Almannatryggingar o.fl.

Miðvikudaginn 24. apríl 2002, kl. 10:30:01 (8177)

2002-04-24 10:30:01# 127. lþ. 127.4 fundur 359. mál: #A almannatryggingar o.fl.# (tekjuhugtak, bótaútreikningur o.fl.) frv. 74/2002, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 127. lþ.

[10:30]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég hafði búist við því á þessum vetri að ríkisstjórnin mundi manna sig upp í að taka almannatryggingalöggjöfina í gegn og bæta kjör elli- og örorkulífeyrisþega en við erum sennilega á lokadögum þingsins og ekki bólar á því að stjórnarliðar taki sig á og bæti kjör aldraðra og öryrkja sem hafa dregist verulega aftur úr öðrum þjóðfélagshópum á umliðnum árum, reyndar alveg frá árinu 1995 eins og ég mun koma að síðar.

Þær breytingar sem hér er verið að gera á almannatryggingalöggjöfinni eru afar smáar og breyta yfir höfuð litlu um kjör aldraðra og öryrkja þó að þar sé vissulega af nógu að taka. Mér finnst ríkisstjórnin miklu fremur vera í því að þyngja byrðarnar hjá öldruðum, eins og við þekkjum á þessum vetri þar sem lyfjakostnaður aldraðra hefur aukist gífurlega mikið á umliðnum mánuðum og missirum. Ég fór reyndar í gegnum það með hæstv. heilbrrh. á dögunum þegar ég bar fram fyrirspurn til hans út af þessum mikla og vaxandi lyfjakostnaði fyrir aldraða. Í könnun og úttekt sem hefur verið gerð í apótekum hefur komið fram að það er algengt að ellilífeyrisþegar þurfi sjálfir að greiða úr eigin vasa sem samsvarar eins mánaðar lífeyri sínum á ári í útgjöld vegna lyfjakostnaðar. Það er ekki, herra forseti, boðlegt í samfélagi sem kennir sig við velferð að elli- og örorkulífeyrisþegar þurfi að sætta sig við þessi býti.

Hv. síðasti ræðumaður greindi frá máli sem hann og flokkur hans báru fram á þessu þingi varðandi málefni aldraðra. Auðvitað er af nógu að taka á þinginu, herra forseti. Tillögur og hugmyndir að því hvernig eigi að bæta lífskjör lífeyrisþega vantar ekki. Ég minni í því sambandi á tillögu sem við í Samfylkingunni höfum flutt um afkomutryggingu aldraðra og öryrkja þar sem við leggjum til að fela ríkisstjórninni í samráði við Samtök aldraðra og öryrkja að koma á afkomutryggingu fyrir lífeyrisþega svo að enginn þurfi að una fátækt eða óvissu um kjör sín. Við höfum þar í huga að bæta sérstaklega stöðu ungra öryrkja sem verða fyrir varanlegri örorku á æskuárum. Við viljum gera samning um afkomutryggingu sem verði síðan undirstaða nýrra laga um almannatryggingar.

Herra forseti. Í huga okkar í Samfylkingunni er það forgangsmál á næstu árum að bæta stöðu og kjör aldraðra og öryrkja. Við leggjum þessa tillögu okkar til grundvallar í því. Við reiknuðum út á þeim tíma sem þessi tillaga var fyrst lögð fram, sennilega fyrir einu til tveimur árum, að ætla mætti að það kostaði 3--5 milljarða að gera sérstakt átak í málefnum lífeyrisþega og ungra öryrkja eins og tillaga okkar gerði ráð fyrir. Við gerðum þá ráð fyrir að það mætti hugsanlega skipta þessum útgjöldum á tvö ár.

Staðreyndin er sú að meira en helmingur aldraðra er með framfærslueyri undir lágmarkslaunum og það staðfestir auðvitað bág kjör allt of stórs hóps aldraðra í íslensku þjóðfélagi. Það segir líka sína sögu að 40% lífeyrisþega hafa óskerta tekjutryggingu sem þýðir að þessu fólki er gert að lifa af afar litlum tekjum.

