Ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar

Þriðjudaginn 23. apríl 2002, kl. 17:09:33 (8170)

2002-04-23 17:09:33# 127. lþ. 126.4 fundur 714. mál: #A ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar# frv. 87/2002, SJS
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur, 127. lþ.

[17:09]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég tel að hlutskipti stjórnarþingmanna og þess vegna ráðherra sem eru aðstandendur þessa máls sé ekki öfundsvert. Maður á kannski ekki að hafa ummæli um það í þá veru en ég verð að segja að mér finnst heldur sútarlegur svipur hér á manni og manni sem bendir til að þeim hafi liðið betur við margt annað en að greiða götu þessa máls í gegnum þingið á þeim forsendum sem fyrir liggja, eins og það ber hér að á allan hátt. Ég held að það þurfi í sjálfu sér, herra forseti, ekki að rökstyðja þetta ýkjamikið. Þegar mál af þessu tagi kemur fyrir þingið og á að afgreiðast á fáeinum sólarhringum, upp á 20 þús. milljónir kr. í ábyrgðum fyrir mjög áhættusamri starfsemi og það er svo í pottinn búið að ýta verður til hliðar öllum þeim leikreglum sem menn hafa sett um afgreiðslu slíkra mála í lögum þá segir það sína sögu. Það getur ekki verið að fjmrh. þjóðarinnar eða formanni efh.- og viðskn. geri það sisvona að gamni sínu og finnist það allt í lagi. Ég trúi því ekki að þeim finnst þetta ekki ljóður á málinu.

Ég geri lítið með það þó að menn tali sig upp í hita líkt og hv. síðasti ræðumaður gerði. Það mætti líka velta því fyrir sér hvort sannfæringin sé alltaf jafnheit og menn vilja vera láta, þegar menn belgja þvílík ósköp upp eins og hv. þm. Kristján Pálsson gerði áðan í eldlegri sannfæringu sinni fyrir því hvað þetta væri rakið og einboðið mál. Auðvitað er sjálfsagt að allir styðji þetta, sagði hann, sem vilja nýsköpun í atvinnulífinu. Nema hvað.

Eigum við þá ekki bara að styðja allt sem mönnum dettur í hug ef allt er svo sjálfsagt og svona einfalt? Það eru kannski engin vandamál í þessu. Á ekki ríkið nóga peninga? Eigum við ekki að taka alla þá áhættu sem býðst? Ef tilgangurinn helgar meðalið, ef menn geta komið hér og sagt: Af því að það eru mögulega í boði 250 störf þá er sjálfsagt að gera það sem til þarf.

Þetta, herra forseti, er skólabókardæmi um það þegar menn segja: Tilgangurinn helgar meðalið. Í raun þurfa þeir ekki flóknari röksemdafærslu við. Ég verð að segja að það er umhugsunarefni að hæstv. fjmrh., með sínu liði, skuli láta hafa sig í þetta. Ég verð að segja alveg eins og er. Ef málið hefði komið hér inn þrautundirbúið, Alþingi haft góðan tíma til að fara rækilega yfir það, allar upplýsingar og áætlanir fyrirtækisins legið á borðinu, þar með taldar traustar vísindalegar upplýsingar og þetta hefði farið fram samkvæmt lögunum um ríkisábyrgð væri þetta þó orðið eitthvað nær máli. En svo er ekki. Ekkert af þessu er til staðar, ekki neitt.

Ég held að vinna efh.- og viðskn., sem án vafa hefur reynt að vanda sig í þessu máli, hafi fyrst og fremst leitt í ljós hversu gríðarlega mikið vantar á að hægt sé að bera málið fram og styðja það. Hefðu komið fram í vinnu efh.- og viðskn. traustar upplýsingar og fullnægjandi svör við öllum þeim áleitnu spurningum sem þetta mál vekur væru menn þó eitthvað nær því að geta áttað sig á því og tekið afstöðu til þess. En hefur það gerst? Nei.

Hafa fengist svör við því hvaða fordæmisgildi þetta mál hefur og hvernig með það verður farið? Nei. Fjmrh. hefur í vörn sinni sagt: Ja, ef sambærileg mál koma upp verður litið á þau. En svo er þeim erindum ekki svarað sem þegar hafa borist. Liggur fyrir hvort þetta er samrýmanlegt ákvæðum Evrópska efnahagssvæðisins um ríkisaðstoð? Nei. Liggur fyrir hvaða samhengi þetta kann að hafa við t.d. samkeppnislöggjöfina og hvernig kærumál á þeim grunni kynnu að fara? Nei.

Það skortir, herra forseti, eiginlega allt sem þyrfti að liggja til grundvallar því að taka þá ákaflega erfiðu ákvörðun sem það hlyti að vera, ef allar upplýsingar væru fyrir hendi, um hvort þetta væri réttlætanlegt. Ég geri ekki ráð fyrir því að menn ætli sér að innleiða þá tíma að veiting ríkisábyrgða af þessu tagi verði sjálfsagt mál. Ja, þá er verið að brjóta í blað. Öðruvísi mér áður brá.

[17:15]

Má ég minna á að hér eru aðstandendur að máli þeir hinir sömu og þöndu sig nú ekki svo lítið um óráðsíuna alla sem viðgengist hefði, um hin miklu ríkisumsvif og skaðlegu, um fortíðarvandann, um sértækar aðgerðir í atvinnumálum og um það ekki síst hversu nauðsynlegt væri að draga úr ábyrgð ríkisins í atvinnumálum. Það átti að gera einkanlega með tvennum hætti, með því að einkavæða allt sem hægt var þar sem ríkið hafði áður staðið á bak við með eigendaábyrgð, þá ekki síst fjárfestingarlánasjóði og banka, og með því að þrengja öll skilyrði fyrir ríkisábyrgðum. Það er alveg vitað að ýmsir hugðust ganga miklu lengra í þeim efnum en þeir hafa síðan komist til að gera. Sjálfstfl. hefði ábyggilega viljað helst að allar ábyrgðir ríkisins á bak við húsnæðislán í landinu væru á bak og burt ef hann hefði ráðið við það pólitískt eða að það hefði reynst raunhæfur möguleiki gagnvart markaðnum. Einkavæðingin hefur að vísu gengið hægar en til stóð, a.m.k. heldur en stuttbuxnaliðið ætlaði sér á sínum tíma þegar það setti Báknið burt-plötuna á fóninn. En svo koma þessir sömu menn og standa svona að málum, herra forseti.

Ég tel að eitt það alvarlegasta við þetta mál sé hvernig menn ætla að ýta lögunum um ríkisábyrgð til hliðar bara eins og ekkert sé sjálfsagðara. Það vill nú svo til að ég þekki viðureign, glímu við það að skapa fullnægjandi tryggingar og setja reglur sem þýddu að ríkið gæti ábyrgst lán sem voru brotabrot af þeim stærðum sem hér er verið að tala um. Þá sátu menn á linnulausum samningafundum við forsvarsmenn Ríkisábyrgðasjóðs og þvörguðu fram og aftur um það hvort leyfilegt væri að fara upp í 80 eða 90% af t.d. matsverði eigna, hvort réttlætanlegt væri að Ríkisábyrgðasjóður tæki þá áhættu, færi svo langt upp með þökin, og hvort ekki yrðu að koma einhverjar tryggingar á móti o.s.frv. Menn voru að tala um smáaura á móti því sem hér er. Til að herða enn betur á þessu var sett í gang starf á tíunda áratug síðustu aldar og það leiddi til þeirrar niðurstöðu að starfshópur, skipaður virðulegum seðlabankastjórum og ríkisábyrgðarstjórum, skilaði tillögum sem áttu alveg sérstaklega að miða að því að draga úr veitingu ríkisábyrgða með því að setja strangari reglur um meðferð þeirra mála allra.

