Almannatryggingar o.fl.

Miðvikudaginn 24. apríl 2002, kl. 10:59:37 (8178)

2002-04-24 10:59:37# 127. lþ. 127.4 fundur 359. mál: #A almannatryggingar o.fl.# (tekjuhugtak, bótaútreikningur o.fl.) frv. 74/2002, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 127. lþ.

[10:59]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir fór út um víðan völl og ræddi minnst um fyrirliggjandi frv. sem hér er til umræðu. Það er fjöldi atriða sem ég vildi gera athugasemdir við en ég ætla að taka fyrir tvö.

Í fyrsta lagi var ákveðið, eftir 1995, að hækka lágmarkslaun umfram alla aðra taxta í þjóðfélaginu.

[11:00]

Í áratugi hafði verið rætt um að hækka lægstu laun og í áratugi hafði verið reynt að gera það í kjarasamningum. Ávallt hafði sú hækkun farið upp í gegnum alla taxta og hækkað laun iðnaðarmanna og annarra hlutfallslega jafnmikið. Aldrei tókst að hækka lægstu laun. Svo var gert átak eftir 1995, en þá voru þessi lágmarkslaun 42 þús., til að hækka þau og menn sóru þá svardaga að það ætti ekki að hafa áhrif á aðrar greiðslur eða taxta til þess að hækka lágmarkslaunin sem voru þá 42 þús. og eru núna komin vel yfir 90 þús.

Að menn skuli leyfa sér að nota þessi lágmarkslaun til viðmiðunar við lífeyrisgreiðslur er ósvífni. Það er ósvífni. Sérstaklega af mönnum eins og Benedikt Davíðssyni sem þekkir þessi mál, var í kjarabaráttu, var í stjórn lífeyrissjóða og mótaði þá stefnu alla tíð. Hann veit nákvæmlega af hverju lægstu launin voru hækkuð svona mikið. Það var enginn á þeim töxtum nema örfáir einstaklingar, aðallega konur sem voru að koma út í atvinnulífið eftir að hafa alið upp börn. Það var réttlætismál fyrir þær konur að þessi lægstu laun yrðu hækkuð en það átti ekki að hafa áhrif á annað, hvorki lífeyrisgreiðslur né aðra taxta í þjóðfélaginu, og þess vegna er rangt að nota það sem viðmiðun í þessu eins og Félag aldraðra, sem ég tel að séu mjög nauðsynleg samtök, hafa leyft sér að gera.