Í líklega tveggja ára gamalli skýrslu um kjör öryrkja sem við fengum komu fram mjög athyglisverðar upplýsingar frá forsrh. varðandi stöðu og kjör öryrkja, m.a. að 43% allra öryrkja fá engar greiðslur úr lífeyrissjóði. Í þeirri skýslu sem full ástæða er til að rifja upp við þessa umræðu kom einnig fram að 22% ellilífeyrisþega, um 6 þús. manns, voru með tekjur undir 70 þús. kr. á mánuði á árinu 1999. Grunnlífeyrir og tekjutrygging hafa hækkað miklu minna en launavísitalan hvað þá heldur að lífeyrir almannatrygginga sé í samræmi við lágmarkslaun eins og hann var lengst af áður en þessi ríkisstjórn komst til valda á árinu 1995. Frá 1995 til 1. okt. 2000, ef við lítum á þann tíma, hafa grunnlífeyrir og tekjutrygging hækkað um nálega 25% en launavísitala hefur hins vegar hækkað á sama tíma um 41,5%. Þegar litið er á kaupmátt lífeyrisgreiðslna samanborið við lágmarkslaun liggur fyrir að kaupmáttur lífeyrisgreiðslna er langt undir kaupmætti lágmarkslauna verkafólks og hefur munurinn aukist jafnt og þétt, ekki síst eftir að slitið var á tengsl launa- og lífeyrisgreiðslna árið 1995.

Ég held, herra forseti, að þegar ríkisstjórnin gerði tilraun til að setja upp ákveðið viðmið vegna hækkana lífeyrisgreiðslna hafi þingheimur staðið í þeirri trú að þær mundu a.m.k. hækka í takt við launavísitölu. Allmargir hér inni stóðu í þeirri trú að lagatextinn eins og hann var úr garði gerður þýddi að það ætti að miða við launavísitölu en ekki neysluvísitölu. Ríkisstjórnarflokkarnir hafa komist upp með að ganga gegn þessum lögum og miðað kjör lífeyrisþega við neysluvísitöluna en ekki launavísitöluna sem þýðir að lífeyrisþegar hafa dregist verulega aftur úr í kjörum samanborið við aðra hópa í þjóðfélaginu.

Ég vil í því sambandi vitna til athyglisverðrar greinar úr Morgunblaðinu eftir Ólaf Ólafsson, fyrrverandi landlækni, þar sem hann dregur upp mjög svarta mynd af því hvernig þessi ríkisstjórn hefur farið með lífeyrisþega. Hann segir, með leyfi forseta: ,,Fram til 1994 fylgdi ellilífeyrir lágmarkslaunum verkafólks en frá og með desember 1995`` --- þegar þessi ríkisstjórn er tekin við --- ,,hefur ellilífeyrir fylgt vísitölu verðlags. Svo að í samanburði við launavísitölu hafa ellilífeyrisþegar verið sviptir 7.059 kr. á mánuði og 17.176 kr. ef miðað er við lágmarkslaun.`` Það munar um minna, herra forseti, þegar bilið milli láglaunahópanna í þjóðfélaginu og lífeyrisþeganna er orðið með þeim hætti að 17 þús. kr. vantar á mánuði upp á að lífeyrisþegar hafi sömu kjör og þeir lægst launuðu í þjóðfélaginu, og eru þeir ekki of sælir af sínum kjörum. Um það væri auðvitað hægt að halda langa ræðu.

Það er ótrúlegt að láglaunahóparnir í þjóðfélaginu sem þurfa að lifa af kannski 90 þús. kr. á mánuði skuli yfirleitt geta það, og auðvitað geta þeir það ekki. Endar ná ekki saman milli mánaða og við sjáum líka verulega aukningu á skuldum heimilanna og yfirdráttarlánum. Það er allt of stór hópur í þjóðfélaginu sem þarf --- bara til að eiga fyrir allra brýnustu nauðþurftum --- að framfleyta sér með dýrum yfirdráttarlánum í bönkum.