Það mætti vitna í álit þessarar ágætu nefndar sem skilaði af sér einhvern tíma á mánuðunum fyrir lagasetninguna 1997. Í henni sátu Birgir Ísleifur Gunnarsson seðlabankastjóri, Sigurgeir Jónsson, forstjóri Lánasýslu ríkisins, og Magnús Pétursson, ráðuneytisstjóri í fjmrn., sem nú rekur Ríkisspítalana. Til aðstoðar þeim voru ýmsir snillingar eins og Sigurður Thoroddsen hjá Lánasýslu ríkisins, Ingvi Örn Kristinsson hjá Seðlabanka Íslands og Skarphéðinn B. Steinarsson hjá fjmrn. Þessi nefnd komst t.d. að þeirri niðurstöðu, og í öllum aðalatriðum var stuðst við álit hennar þegar lögin voru sett 1997, með leyfi forseta, svo vitnað sé í álit nefndarinnar:

,,Nefndin telur að ríkisábyrgðir beri að nota af mikilli gætni. Hin almenna regla hljóti alltaf að vera sú að lán séu tekin á almennum markaði, án ábyrgðar ríkisins. Ríkis\-ábyrgðir geti hins vegar verið réttlætanlegar í vissum tilfellum en þá er mikilvægt að í gildi séu lög og reglugerðir sem kveði á um hvernig með þær skuli farið.``

Er ætlunin að þetta teljist slík lög, herra forseti, nokkrar setningar á blaði, galopin heimild til fjmrh.? Og hvar er reglugerðin? Hvar er hún? Nei, Alþingi á að afgreiða algerlega blankó heimild, án nokkurra skilyrða, án nokkurra takmarkana, án þess að nokkur reglugerð liggi fyrir til þess að fjmrh. ráði þessu einn og geti svo bara þegar honum svo sýnist tekið upp pennann og skrifað 20 milljarða ávísun.

Ég verð að segja alveg eins og er að það undrar mig ekki síst í þessu máli að fjmrh. skuli vilja fá þennan kaleik á sitt borð. Það er ekki öfundsvert hlutskipti því að hans verður þá að meta þetta og það er algjörlega augljóst mál að þrýstingurinn á hann að veita ábyrgðina verður gríðarlegur, annars stæðu menn ekki í þessum ósköpum hér. Ráðherra hefur engin lagaskilyrði til að verja sig, ekkert áhættumat, engar reglur um tryggingar eða annað því um líkt. Ef lögin um ríkisábyrgð fengju að gilda er ráðherrann varinn af þeim í þeim skilningi að hann getur staðist þrýsting með vísan til laganna og sagt: ,,Nei, þetta gengur ekki því að það verður að fara í gegnum þetta áhættumat og tryggingarnar verða að vera svo og svo og þetta verður allt saman að uppfylla þau skilyrði sem ég er bundinn af og Alþingi hefur sett í lög.``

Herra forseti. Þetta finnst mér vera alveg ofboðslegur hlutur. Það er ekki bara verið að tala um einhverja venjulega ríkisábyrgð. Það er verið að tala um að fá autt blað handa fjmrh. til að skrifa á 20 milljarða kr. ávísun. Þetta er aldeilis með ólíkindum. Svo takast menn hér á við afgreiðslu fjárlaga út af smáaurum, sitja í fjárln. og telja baunir, þúsund kall hér og fimm þúsund kall þar, og finnst að ábyrgð þeirra sé mikil hvað það varðar að þetta sé allt saman samviskusamlega gert og gerð grein fyrir hverri krónu og allt saman stemmt af í ríkisreikningnum. Nei, nei, svo kemur hérna bara eitt stykki frv. sem ýtir lögunum um ríkisábyrgð til hliðar og sækir eftir heimild til handa fjmrh., lesist: ríkisstjórninni, til þess að veita þarna á einu bretti 20 þúsund milljóna ríkisábyrgð.

Herra forseti. Hvaða ákvæðum laga sem Alþingi setti á grundvelli vandaðrar vinnu 1997 er verið að ýta til hliðar? Við skulum aðeins fara yfir það, með leyfi forseta.

,,1. gr. Ríkissjóður má aldrei takast á hendur ábyrgðarskuldbindingar, nema heimild sé veitt til þess í lögum. Ríkissjóður má ekki ganga í sjálfskuldarábyrgð, nema sérstaklega sé kveðið á um það í lögum þeim sem ábyrgð heimila. Um veitingu ríkisábyrgða fer að öðru leyti eftir ákvæðum laga þessara.``

Og svo gildir þetta um endurlán ríkisins og B- og C-hluta ríkissjóðs o.s.frv.

,,2. gr. Í frumvarpi sem fjármálaráðherra leggur fram um veitingu ríkisábyrgða`` --- og þetta leiðir af því, sem áður var lesið, að hver einasta ríkisábyrgð verður að fá sjálfstæða lagastoð með samþykki Alþingis og í því frv. sem fjmrh. leggur þá fyrir þingið til þess að afla heimildarinnar hverju sinni --- ,,skal liggja fyrir umsögn Ríkisábyrgðasjóðs samkvæmt lögum nr. 43/1990, um Lánasýslu ríkisins, á eftirtöldum þáttum:

1. Mat á greiðsluhæfi skuldara.

2. Mat á afskriftaþörf vegna áhættu af ábyrgðum.

3. Mat á tryggingum sem lagðar verða fram vegna ábyrgðarinnar. Fjármálaráðherra er heimilt í reglugerð að ákveða hámark veðsetningarhlutfalls.

4. Mat á áhrifum ríkisábyrgða á samkeppni á viðkomandi sviði.``

Þetta er 2. gr. Þessu öllu er ýtt til hliðar sem er sett inn í lög til þess að tryggja að þegar fjmrh. kemur með beiðni til Alþingis um ríkisábyrgð þá liggi tilteknar forsendur fyrir í málinu. Þessu er öllu hent til hliðar, enda liggur ekkert af þessu fyrir og stendur ekki til. Þetta á bara að ákveðast yfir kaffibolla uppi í fjmrn. Yfir allan þann vandaða málsmeðferðarhátt sem þarna átti að innbyggja í lög er því skautað.

Svo kemur 3. gr., herra forseti. Þar segir:

,,3. gr. Ríkissjóði er óheimilt að takast á hendur ríkis\-ábyrgð nema að fullnægðum eftirfarandi skilyrðum:

1. Kveðið sé á um heimild til ríkisábyrgðar í lögum þeim sem ábyrgð heimila.``--- Að sjálfsögðu, þar kemur aftur að lagastoðinni sem á að afla hverju sinni.

,,2. Ef lánsfjárþörfina er ekki hægt að uppfylla á almennum lánamarkaði og sýnt þykir að starfsemin sé hagkvæm.``

Hvaða gögn liggja því til grundvallar að ekki sé hægt að uppfylla þessa lánsfjárþörf á almennum markaði? Það er ekki tekið fram að það þurfi að vera innlendur lánamarkaður. Það stendur ekki í þessum lögum. Ég les það út úr þessu að viðkomandi aðili geti alls ekki fjármagnað þá starfsemi sem í hlut á á markaði og þá sé komið að því að skoða hvort ríkið eigi að koma til sögunnar.

