Almannatryggingar o.fl.

Miðvikudaginn 24. apríl 2002, kl. 11:05:38 (8181)

2002-04-24 11:05:38# 127. lþ. 127.4 fundur 359. mál: #A almannatryggingar o.fl.# (tekjuhugtak, bótaútreikningur o.fl.) frv. 74/2002, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 127. lþ.

[11:05]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er erfitt að eiga orðastað við hv. þm. um kjör aldraðra og öryrkja. Það væri kannski ekki úr vegi að hv. þm. mundi standa hér einu sinni í ræðustól og segja elli- og örorkulífeyrisþegunum hvernig þeir eigi að lifa frá mánuði til mánaðar á 70 þús. kr. á mánuði. Ég er alveg viss um að margir mundu þiggja ráð frá stærðfræðingnum ef hann gæti sagt öldruðum og öryrkjum hvernig þeir eiga að lifa af þeim tekjum.

Ég spyr hv. þingmann af því að hann mótmælir því ekki að launin eigi þó að hækka í samræmi við launavísitölu: Hefur hann beitt sér fyrir slíkri hækkun í sínum stjórnarflokki, Sjálfstæðisflokknum, sem hefur skert tekjur elli- og örorkulífeyrisþega og miðað þær eingöngu við neysluvísitöluna þegar verið er að hækka almannatryggingabætur milli tímabila? Ég veit ekki hver sór þá svardaga, eins og hann orðaði það áðan, að við það að hækka lágmarkslaunin sem voru auðvitað til skammar, og eru enn, að þá mætti ekki hækka lífeyri elli- og örorkulífeyrisþega. Ég sé ekki samhengið í því.

Líka væri fróðlegt að heyra hvaða skoðun hv. þm., sem hefur staðið að því að lækka hér verulega skatta á fjármagnseigendur og fyrirtæki, hefur á því að þeir sem hafa lífeyri almannatrygginga þurfi að borga 5--8 þús. kr. í skatt af þeim lúsarlífeyri sem þeir hafa úr almannatryggingakerfinu.

Þetta er ríkisstjórnin sem hv. þm. styður sem hefur búið þannig að öldruðum og öryrkjum á undanförnum árum. Þegar ríkisstjórnin tók við árið 1995 var lífeyrir miðaður við lágmarkslaun og þeir sem höfðu bara lífeyri almannatrygginga borguðu engan skatt af þeim lífeyri.