Ólafur Ólafsson landlæknir segir í þessari ágætu grein sinni að miðað við lágmarkstaxta hafi ellilífeyrir rýrnað um 206 þús. kr. á ári miðað við febrúar 2002. Þá miðar hann við lágmarkslífeyri samanborið við greiðslur ellilífeyrisþega. Hann vitnar til þess að samkvæmt sérúttekt ríkisskattstjóra árið 2000 hafi tæp 40% þeirra haft 75 þús. kr. eða lægri laun á mánuði í heildartekjur árið 1999. Og hann segir enn fremur í þessari grein, með leyfi forseta, að ,,... um 40% hafa 70.000 eða minna eftir skatt og tæp 60% minna en 80.000 kr. Rétt er að hafa hugfast að raunveruleg lágmarkslaun verkafólks með eingreiðslu á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt samningi voru í febrúar 2002 kr. 94.692. Ellilífeyrir var 77,1% af lágmarkslaunum verkafólks árið 1990 en er nú 58,9% (febr. 2002).`` Þessir útreikningar eru unnir af hagfræðingi Félags eldri borgara, Einari Árnasyni, en hann hefur stuðst við upplýsingar frá Tryggingastofnun ríkisins, kjararannsóknarnefnd og Hagstofu Íslands.

Ólafur bætir við að í janúar og febrúar 2002 hafi ellilífeyrisþegar fengið um 500 kr. viðbót á mánuði þannig að munurinn minnkaði úr 17.611 kr. á mánuði í 17.176 kr. Þarna er skömmtunarkerfi ríkisstjórnarinnar til ellilífeyrisþega á fullu, sýnir sig best að þeir fá upp í það sem af þeim hefur verið tekið, 500 kr. viðbót á mánuði, eins og þeir fengu í febrúarmánuði sl. Ólafur segir að þetta hafi gerst á sama tíma og öll þjónustugjöld, þar á meðal lyfjakostnaður, hafi aukist gífurlega. ,,Athyglisvert er að mesta rýrnun á ellilífeyri, þ.e. rúmar 8.000 kr. á mánuði, varð árið 2000 í kjölfar árs aldraðra, þrátt fyrir loforðaræðuna, lúðraþytinn og sönginn,`` segir þessi ágæti maður, Ólafur Ólafsson, fyrrverandi landlæknir, sem ásamt mörgum öðrum berst mikilli baráttu fyrir því að leiðrétta þessi löku kjör lífeyrisþeganna.

Það er athyglisvert að þetta byrjar allt, eins og Ólafur getur um, í desember 1995. Það var einmitt á því ári ef ég man rétt sem ellilífeyrisþegar og öryrkjar fóru skyndilega að greiða skatt, herra forseti. Þar fann ríkisstjórnin matarholu. Þeim sem höfðu bara haft almannatryggingu og tekjutryggingu hafði verið hlíft við skattgreiðslum áður, jafnvel þó að verr hafi árað en var á árinu 1995, en núna er verið að klípa 5--8 þús. kr. á mánuði af þessum litlu aurum sem þetta fólk fær úr tryggingakerfinu.