Hvernig ber þetta mál að okkur samkvæmt flutningsmönnum og því sem komið hefur fram hjá talsmönnum fyrirtækisins? Jú, það er sagt við okkur að þetta sé liður í því að jafna samkeppnisskilyrðin milli Íslands og annarra landa. En það er a.m.k. ekki sagt, annað er látið í veðri vaka en að fyrirtækið geti ekki aflað þessa fjár á markaði og þá þegar af þeirri ástæðu skortir eina forsenduna, eitt skilyrðið sem er í gildandi lögum um ríkisábyrgðir. En því er auðvitað hent líka. 3. gr. má augljóslega ekki standa eins og hún er.

Í 3. tölul. 3. gr. segir:

,,3. Ábyrgðarþegi leggi fram a.m.k. 20% af heildarfjárþörf verkefnisins.`` --- Það er væntanlega í eigin fé eða með einhverjum öðrum hætti en að taka það að láni.

,,4. Ábyrgðarþegi leggi fram viðeigandi tryggingar að mati Ríkisábyrgðasjóðs.

Ábyrgð ríkissjóðs skal ekki nema hærra hlutfalli en 75% af lánsfjárþörf verkefnis sem veitt er ríkisábyrgð.``

Nú hafa heyrst tölur um 35 milljarða fjárfestingu í þessu sambandi og ef við gefum okkur að 20% reglan um framlag eiganda ætti að halda mundi þetta væntanlega sleppa.

Síðast en ekki síst er sagt í 3. gr.:

,,Ríkissjóði er óheimilt að takast á hendur ábyrgð fyrir aðila sem er í vanskilum við ríkissjóð eða Ríkisábyrgðasjóð.``

Er það á hreinu að þetta fyrirtæki sé ekki í vanskilum við ríkissjóð eða Ríkisábyrgðasjóð? Hefur ekki verið upplýst að það hafi enn ekki greitt eina einustu krónu inn á þau réttindi sem það hefur fengið frá ríkinu, hvorki meira né minna en einkaleyfi á heilbrigðisupplýsingum þjóðarinnar? Hvenær áttu þær greiðslur að byrja að falla til? Er ekki þegar hafin vinna og er ekki þegar farið að afhenda í stórum stíl þessi heilbrigðisgögn til fyrirtækisins? Ætti þá ekki að vera eitthvað komið í kassann hjá hæstv. fjmrh., Geir Hilmari Haarde? Meira að segja þetta skilyrði gæti þurft að skoða nánar ef marka má ýmislegt sem fram hefur komið í meðferð málsins.

Herra forseti. Í 4. gr. er fjallað um áhættugjaldið og talað um að hver sá sem ríkissjóður gangi í ábyrgð fyrir, ábyrgðarþegi, skuli greiða við ábyrgðarveitingu í ríkissjóð áhættugjald er nemi 0,25--4,00% af höfuðstól ábyrgðarskuldbindingar fyrir hvert ár lánstímans. Það er nú ekki lítið, enda er auðvitað alveg ljóst að með ríkisábyrgð er verið að veita viðkomandi aðila mjög verðmæt réttindi sem þýða fyrir hann væntanlega háar fjárhæðir í formi lægri fjármagnskostnaðar, lægri lántöku- og vaxtakostnaðar. Einhver hefur umreiknað það að það gæti numið ríkisaðstoð upp á 3,5--4 milljarða kr. sem lánskjör þessa fyrirtækis yrðu í þessum pakka hagstæðari vegna ríkisábyrgðarinnar. Ætlunin er þá að ríkið fái þar eitthvert gjald á móti og eitthvað upp í þá áhættu sem það er að taka. En því er öllu ýtt til hliðar hér eins og öðru.

Eftir á að standa ekkert af lögunum um ríkisábyrgð nema hluti 5. gr., um reikningshaldið, afskriftareikningshaldið í Ríkisábyrgðasjóði. Mér finnst, herra forseti, þetta setja málið í svoleiðis allt annað samhengi en eiginlega nokkuð annað sem hér hefur verið fram borið að það hálfa væri nóg. Ræðuhöld formanns efh.- og viðskn. hér í morgun þegar hann reyndi að finna einhver fordæmi og sótti sér m.a. rök í bakábyrgð eða endurtryggingarábyrgð ríkissjóðs vegna flugrekstrar í kjölfar hryðjuverkanna í Bandaríkjunum 11. september, voru auðvitað með ólíkindum því að hér er um algerlega ósambærilega hluti að ræða. Þetta er líka ósambærilegt við þá bakábyrgð, getum við sagt, eða ríkisábyrgð sem hefur verið í gegnum tíðina annaðhvort í gegnum eigendaábyrgð ríkisins eða ríkisábyrgð á lántökum opinberra sjóða. Þetta er ekkert sambærilegt því að hún var almenn aðgerð í þeim skilningi að allir sem áttu rétt hjá viðkomandi aðila, t.d. viðkomandi fjárfestingarlánasjóði, stóðu þar jafnt að vígi. Því má auðvitað velta fyrir sér hvort í því hafi jafnvel á köflum falist mismunun milli atvinnugreina. En það var þó a.m.k. ekki innbyrðis og ekki var verið að velja úr eitt einstakt fyrirtæki á einhverju sviði.

[17:30]

Herra forseti. Áhættan í þessu sambandi er auðvitað eðlilega það sem mörgum verður tíðrætt um og móti henni og öllu því sem um þetta mætti að öðru leyti segja koma aðstandendur málsins og segja: Þetta er réttlætanlegt vegna þess að hér er um nýja atvinnugrein að ræða. Þá skapast hér ný störf í hátækni og þekkingargrein sem er að nema land á Íslandi. Og allt er gott um þetta að segja. Það er að sjálfsögðu æskilegt að stuðla að því og þess vegna bar mönnum skylda til og ber mönnum skylda til að skoða þetta mál af alvöru og það höfum við reynt að gera. En það er ekki þar með sagt að niðurstaðan verði óhjákvæmilega sú að réttlætanlegt sé að gera þetta. Það væri mikil fyrirframsannfæring ef menn nálguðust þetta mál með því hugarfari. Þá eru menn komnir út á þá braut að tilgangurinn helgi meðalið. Mér hefur fundist, herra forseti, dálítið merkilegt hvernig hæstv. ríkisstjórn hefur núna í hverju málinu á fætur öðru í raun og veru notað þá ákaflega einföldu röksemdafærslu að tilgangurinn helgi meðalið. Þegar menn voru að forsvara náttúruspjöll á hálendi Austurlands sögðu menn ósköp einfaldlega: Þetta mun skapa störf og atvinnu í Austfirðingafjórðungi. Þar með er réttlætingin fengin hvort sem það var fyrir því í upphafinu að sökkva Eyjabökkum eða reisa hina hryllilegu virkjun við Kárahnjúka sem til stóð síðast.

Er þetta ekki dálítið hættuleg braut, herra forseti? Hvar stöðva menn sig af ef menn lenda út á hana? Hefur hæstv. fjmrh. séð fyrir öllum þeim tilvikum sem kunna að bera að honum á næstu vikum, mánuðum og árum ef þetta verður gert? Og hverjar verða viðmiðanirnar sem verða notaðar til þess að velja úr og greina hvað eru sambærileg eða hliðstæð tilvik, sem verða þá að fá sömu meðhöndlun, a.m.k. ef stjórnvöld ætla að vera sjálfum sér samkvæm, ef ekki bara lagalega, til þess að reglur um jafnræði og hófsemd í stjórnsýslunni séu uppfylltar? Þá dugir ekki að segja að eingöngu muni þetta eiga við ef til komi önnur fyrirtæki sem ætla að fara út í sambærilega tilraunastarfsemi á sviði lyfjaþróunar. Það er af og frá vegna þess að ekki er hægt að mismuna atvinnugreinum í hinu almenna atvinnulífi þannig. Nei, það mun aldrei halda.

