Ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar

Þriðjudaginn 23. apríl 2002, kl. 17:07:27 (8169)

2002-04-23 17:07:27# 127. lþ. 126.4 fundur 714. mál: #A ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar# frv. 87/2002, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur, 127. lþ.

[17:07]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Mér þykja merkilegheit hv. þm. heldur betur mikil. Hefur hv. þm. kafað í bókhaldið hjá Íslenskri erfðagreiningu og deCODE? (ÖJ: Ég hef verið að reyna það.) Hefur hv. þm. farið sjálfur ofan í allar skræðurnar þarna til að kanna tölurnar, hvort þær séu réttar eða ekki? (ÖJ: Ég hef verið að reyna það.) Ég held að hv. þm. ætti ekki að vera með þessi merkilegheit. Ég held að hv. þm. viti lítið meira um þetta en ég.

Ég hef lesið það sem hefur komið fram um Íslenska erfðagreiningu. (ÖJ: Hvað?) Ég hef séð gögn um hvernig hluthafar hafa verið upplýstir um hag fyrirtækisins. Ég ætla bara að segja hv. þm. að ef hann trúir ekki á þetta fyrirtæki er það að sjálfsögðu hans ákvörðun. Ég trúi á þetta fyrirtæki. Ekki vegna þess að ég hafi enga skoðun á fyrirtækinu eða hafi ekki þor til að kynna mér stöðu þess heldur vegna þess að ég hef séð á þeim störfum sem þar er sinnt að þar er unnið af ábyrgð og eftir þeim hugmyndum sem hafa verið í gangi. Ef menn á annað borð hafa áhuga á því að byggja upp hugvit á Íslandi hljóta þeir að styðja fyrirtæki sem þetta. (Gripið fram í.)

Það er svo aftur allt annað mál að auðvitað hljótum við að taka einhverja áhættu. Til þess er verið að samþykkja þessi lög, við ætlum að taka áhættu. En ég trúi því, miðað við þær upplýsingar sem ég hef, að sú áhætta sé hverfandi. En ég ábyrgist það ekki. Ég trúi því miðað við þær upplýsingar sem ég hef fengið, hv. þm. Ég tel að mínar upplýsingar séu ekkert síðri en þínar og að það muni standa sem sagt hefur verið. (ÖJ: Þú trúir því.)