Hér stöndum við og ræðum breytingar á almannatryggingalögunum eina ferðina enn þar sem verið er að krukka í og reyna að lagfæra og snyrta en ekki tekið á þeim málum sem mest brenna á þessu fólki, t.d. er ekki tekið á því sem Öryrkjabandalag Íslands gagnrýnir mjög í umsögn sinni til heilbr.- og trn. Öryrkjar búa enn þá við það að þeir eru tengdir við tekjur maka. Af hverjum 100 kr. sem þeir vinna sér inn standa aðeins eftir 67 kr. vegna tekjutryggingaraukans. Það er náttúrlega, herra forseti, úr takt við þjóðfélag eins og við viljum sjá. Ef öryrki gengur í hjónaband þarf maki hans að fara upp í Tryggingastofnun og leggja á borðið og sýna hvað hann hefur í tekjur til að sá litli lífeyrir sem öryrkinn hefur úr Tryggingastofnun verði ekki skertur. Þetta er auðvitað ekki boðlegt, herra forseti. Við gengum í gegnum það í tengslum við hæstaréttardóminn hvernig verið er að brjóta mannréttindi, herra forseti, á öryrkjum með þeim hætti. Öryrkjabandalagið mótmælir því harðlega, ég hef lýst því og það kom mjög skýrt og skilmerkilega fram í löngu máli við 2. umr. hjá hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur, 15. þm. Reykv.

[10:45]

En Öryrkjabandalagið segir í umsögn sinni um þennan þátt málsins:

,,Það nýmæli 17. greinar frumvarpsins sem fyrirsjáanlega mun þó kalla á meiri, erfiðari og óleysanlegri vandamál en önnur, er ákvæðið um upplýsingaskyldu maka. Með þessu ákvæði verður hverjum þeim sem tekur upp sambúð með öryrkja gert skylt að standa tryggingafélagi hans skil á upplýsingum um fjármál sín, þ.e. umfram það sem fram kemur í þeim gögnum skattyfirvalda sem Tryggingastofnun ríkisins hefur aðgang að.``

Þeir segja jafnframt í umsögn sinni, með leyfi forseta:

,,Vart þarf að hafa mörg orð um að með þessu er verið að færa í lög ákvæði sem óraunhæft er að framfylgja, einungis til þess fallin að niðurlægja öryrkja ...``

Herra forseti. Við tökum sannarlega undir að það er með öllu óþolandi hvernig þessum málum er enn fyrir komið að því er varðar öryrkjana.

Herra forseti. Því ber þó að fagna í þessu frv. sem við ræðum að nefndin tekur upp tillögu Ástu R. Jóhannesdóttur og fleiri þingmanna Samfylkingarinnar sem fram kom í frv. til laga um breytingu á lögum um félagslega aðstoð. Í því frv. var lögð til heimild, ef sérstakar ástæður væru fyrir hendi, til að greiða maka eða öðrum þeim sem heldur heimili með elli- og örorkulífeyrisþega maka- eða umönnunarbætur. Í frv. Ástu R. Jóhannesdóttur o.fl. var við það miðað að heimilt væri að greiða umönnunarbætur öðrum en maka, sem nú er heimilt, þ.e. allt að 80% af grunnlífeyri og tekjutryggingu almannatrygginga. Umönnunarbæturnar eru nú sem sagt allt að 80% af grunnlífeyri og tekjutryggingu almannatrygginga, sem er ekki há fjárhæð, herra forseti, ef maki er bundinn heima yfir sjúkum elli- eða örorkulífeyrisþega.

Það sem þingmenn Samfylkingarinnar reyndu að koma í gegn var að heimilt væri að greiða slíkar umönnunarbætur þó ekki væri um maka að ræða. Þar gæti verið um að ræða systur, bróður eða nákominn ættingja annan en maka sem vildi hugsanlega annast elli- eða örorkulífeyrisþega sem þyrfti á þjónustu og aðstoð að halda allan sólarhringinn. Auðvitað er í því sparnaður. Það er svo oft sem ríkisvaldið kastar krónunni og sparar tíeyringinn vegna þess að þetta eru ekki háar fjárhæðir sem greiddar eru í umönnunarbætur fyrir þann sem er bundinn yfir sjúkum öryrkja eða ellilífeyrisþega, í stað þess að viðkomandi gæti hugsanlega verið á vinnumarkaðnum.