Hæstv. fjmrh. hlýtur að verða að viðurkenna að þetta mundi þá eiga við öll önnur hliðstæð eða sambærileg tilvik, í hverjum er fólgin von um ný störf, nýsköpun í atvinnumálum, sókn á útflutningsmörkuðum eða aðrar þær viðmiðanir sem þarna væri eðlilegt að leggja til grundvallar og breytir þá ekki hvort það er lyfjaþróun eða þróun eða nýsköpun á einhverjum öðrum sviðum atvinnulífs því að slík mismunun stæðist aldrei. Það hlýtur hæstv. fjmrh. að sjá. Ég held að vandamálin muni verða gríðarleg sem menn gætu staðið frammi fyrir ef menn fara út á þá braut.

Segjum nú t.d. að við vildum efla útflutningslánasjóð, útflutningskreditlánasjóð, sem sums staðar eru starfræktir og einhverjir vísar eru að hér en duga nú ekki mikið. Dettur einhverjum heilvita manni í hug að sumar útflutningsgreinar ættu aðild að honum en aðrar ekki, að það gengi einhvern tíma? Það held ég ekki. Að t.d. lyfjaþróun fengi að vera þar inni en ekki t.d. stoðtækjaþróun eða einhver annar iðnaðarvarningur eða að hátækniiðnvarningur á sviði sjávarútvegs yrði settur úr leik en vissar valdar tegundir atvinnulífs og kannski bara eitt einasta fyrirtæki fengi fyrirgreiðsluna? Það held ég varla.

Ekki er hægt, herra forseti, annað en að velta upp bæði því sem liðið er í þessum efnum, þeim fjölmörgu aðilum sem af vanefnum hafa verið að reyna í raun og veru algerlega hliðstæða eða sambærilega hluti, að þróa vörur eða viðskiptahugmyndir til þess að skapa atvinnu, verðmæti, störf og útflutningstekjur fyrir þjóðarbúið, og þau fyrirtæki eru fjölmörg. Ýmis ævintýri hafa verið að gerast sem betur fer í atvinnulífi okkar í því efni, en menn hafa enga fyrirgreiðslu sambærilega þessu fengið. Ég held að í fæstum tilvikum hafi það hvarflað að mönnum að leita eftir henni því að menn reiknuðu með því að slíkt væri ekki í boði. Það hafa gerst hér undur og ævintýr, sannanlega ánægjuleg, og það má nú ekki láta eins og fyrirtækið Íslensk erfðagreining sé það eina sem sé á hreyfingu í atvinnumálum á Íslandi. Mér finnst ræðuhöld manna hérna stundum um það dálítið hæpin vegna þess að þau eru mjög stutt frá því að vera í raun vantraust á það annað góða sem hefur verið að gerast á tengdum sviðum og algjörlega óskyldum.

Hvað með stoðtækjafyrirtækið Össur? Er það ekki glæsilegt dæmi um nýsköpun á nýju sviði íslensks atvinnulífs þar sem Íslendingar hafa á stuttum tíma eignast heimsfyrirtæki á tilteknu sviði með starfsemi í fleiri löndum, vissulega, en með höfuðstöðvar hér og vaxandi starfsemi hér þar sem gríðarlega mikið hefur verið lagt í hreina nýsköpun og þróun? Menn hafa brotist í gegn með uppfinningar og nýjungar sem hafa lagt undir sig heimsmarkaðinn.

Eru efnislega forsendur til þess að ýta slíku fyrirtæki til hliðar og segja nei en velja svo úr eitthvað af þessu tagi? Hvað með Marel sem líka á glæsileg dæmi um þróun og hefur verið í landvinningum heldur betur, hátæknigrein, nýsköpun sem breikkar íslenskt atvinnulíf, skapar störf fyrir velmenntað fólk, uppfyllir öll þessi skilyrði, öll sömul nema það er ekki á sviði erfðarannsókna eða lyfjaþróunar? Og hvað með þá önnur fyrirtæki í lyfjaiðnaði eða erfðavísindum? Er ekki fyrirtæki hér sem heitir Urður, Verðandi, Skuld og er að sinna í raun og veru að mjög miklu leyti sambærilegum hlutum, a.m.k. á fyrri stigunum, og Íslensk erfðagreining, dótturfyrirtæki þess ameríska fyrirtækis sem á að fá hér íslensku ríkisábyrgðina? Og það er alveg kapítuli út af fyrir sig, herra forseti, að það er hið erlenda móðurfyrirtæki sem fær hina íslensku ríkisábyrgð?

Hvað með þau ljós sem skína í atvinnulífsmyrkri landsbyggðarinnar, fyrirtæki eins og Sæplast norður á Dalvík eða 3X-Stál á Ísafirði? Væru þau ekki vel að einhverjum stuðningi ríkisins komin ef þau gætu nýtt sér hann til kraftmeiri sóknar í sínu erlenda markaðsstarfi, í þróunarstarfi sínu og nýsköpun? Sæplast er að þróa fiskiker sem verða með innbyggðum tölvukubbum og geta gengið inn í flokkunarkerfi. Og fyrirtækið 3X-Stál á Ísafirði, þar sem menn hljóta nú að gleðjast alveg sérstaklega yfir því að sjá slíka þróun í atvinnulífi, hefur verið í miklum landvinningum og hefur sérhæft sig í ákveðnum búnaði, sérstaklega í rækjuiðnaði og er að nema lönd. Hvað segja svo forsvarsmenn margra slíka fyrirtækja við mann þegar maður kemur þar í heimsókn og ræðir við þá? Þeir segja sínar farir ekki alltaf sléttar frekar en margir aðrir sem eru að reyna að koma fótum undir einhverja nýsköpun í atvinnumálum á landsbyggðinni og fá lítinn sem engan stuðning, fá oftar en ekki hurðina í andlitið hjá bankakerfinu og sjóðunum á höfuðborgarsvæðinu, sérstaklega ef þeir eru svo óheppnir að vera með annað póstnúmer en það sem byrjar á 1 eða 2.

Síðan hafa menn sett á fót sjóð til að stuðla að nýsköpun hér innan lands, Nýsköpunarsjóð. Eigum við að bera aðeins saman, herra forseti, útlánaskilmálana og fyrirgreiðsluskilmálana hjá Nýsköpunarsjóði gagnvart innlendum fyrirtækjum sem eru með í höndunum verkefni sem gætu skapað sárlega þörf störf, sem svo sannarlega er þörf fyrir í viðkomandi byggðarlögum? Nei, þá eru allt í einu komnar þvílíkar kröfur um arðsemi verkefnisins, um fjármögnun og um tryggingar að oftar en ekki ráða menn ekki við að uppfylla þær. Við þekkjum örugglega öll hér í þessum sal dæmin um fyrirtæki sem hafa ekki náð að uppfylla þau ströngu skilyrði sem þá á allt í einu að setja fyrir fé sem búið er að setja í sjóði og ætlunin er að eyrnamerkja uppbyggingu og nýsköpun í atvinnulífinu. Enda er niðurstaðan sú að fé sjóðanna gengur ekki út. Það gengur ekki út af því að sett eru svo ströng skilyrði gagnvart hinum innlendu fyrirtækjum sem eru þar að leita hófanna. Og sjóðirnir tútna út og kaupa bréf hver í öðrum og jafnvel braska með þau á verðbréfamörkuðum sem þeim er nú ekki ætlað að gera.

