtæki. Allir vita að íslensku ríkisbankarnir, sérstaklega Búnaðarbankinn, keyptu út bandaríska áhættufjárfesta á sínum tíma fyrir um 6.000 millj. kr. Það vita allir að verulegt fjársteymi kom inn í fyrirtækið þegar það fór á markað, þá á genginu 16--18 dollarar. Síðan hrapar það niður --- en þarna kom inn mikið fjárstreymi. Allir vita að það hefur komið talsvert fjárstreymi inn í fyrirtækið eftir samninga við Hoffmann-La Roche þó engan veginn sé það í samræmi við það sem áformað hafði verið. Þetta er öllum kunnugt.

Hitt hefur nú verið upplýst að fyrirtækið er ekki farið að borga eina einustu krónu vegna samninga sem það hefur gert við íslenska ríkið. Hefur hv. þm. kynnt sér þetta? Ekki hefur verið staðið við loforð um greiðslur vegna gagnagrunnsins eða annarra yfirlýsinga, loforð sem hafa verið rækilega auglýst. Heilir flugfarmar af ráðherrum hafa verið sendir um allt land til að dásama og húrrahrópa árangurinn en ekki ein einasta króna hefur komið inn í ríkissjóð.

Hefur hv. þm. farið í saumana á lántökum fyrirtækisins á síðustu mánuðum þar sem fram kemur að vaxtakjörin sem fyrirtækinu bjóðast fara hríðversnandi? Hefur hann kannað þetta? Hefur hann farið í saumana á þessum málum áður en hann fyrir hönd íslensku þjóðarinnar gengst í ábyrgð fyrir 20 þús. millj. kr.?

Ég held að nú sé ekki tíminn fyrir klisjukenndar ræður eins og við heyrðum hér áðan. Nú gerum við þá kröfu að farið sé í saumana á þessum málum.