Þar fyrir utan, herra forseti, sjá allir að það sparar veruleg útgjöld í heilbrigðiskerfinu ef opnað er fyrir slíka heimild, þ.e. að fleiri en maki geti fengið umönnunarbætur. Það er mjög oft erfitt fyrir elli- og örorkulífeyrisþega sem hafa gengist undir aðgerð eða annað á spítölum að komast heim aftur ef enginn er til að annast þá og þarna er opnuð leið, sem er miklu manneskjulegri og ódýrari í alla staði, til að annast um elli- og örorkulífeyrisþega. Þeir gætu þannig verið heima með aðstoð en þyrftu ella að fara á dvalarheimili eða stofnun.

Þessu, herra forseti, ber að fagna. Þetta er þó ávinningurinn sem við sjáum í frv. sem hér er tekið til umræðu. En eftir stendur, herra forseti, að það er ekki tekið á kjörum aldraðra og öryrkja í heild og breidd, eins og við í Samfylkingunni höfum ítrekað lagt til. Við höfum lagt fram um það ítarlegar tillögur sem ég hef hér vitnað í.

Samtök aldraðra hafa barist mjög harðri baráttu og leitað til stjórnvalda eftir leiðréttingu á kjörum þess hóps en án mikils árangurs, herra forseti. Mér finnst algjört lágmark að miða við launavísitölu, að lífeyrir elli- og örorkulífeyrisþega hækki í takt við launavísitölu. Við vorum með frv. um það á síðasta þingi, að það ætti að miða við launavísitölu eða neysluvísitölu, eftir því hvort væri hærra þegar mæling færi fram.

Ég held að allir séu því sammála --- ríkisstjórnin getur auðvitað ekki neitað því --- að lífeyrisþegar hafa ekki fengið sinn hluta í góðærinu. Þeir eiga raunar rétt og kröfu til að fá eðlilega og sanngjarna leiðréttingu á kjörum sínum. En það er reyndar svo að allir þeir milljarðar sem hafðir hafa verið af öldruðu fólki og öryrkjum á þessum sex eða sjö árum hafa farið í að reyna að sýna einhvern tekjuafgang hjá þessari ríkisstjórn. Hagstjórnin er ekki betri en svo að það verður að fara svona leiðir, taka af elli- og örorkulífeyrisþegum það sem þeir eiga sannarlega rétt á, til að geta sýnt einhvern tekjuafgang. Hagstjórnin og snilldin hjá ríkisstjórninni í efnahagsmálunum er ekki meiri en svo. Það er auðvitað skammarlegt að það skuli þurfa að fara þá leið til að geta sýnt einhvern tekjuafgang.

Á ráðstefnu nýverið kom reyndar fram að eignastaða aldraðra hér á landi er yfirleitt góð. Því ber að fagna. En á móti eru tekjur margra, jafnvel þó þeir búi í sæmilegu húsnæði, það lágar að ellilífeyrisþegar og öryrkjar eiga oft á tíðum í erfiðleikum með að standa undir nauðsynlegum greiðslum af húsnæði, m.a. fasteignagjöldum og venjulegu viðhaldi á húsnæði. Tekjustaða þeirra er það slæm eins og raun ber vitni.

En við getum líka litið til þess, sem er auðvitað partur af kjörunum, að stór hluti aldraðra --- síðast þegar ég skoðaði það voru það um 600 aldraðir, ég veit ekki hver staðan er nú --- bíður eftir hjúkrunar- eða þjónustuíbúðum, auk leiguíbúða. Stærsti hluti þessa hóps var í mjög brýnni þörf fyrir húsnæði, aðhlynningu eða þjónustu. Sama gilti um öryrkja en stór hópur öryrkja er á leigumarkaði og langur biðlisti er eftir íbúðum hjá Öryrkjabandalaginu. Þar bíða á fimmta hundrað öryrkja eftir húsnæði. Það er líka alltaf verið að gera þessum hópi erfiðara fyrir að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Nýjasta uppfinning ríkisstjórnarinnar er að hækka vextina á leiguíbúðum sem sátt var um í þjóðfélaginu í marga áratugi að breyta ekki þó að menn væru almennt að breyta vöxtum. Þeir voru verulega niðurgreiddir með 1% vöxtum þannig að það var hægt að koma upp húsnæði, m.a. á vegum Öryrkjabandalagsins, fyrir þennan hóp.