Ég held, herra forseti, að ekki þýði fyrir menn að ætla með einhverjum einföldum aðferðum af því tagi, röksemdafærslu af ,,tilgangurinn helgar meðalið``-tagi, að ýta til hliðar umræðum um það samhengi sem verður að skoða þetta mál í, hversu áhugasöm sem við værum um að það gæti orðið að veruleika að sú starfsemi byggðist upp hér og að þau störf sem þarna er talað um að kæmu til sögunnar, komi inn í landið eða byggist upp í landinu o.s.frv. Það dugar okkur ekki, herra forseti, til að ýta öllu til hliðar sem verður að skoða í samhengi þessa máls áður en menn taka svona stóra ákvörðun, svona mikla áhættu og að slík fordæmisgefandi afgreiðsla fari fram hér á hinu háa Alþingi. Það er bara algjörlega ljóst.

Vandamál mitt, herra forseti, í sambandi við þetta mál er ekki það að sérstaklega standi í mér, eins og hv. þm. Pétri H. Blöndal, að ríkið leggi nýsköpun og þróun í atvinnumálum lið. Það er síður en svo. Ég fagna því ef þetta er til marks um einhver umtalsverð sinnaskipti nýfrjálshyggjuríkisstjórnarinnar á Íslandi í þeim efnum og vænta megi þess að ríkið verði útbærara á stuðning við atvinnulíf og ábyrgðir og að deila áhættu með mönnum sem eru að taka hana í sambandi við nýsköpun í atvinnumálum. En ég er ekki viss um að svo sé því að hér eru settar á sömu ræðurnar og við heyrðum í morgun þegar hv. þm. Vilhjálmur Egilsson hélt þessa aumkunaverðu framsöguræðu sína fyrir nál. meiri hlutans, sem var svoleiðis að ég held að samúð mín með aumingja hv. þm. endist fram á sumar því að greinilegt var að þetta voru þvílíkar þjáningar. Hæstv. fjmrh. hefur nú verið frekar þögull í umræðunni, kannski af svipuðum ástæðum, að honum sé tregt tungu að hræra.

Nei, vandamálin eru af öðrum toga, herra forseti. Það væri út af fyrir sig útlátalítið fyrir stjórnarandstæðinga sem tækju sjálfa sig ekki allt of hátíðlega að segja sem svo: Jú, jú, styðjum þetta bara, sullum þessu í gegn. Það er oft borið upp á stjórnarandstöðuna að hún sé ábyrgðarlaus og yfirbjóði og vilji gera allt fyrir alla, ausi út peningum ríkisins o.s.frv. En það á a.m.k. ekki við í þessu tilviki. Varnaðarorðin sem mæld eru eru frá stjórnarandstöðunni um að ganga hægt um gleðinnar dyr af því að mönnum ofbýður auðvitað eins og miklum meiri hluta þjóðarinnar. Það er ekki nokkur minnsti vafi á því að þjóðinni, sem almennt er mjög jákvætt sinnuð gagnvart því að reynt sé að stuðla að atvinnuuppbyggingu og þróun og hefur held ég miklu minni efasemdir um það að ríkið eða opinberir aðilar, ríki og sveitarfélög leggi sitt af mörkum ef svo ber undir, ofbýður hins vegar í þessu tilviki.

Nema hvað. 20 þús. millj. kr. Eru menn ekki búnir að reikna út að það séu 240 þúsund á hverja meðalfjölskyldu í landinu? Það munar nú um minna, víxil upp á það. Kannski hæstv. fjmrh. ætti að fara þá leið að láta gefa út handa sér 100--120 þúsund víxla og fara svo með þá í eigin persónu og banka á hvers manns dyr og biðja hann að skrifa upp á. Það kæmi þá í ljós hvernig þjóðinni litist á það mál. Það er það sem hér á að gera nema bara með einni uppáskrift.

Það hlýtur að þurfa að vanda vel, herra forseti, grundvöll slíkrar ákvarðanatöku ef það á yfir höfuð að vera réttlætanlegt og menn ætla að leggja í ákvörðun af því tagi. Mér finnst eiginlega skorta upp á það á öllum hliðum málsins ef allar hliðar þess eru skoðaðar skortir upp á það. Ég viðurkenni fúslega að ég hef hvorki haft tíma né auðvitað aðstöðu frekar en þingmenn aðrir, velflestir, nema þá helst þeir sem setið hafa í efh.- og viðskn. að reyna að glöggva mig betur á áformum fyrirtækisins sjálfs, stöðu þess og líkunum á því að þetta gangi eftir, sem maður vonar ef lagt verður í ferðalagið. En hér hafa aðrir tjáð sig um það. Þaðan af síður er maður dómbær á hina faglegu þætti málsins. Það þarf þó ekki að lesa mikið til þess að átta sig á því að greinilega eru mjög skiptar skoðanir um hvort sú aðferðafræði, sú hugmynd, bæði sú vísindalega hugmynd og sú viðskiptalega hugmynd sem hér á að leggja til grundvallar, gengur upp. Um það eru miklar efasemdir. Ég hef séð lærðar greinar um hvort tveggja þar sem menn annars vegar draga mjög í efa þá bjartsýni sem lögð er til grundvallar að með því að samtengja erfðaupplýsingar og upplýsingar úr genum og síðan aftur rannsóknir á heilsufari og sjúkdómum reynist unnt að hraða þróun lyfja sem verði síðan söluhæf markaðsvara þegar þar að kemur. Hvort tveggja þarf þá að ganga upp, herra forseti, faglega hugmyndin um að þetta sé í reynd svo hvað varðar lyfjaþróunina og viðskiptahugmyndin, að söluvaran verði þá markaðshæf.

[17:45]

Og svo þarf auðvitað eitt enn að ganga upp, herra forseti. Menn þurfa að komast alla leið í mark, menn þurfa að ná alla leið í mark. Hversu líklegt er að þetta fyrirtæki og aðstandendur þess, sem eru orðnir í talsverðum mæli innlendir aðilar, hafi það bolmagn að þeir nái í mark jafnvel þó að aðferðafræðin öll sömul gangi upp? Segir ekki sagan að brottfall fyrirtækja sem eru að reyna nákvæmlega þessa sömu hluti er alveg gríðarlega hátt? Það er einn af hundraði eða einn af þúsund sem vinnur, en hinir tapa allir, detta í hlaupinu og komast aldrei í mark. Það eru fyrst og fremst stóru risarnir í lyfjaiðnaðinum sem hafa þvílíkt bolmagn að þeir geta látið eftir sér að gera tilraunir og þó að margar þeirra mistakist dugar þeim að ein og ein gangi upp og hafa þvílíkan styrk að þeir ná alla leið. Í litlu fyrirtæki, sem fyrirtækið Íslensk erfðagreining eða deCODE er að sjálfsögðu í heimi risanna á þessu sviði, hlýtur áhættan að vera veruleg. Það eitt er algjörlega ljóst.

Og hver verður staðan, herra forseti, ef ríkissjóður veitir þessa ábyrgð, 20 milljarða ábyrgð? Verðum við ekki aðeins, þó að við vildum vera bjartsýn og vildum trúa á þessa hugmynd og það væri svo sannarlega glæsilegt ef allt það gæti nú gengið eftir að hér yrði blómstrandi þúsund eða fimm þúsund manna vinnustaður eða hvað það nú gæti orðið og við héldum eftir fimm eða tíu ár á gulleggi í höndunum, þannig væri þetta í okkar björtustu draumum, en verðum við ekki að reikna með að þetta gæti farið öðruvísi? Er ekki dálítið svakalegt að reikna ekki með fleiri möguleikum? Segir ekki tölfræðin okkur að það væri ekki bara skynsamlegt heldur eiginlega algerlega skylt vegna þess, því miður, hversu hún er sterk í þá áttina að margar tilraunir af þessum toga mistakist?

Ef svo fer að menn ná ekki í mark, ef fyrirtækinu tekst ekki að skila í hús þannig vísindalegum niðurstöðum á allra næstu árum að það fari að fá stórauknar tekjur, þá lendir sjálft móðurfyrirtækið innan fárra ára í verulegum erfiðleikum. Það er ljóst miðað við annars vegar rekstrarútgjöld og hins vegar tekjustreymi í dag. Þrátt fyrir digran sjóð gengur hratt á hann þannig að mikil og snögg breyting þarf að verða á gjalda- og tekjustreymi í fyrirtækinu á allra næstu missirum í raun og veru og alger viðsnúningur ef ekki á illa að fara. Þó að við værum bjartsýn á að það tækist er mikið eftir samt. Byggja þarf upp þennan lyfjaþróunarhlekk á milli rannsóknanna hér og þá framleiðslufyrirtækisins sem keypt hefur verið í Bandaríkjunum eða hvar svo sem framleiðslan færi fram. Og þar á eftir að vinna og landa öllum þeim árangri og þeim niðurstöðum sem síðan mundu leiða til þess að menn gætu annaðhvort sjálfir farið í lyfjaframleiðsluna eða hefðu söluhæfa vöru út úr þróunarstarfinu.

Er ekki mögulegt að þetta gæti tekið lengri tíma en þau þrjú, fjögur ár sem Íslensk erfðagreining gæti lifað að óbreyttu á eigin sjóðum og þau sjö ár sem ríkisábyrgðin stendur? Hver verður staðan þá, ef hér í landinu verður upp undir þúsund manna vinnustaður, sem auðvitað er gríðarlega mikilvægt, og menn standa frammi fyrir því að taka alveg gífurlega erfiðar ákvarðanir að kannski þremur til sjö árum liðnum um hvort það eigi að láta ábyrgðina renna út og ævintýrinu þar með ljúka? Eða gera hvað? Halda áfram? Halda menn að það verði létt að verða þá harðir af sér og segja: Nei, þetta var bara veitt til sjö ára og búið? Halda menn að auðvelt verði að horfa á kannski þúsund manna vinnustað fara undir? Halda menn að það verði ekki þrýstingur í íslenska hagkerfinu þar sem bankar, lífeyrissjóðir og einstaklingar eiga stóran hlut í fyrirtækinu og þar sem ríkið er á bak við með 20 milljarða ábyrgð sem mundi falla í hausinn á því, að halda áfram? Jú. Ekki þarf að vera mikið meira en tvævetur í pólitík til að vita að það yrði ekki létt verk fyrir hvern sem er á stóli fjmrh. eða við stjórnvölinn í landinu að segja þá: Hingað og ekki lengra.

Með öðrum orðum, herra forseti, tel ég að ef ábyrgðin verður veitt sé ríkið búið að fá yfir á herðar sínar ábyrgðina af því að reyna að halda þessu dæmi gangandi og það verði í raun gríðarlegur þrýstingur á menn að reyna áfram og til þrautar ef ekki hefur gengið nógu vel og jafnvel setja mikla viðbótarfjármuni inn í þetta dæmi og taka mikla viðbótar\-áhættu. Menn verða að svara því áður en þeir veita þá ábyrgð, og það á Alþingi að gera, ekki bara einn fjármálaráðherra, áður en hann mundar pennann: Ætlum við að leggja upp í þetta ferðalag eða ekki? Því að það verður ekki auðvelt að snúa við, það verður ekki auðvelt. Og það verður ekkert þægilegt fyrir íslenskt atvinnulíf og hagkerfi ef þessi gæti orðið staðan að nokkrum árum liðnum. Mér þykir auðvitað leitt, herra forseti, að þurfa að fara yfir þetta svona og segja þetta því að maður vill ekki vera með hrakspár. En verðum við ekki að ræða hlutina eins og þeir eru og blasa við okkur? Væri ekki enn þá ómerkilegra og heigulslegra að þora ekki að gera það?

Ég krefst þess að menn velti upp þeirri hlið málsins. Verðum við ekki að horfast í augu við það kalt og yfirvegað að hér væri verið að taka í rauninni grundvallarákvörðunina um það hvort við sem þjóð og ríkið fyrir hönd okkar ætlar að fara í að ábyrgjast þessa tilraun og standa á bak við hana og beita þá afli sínu eins og til þarf og eins og lengi og til þarf og jafnvel kosta eins miklu til og til þarf í voninni um að þetta gangi þá upp?

Ég spurði, herra forseti, við 1. umr. málsins --- fékk nú engin svör auðvitað frekar en aðrir af því að í þessu máli eru ekki veitt svör, þetta er bara svona, það er ,,af því bara`` --- hvort menn hefðu ekki skoðað þann möguleika að leggja frekar fram fé. Ef við segjum nú að þessi ríkisábyrgð á sjö ára tímabili sé ígildi 3.500 milljóna í formi stuðnings við verkefnið, kæmust menn þá áfram með 3.500 millj. kr. hlutafé frá ríkissjóði eða framlag? Því að ef þessi ríkisábyrgð er veitt og hún er svona verðmæt og það er ekkert ábyrgðargjald tekið, þá er hún auðvitað ekkert annað en ríkisstuðningur upp á 3.500 milljónir og menn ætla að reyna að réttlæta það fyrir evrópskum eftirlitsstofnunum að hann sé réttlætanlegur af því að um þróunar- og nýsköpunarstarf sé að ræða. Það út af fyrir sig tel ég að sé. Það er ekki vandamálið á þeirri hlið heldur fremur hinni, hvernig þetta snýr að sambúðinni við annað atvinnulíf og önnur fyrirtæki. Getur hæstv. fjmrh. svarað því hvort hann telji að hægt væri að ná sama markmiði, tryggja að sú starfsemi byggðist upp hér og menn fengju þessi störf og farið væri út í þá tilraun --- sem ég held að hljóti að mega kalla svo með fullri virðingu fyrir henni, þetta er áhættu- og tilraunastarfsemi --- ef ríkið legði fram 3.500 milljónir í peningum? Væri lífið ekki einfaldara fyrir hæstv. fjmrh.? Væri ekki betra, ef illa færi að 5--7 árum liðnum, að ekki tapaðist þó nema það og t.d. erlendir áhættufjármögnunaraðilar bæru þá skellinn að öðru leyti eða þó að það væri einhver blanda af innlendri og erlendri fjármögnun eða hvernig sem það væri? Ég segi fyrir mitt leyti að ég væri mikið nær því að leggja slíku framlagi lið og gæti í raun og veru bærilega gert það, enda mundi ég þá reikna með því að aðrir aðilar með sambærilegar aðstæður og sambærilega möguleika mættu búast við svipaðri meðhöndlun.