Það er auðvitað orðið mjög erfitt og nánast ókleift fyrir Öryrkjabandalagið að koma upp húsnæði fyrir þessa hópa nema það komi þá fram í leigunni, herra forseti. Það er ekki langt síðan við ræddum hér um húsnæðismálin, þá stöðu sem þau eru í núna. Þá kom fram að miðað við þau lánskjör sem eru í boði þarf leiga, ef hún er ekki niðurgreidd, á slíkum íbúðum sem öryrkjar eru að bíða eftir, og erum við þá einungis að tala þá um litla tveggja til þriggja herbergja íbúð, að vera á bilinu 70--100 þús. kr. Þetta eru þeir útreikningar sem t.d. Búseti setur fram og hefur hann þó fengið kjörin eitthvað niðurgreidd að því er varðar ákveðinn fjölda leiguíbúða. Mig minnir að það séu 3,5% vextir en engu að síður þarf leigan að vera þetta há. Hvað erum við að tala um? Við erum að tala um að leiga fyrir leiguíbúð, ef hún er ekki niðurgreidd, samsvari því sem aldraðir og öryrkjar, sem litlar lífeyrisgreiðslur fá, fá í framfærslueyri á mánuði.

Herra forseti. Mér fannst ekki hægt að afgreiða þetta frv. án þess að ræða aðeins um þessa stöðu sem öryrkjar og aldraðir, stór hluti þeirra, býr við. Sem betur fer á það ekki við um alla, það er líka til hópur aldraðra sem hefur það gott, bæði eigna- og tekjulega. En hann er líka allt of stór hópurinn sem býr við mjög bág kjör. Bara sú staðreynd að meira en helmingur aldraðra er með framfærslueyri undir lágmarkslaunum, staðfestir bág kjör allt of stórs hóps aldraðra í íslensku þjóðfélagi.

Herra forseti. Þessu kjörtímabili fer nú senn að ljúka og lifir ekki nema eitt ár af því. Ég sé ekki fram á, herra forseti, að ríkisstjórnin geri þá breytingu að taka með manneskjulegum hætti á þessu máli. Það vefst mjög fyrir þessari ríkisstjórn að endurskoða í heild almannatryggingalögin þannig að öldruðum og öryrkjum verði búið viðunandi lífsviðurværi. Ég sé ekki að á því verði nein breyting. Ég veit ekki til þess. Það má vera að það sé enn ein nefndin í gangi að endurskoða lögin en það er alla vega lítið sem við sjáum hér inni í þingsölunum sem gefur von um að á því verði tekið með myndarlegum hætti á næstu mánuðum eða missirum.

Ég er alveg sannfærð um að þetta er hópur sem er orðinn mjög sterkur félagslega. Hann er með sterkan bakhjarl í samtökum aldraðra og öryrkja sem láta nú iðulega heyra í sér ef þeim er misboðið. Mér segir svo hugur um að miðað við þá stöðu sem uppi er og meðan ekkert er sýnilegt hjá hæstv. ríkisstjórn að við eigum eftir að heyra vel frá samtökum aldraðra og öryrkja á næstu árum.

Herra forseti. Ég mun senn láta máli mínu lokið. Það er auðvitað bara eitt hægt að segja um hvernig þessi ríkisstjórn hefur farið með aldraða og öryrkja á þessu kjörtímabili, það er ríkisstjórninni til skammar hvernig hún hefur hlunnfarið aldraða og öryrkja í kjörum hvað eftir annað. Hún getur ekki einu sinni druslast til þess, herra forseti, að láta öryrkja og lífeyrisþega fá það sem þeim þó ber samkvæmt lögum, þ.e. að greiðslur til þeirra hækki í samræmi við launavísitölu. Það er þessari ríkisstjórn til skammar.