Herra forseti. Að mínu mati hefur það eiginlega verið aumkunarverðast í umræðunni að heyra frjálshyggjumennina, sem héldu ræðurnar á sínum tíma um fortíðarvandann og ríkisafskiptin og ríkisábyrgðirnar og allt þetta, reyna að klóra sig til lands í umræðum um þetta mál, hvort sem þeir heita hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, hæstv. fjmrh. Geir H. Haarde eða einhverjir aðrir. Staðreyndin er auðvitað sú að þegar á á að herða eru aldrei miklar innstæður fyrir því að menn standi við stóru orðin og séu fastir á prinsippunum. Úti um allt og í kringum okkur eru auðvitað dæmin um hið gagnstæða.

Hvað gerðu menn í bankakreppunni á Norðurlöndum, sömu menn og voru nýlega búnir að einkavæða heilmikið í fjármálakerfinu vegna þess að ríkisafskiptin væru svo skaðleg? Hvað gerðu þeir svo þegar bankakreppan reið yfir? Stóðu þeir þá við stóru orðin og létu bankana fara á hausinn? Nei, þeir komu þeim til aðstoðar með ríkisfjármunum. Hvað gera menn núna í fluginu, þá á ég ekki bara við tryggingarnar? Hvað gerðu bandarísk stjórnvöld við flugfélögin sín? Þau mokuðu í þau peningum eftir 11. september til þess að þau færu ekki á hausinn. Hvað eru þeir að gera við stálið núna? Þeir eru að setja á verndartolla o.s.frv. Það er ekki það sem er í raun og veru vandasamt eða erfitt í þessu máli, herra forseti. Þegar þær aðstæður eru geta ríki og opinberir aðilar fullkomlega réttlætt það að koma að málum, hvort heldur það er til að verja það sem fyrir er, bjarga því, og það gera menn auðvitað ef í harðbakkann slær. Þess vegna fer alveg ofboðslega í taugarnar á mér þetta endalausa tal í sjálfstæðismönnum, sem náttúrlega eiga sér langa fortíð slíkra ráðstafana hér í innlendum stjórnmálum og gera svo það sem raun ber vitni t.d. hér og nú þegar svo ber undir, að vera svo heilagari en páfinn þegar þeir eru að fjalla um þessi mál í ræðum. Ég held að þeir ættu að sleppa því að halda þær svona rétt í bili á meðan þeir eru að koma þessu hér í gegn.

Herra forseti. Einnig má spyrja í tengslum við þetta mál: Hvert á að vera hlutverk stjórnvalda almennt í svona tilvikum eða almennt gagnvart uppbyggingu atvinnulífs, nýsköpun og þróun? Ef við tökum bara þau mál sem ríkisstjórnin hefur verið með, stóriðju- og virkjunarmálið eystra og svo þetta mál núna, þar sem á að beita gríðarlegum ríkistilstyrk, ríkisstuðningi gagnvart einstökum verkefnum í atvinnulífinu, þá vekur það miklar spurningar um aðferðafræði og um nálgun á sama tíma og sömu stjórnvöld sitja ofan á lúkunum á sér þegar kemur að almennri fyrirgreiðslu, t.d. við hina veiku sprota nýsköpunar í atvinnulífi á landsbyggðinni. Þá er ekkert að hafa.

Hvert á að vera hlutverk stjórnvalda? Á það að vera það að keyra áfram einstök verkefni, eins og stóriðju- og virkjanaáformin eða þetta mál hér, en vera svo skeytingarlaus um að skapa skilyrði og styrkja undirstöður og innviði samfélaganna þannig að atvinnulíf og mannlíf geti blómstrað t.d. í byggðum landsins? Ég undrast slíkar áherslur satt best að segja, herra forseti, því að hvílík ósköp gætu menn gert og hversu mörg gætu hin stóru og smáu kraftaverk orðið í íslensku atvinnulífi og íslenskri byggðaþróun fyrir ekki nema brot af þessari áhættu og þeim fjármunum, ekki nema lítið brot af þeim? Þetta er fimmfalt eigið fé Nýsköpunarsjóðs, ef ég man rétt, þegar hann var settur á laggirnar. Getur verið að það sé rétt munað að hann hafi farið af stað með um 4 milljarða? Einhverjir sjóðir voru upp á 1 milljarð og aðrir upp á eitthvað meira. Í rauninni eru það smáaurar. Það eru eins og aukastafirnir í þessu dæmi þegar kemur að því fjármagni sem menn hafa úr að spila t.d. hjá einstökum atvinnuþróunarfélögum í byggðarlögum landsins. Það eru aurar á móti milljörðunum hér.

[18:00]

Hvernig vilja menn þá leggja áhersluna? Hvernig á ríkið að koma að þessum málum? Á það að gera það svona þó að í boði séu 250 hálaunuð störf? Eða á það kannski að reyna að beita afli sínu með almennum hætti til þess að skapa skilyrði, frjóan jarðveg, efla innviði og undirstöður, bæta samgöngur og fjarskipti, menntun, rannsóknir, þróun og jafna aðstöðumun til uppbyggingar í atvinnulífi, þannig að menn standi sæmilega jafnt að vígi í þeim efnum hvar á landinu sem er, og leyfa svo bara kraftaverkunum að gerast fyrir fumkvæði, kraft og hugvit fólksins, byggðarlaganna eða samtaka þeirra? Hvor formúlan ætli sé nú vænlegri, herra forseti, svona almennt talað? Auðvitað getur vel verið að þetta eigi að vera blanda af hvoru tveggja og ég er ekki að segja að einstök stærri verkefni geti ekki verið réttlætanleg og þau eigi ekki að skoða. En þau verða þá að vera í einhverju samhengi við annað sem er að gerast. Það er ekki hægt að láta allt í einu eins og menn séu einir í heiminum með þetta eina mál og gleyma öllu öðru. Það verður erfið tilvera hjá hæstv. fjmrh. og það er hætt við að það geti orðið traffík á göngunum hjá honum því að auðvitað munu aðrir ætla sér einhvern rétt þegar þeir sjá hversu gríðarlega fyrirgreiðslu og á hvaða forsendum einn aðili fær sem hér á í hlut.

Niðurstaða mín, herra forseti, og okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar-- græns framboðs, er sú eftir að hafa skoðað þetta mál vel og það hefur auðvitað mætt mest á fulltrúa okkar í efh.- og viðskn., hv. þm. Ögmundi Jónassyni, sem hér fyrr í dag gerði grein fyrir afstöðu sinni og minnihlutaáliti, að þetta sé ekki réttlætanlegt, það standi ekki nein haldbær rök fyrir því að afgreiða þessa ábyrgð nú og við munum því leggjast gegn því.

Það er í sjálfu sér ekki létt ákvörðun því að það verður sjálfsagt reynt að velta mönnum upp úr því að menn séu rétt eina ferðina á móti einhverju. Það verður þá bara að hafa það. Ef maður telur hlutina ekki skynsamlega, á maður þá ekki að fylgja sannfæringu sinni og vera á móti þeim? Mig langar ekki í þá aumkunarverðu aðstöðu, sem hv. þm. Vilhjálmur Egilsson úrskurðar sjálfan sig í, að greiða nánast frammi fyrir alþjóð atkvæði gegn sannfæringu sinni, lýsa sig í viðtölum við fjölmiðla sammála Verslunarráðinu eða öðrum þeim sem hafa varað við þessu máli en segja síðan: En ég verð samt að styðja frv. af því að þetta er stjórnarfrv. Hvers konar málflutningur er þetta? Hvar eru menn á vegi staddir?

Það var eitthvað verið að tala um að hv. þm. væri í þeirri vandasömu aðstöðu að hann væri að þjóna tveimur herrum. Ég hef ekki viljað vera að velta mínum ágæta félaga og vini upp úr því að hann hefði annað starf samhliða þingmennskunni þó að það megi auðvitað margt um það segja og ekki alltaf heppilegt, held ég, að sami maður sé framkvæmdastjóri Verslunarráðs Íslands og jafnframt formaður efh.- og viðskn. En langverst þykir mér þegar menn gleyma þriðja herranum, þeim sem menn eiga að vera trúir umfram alla aðra, samvisku sinni. Er það ekki yfirherrann sem við eigum að hlýða á undan öllu öðru hér á Alþingi? Það hélt ég. Og ég leyfi mér að segja að menn ættu að líta hver í eigin barm og eiga nótt með samvisku sinni í þessu máli. Ég held að það sé af þeirri stærðargráðu og hafi þvílíkt fordæmisgildi og sé þannig vaxið að mönnum sé skylt að gera það.

Þess vegna, herra forseti, var ég varkár í öllum yfirlýsingum um afstöðu mína í þessu máli framan af því að ég vildi nálgast það með hliðsjón af því að um mjög stórt og vandasamt mál er að ræða og snúið og það væri hyggilegt að menn skoðuðu hug sinn vel og kæmust síðan að rökstuddri og vandaðri niðurstöðu frekar en að hlaupa til með miklar yfirlýsingar strax við fyrstu sýn. En ég á ekki í nokkrum minnstu vandræðum með þetta mál, herra forseti, þegar hér er komið sögu því að ég hef algerlega sannfærst um að það er ekki réttlætanlegt eða verjanlegt að veita þessa ábyrgð við þær aðstæður sem uppi eru í málinu og við afgreiðslu þess nú. Það kynni að skipta máli ef öðruvísi væri í pottinn búið hvað það varðaði, ef málið væri öðruvísi borið fram, að því fylgdu traustari gögn og forsendur o.s.frv. Að sjálfsögðu ætti þá að skoða allt slíkt. En eins og nú háttar til tel ég svo ekki vera.

Herra forseti. Það er ekki langt síðan menn héldu miklar ræður um nýja hagkerfið. Og það er ekki langt síðan verðbréfablaðran sprakk í andlitið á mönnum. Menn hafa í raun og veru komist furðulétt frá því að svara fyrir það hvernig menn létu hafa sig að fíflum og plötuðu aðra og hvernig stórkostlegir fjárhagslegir hagsmunir fóru í súginn vegna þess að menn bárust áfram á vængjum einhverra væntinga og einhverrar tískusveiflu og einhvers klisjukennds áróðurs um að það væru komin ný hagfræðileg lögmál til sögunnar. Það yrði aldrei neitt bakslag, það yrði endalaus hagvöxtur og eilíf sæla og verðbréfamarkaðurinn gæti hækkað lóðrétt til himins, bara ,,ad infinitum``, þannig að allir ættu að kaupa og þetta væri sjálfvirk áskrift að gróða. Það var ekki síst nýja hagkerfið sem átti að útskýra þetta allt saman, að það væru nýjar greinar sem sköpuðu svo mikil verðmæti á óefnislegum forsendum, tækni og þekking, viðskipti á netinu, tölvuheimurinn og annað í þeim dúr. Það fóru ýmsir flatt á því að trúa þessu eins og nýju neti, eins og sagt er á íslensku. Og það er hljótt um slíka menn í dag marga hverja.

En ætti þetta ekki að hafa kennt okkur eitthvað? Og t.d. hæstv. fjmrh., herra forseti? Ætti ekki hæstv. fjmrh., minnugur þessarar þungbæru reynslu, að vera alveg sérstaklega varkár við aðstæður af þessu tagi þar sem verið er að veðja á væntingar? Það er ekki verið að leggja hér fjármuni eða gangast í ábyrgðir fyrir rótgróinni þekktri atvinnugrein þar sem aðferðafræðin er til staðar og þrautreynd og þar sem er um einhvers konar rútínuframleiðslu að ræða. Nei. Við Íslendingar vitum svona nokkurn veginn hvað við erum að gera þegar við byggjum fiskvinnsluhús eða kaupum fiskiskip eða fjárfestum í ferðaþjónustu eða einhverju öðru slíku þar sem við erum á heimavelli og þekkjum til og það eru auðvitað ýmsir sérfræðingar til á þeim sviðum. En það liggur fyrir í þessu máli að hér er um algjöra tilraunastarfsemi að ræða, bæði aðferðafræðin, faglega, og viðskiptahliðin er í raun og veru tilraunastarfsemi. Það er verið að búa það til jöfnum höndum og það á bara eftir að koma í ljós hvort þetta gengur upp.

Áhættan hér og aðstæðurnar eru náskyldar ýmsum þeim væntingum sem voru drifkrafturinn í hinu svokallaða nýja hagkerfi. Froðugróðinn sem þar varð til á grundvelli væntinga þar sem menn trúðu á enn þá meiri hagnað og aftur enn þá, enn þá, enn þá meiri hagnað og tóku lán til þess að veðja á ofsagróðann í uppsveiflunni. Inn í þetta andrúmsloft kom m.a. þetta ævintýri hér og menn trúðu því að fram undan gætu verið slíkir tímar hjá þessu fyrirtæki að menn keyptu í því bréf, tóku lán og keyptu í því bréf á genginu 60, en nú er það 5,5. Það er ekki eins og menn hafi lært mikið af þessu eða ákveðið að það sé nú rétt að ganga hægt um gleðinnar dyr og fara varlega með hliðsjón af nýlegri reynslu af þessum toga. Ekki verður það séð á því hversu léttilega menn ætla að skauta hér yfir það að meta t.d. áhættuna í þessu dæmi og hversu auðvelt það virðist enn vera að selja sumum mönnum væntingarnar.

Nei, herra forseti, ég held að þeim hljóti að verða nokkuð órótt sem sofa með því á nóttunni, ef þetta frv. verður nú hér að lögum gert, að hafa veitt því brautargengi, hversu borginmannlega sem þeir reyna að bera sig og ég öfunda þá satt best að segja ekkert af því hlutskipti. Að sjálfsögðu er það þeirra mál og menn ráða atkvæðum sínum og máli sínu. Það er mikill misskilningur hjá hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni að ég hafi áhuga á því að stjórna því sem hann segir, en ég leyfi mér að gera athugasemdir við það. Og ég leyfi mér að vekja athygli á því þegar ég tel hv. þm. vera að fara í marga hringi og komast í algera og fullkomna mótsögn við sjálfan sig og skjóta sig í lappirnar o.s.frv. Mér finnst dapurlegt að sjá menn gera það.

Ég mun greiða atkvæði gegn þessu frv., herra forseti, og vildi gjarnan sjá að menn slitu þinginu í vor án þess að frv. yrði gert að lögum því að það verður satt best að segja hrollur í manni vitandi af þessari heimild uppi á borði hæstv. fjmrh., svo maður minnist ekki á það hvernig það hlýtur að verða fyrir viðkomandi mann að eiga þá að bera ábyrgð á því að meta einn allar aðstæður í málinu og gefa út þessa ábyrgð ef hún verður þá einhvern tíma veitt. Og það skyldi nú ekki fara svo, herra forseti, að um það sé tvísýna þrátt fyrir allt hvort af þessu verði nokkurn tíma?