Nýr stofnsamningur Fríverslunarsamtaka Evrópu

Miðvikudaginn 24. apríl 2002, kl. 11:41:38 (8185)

2002-04-24 11:41:38# 127. lþ. 127.10 fundur 672. mál: #A nýr stofnsamningur Fríverslunarsamtaka Evrópu# (breyting ýmissa laga) frv. 76/2002, RG
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 127. lþ.

[11:41]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Mig langar að fara örfáum orðum um frv. sem hér liggur fyrir. Ástæða þess að ég kem og ræði það við 3. umr. er að ég var fjarverandi vegna veikinda þegar málið kom á dagskrá við 2. umr. og ástæða þess að ég kýs að taka umræðu um svona mál er hversu óvanaleg afgreiðsla þess er. Hér er um að ræða bandorm sem hæstv. utanrmn. hefur fengið til umfjöllunar vegna breytingu á ýmsum lögum vegna nýs stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu. Það sem er sérstakt er að utanrmn. gerir í raun breytingar á lögum sem heyra undir dóms- og kirkjumrn., félmrn., heilbr.- og trmn., iðnrn., samgrn., utanrrn. og viðskrn.

Frv. er einar 80 greinar og segja má að eðli breytinganna allra sé eins. Hér hefur það gilt, jafnvel þó ekki sé um stórar efnisbreytingar að ræða, og það eru hin faglegu vinnubrögð á hv. Alþingi að senda hlutaðeigandi kafla til viðkomandi fagnefndar og það er auðvitað hin eðlilega og rétta vinna vegna þeirrar samfellu sem þarf að vera í störfum nefnda að fagnefndirnar fái til sín þær breytingar sem verið er að gera á lögum þrátt fyrir að þær lagabreytingar séu sendar til annarra en fagnefndarinnar til umfjöllunar. Þannig höfum við gert það þegar efh.- og viðskn. fær til sín bandorm, t.d. í tengslum við fjárlög, og verið er að gera breytingar, svo sem ,,þrátt-fyrir``-ákvæði og fleira. Ég vil taka það sérstaklega fram að öllum fulltrúum þingsins í utanrmn., að því að ég tel, fannst að það væri hið rétta verklag, ekki að það þyrfti svo mikla vinnu við það í nefndunum vegna eðlis málsins heldur vegna hinna eðlilegu og góðu vinnubragða.

Af hverju höfum við þá ekki gert þetta, herra forseti? Svarið er: Vegna hins nauma tíma, vegna þess að þingið er að fá þvílíkt gífurlegt magn af málum til sín og ný mál til meðhöndlunar svo seint að nefndadagarnir sem fráteknir eru til að ljúka duga ekki. Því var það ákvörðun utanrmn., þrátt fyrir að við vildum hafa þetta vinnulag öðruvísi, að utanrmn. sendi frá sér þetta mál og mundi breyta lögunum sem í raun heyrðu undir aðrar nefndir.

[11:45]

Ég þarf ekkert að fjölyrða um hversu mörgu mál eru hér á dagskrá. Undanfarna daga hafa 30--50 mál verið á dagskrá á dag. Það er vegna þess að hæstv. ráðherrar skila frv. sínum allt of seint inn þrátt fyrir tilraunir forseta þingsins til að reyna að festa niður þinglok fyrir jól og vor. Nú er þetta með versta móti. Stór mál hafa verið lögð fyrir þingið viku fyrir þinglok en þau áttu, samkvæmt starfsáætlun þingsins, að vera í dag.

Ég vil taka það sérstaklega fram að mér finnst gífurlega mikilvægt að okkur takist að tileinka okkur ný vinnubrögð. Ég er að tala um vinnubrögð, herra forseti, í tengslum við að utanrmn. fór óhefðbundna leið og ég undirstrika það enn og aftur að allir féllust á það. En ég er farin að komast á þá skoðun að þing eigi að hefjast fyrr á haustin --- ég hef reyndar hreyft því áður --- og standa fram í júní. Ég tel að gera eigi þá kröfu til ráðherra að þeir skili þingmálum sínum inn tímanlega þannig að þingmenn hafi á tilfinningunni að þau hafi verið rétt unnin og allt sem skoða þarf hafi verið skoðað í nefnd. Þannig er það ekki í dag.

Svo ég víki að málinu sjálfu, herra forseti, liggja hér fyrir með málinu í dag 17 brtt. á borðum okkar vegna þess að eðli málsins samkvæmt hefur ekki náðst að prenta upp stöðuskjal eftir 2. umr. Við erum því með brtt. með bandorminum sjálfum til umræðu við 3. umr.

Þetta mál er þannig vaxið að það er verið að setja inn í stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu ákvæði sem að þessu sinni varða fyrst og fremst Sviss. Ýmist er verið að setja ,,stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu`` í stað orðanna ,,Evrópska efnahagssvæðið`` inn í samninginn eða að bætt er við, eins og í 4. gr., að á eftir orðunum ,,Evrópska efnahagssvæðinu`` komi: og stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu. Enn má benda á eins og í 8. gr. að Sviss er beinlínis tekið sem dæmi. Þá segir í 2. mgr. 38. gr.:

,,Hið sama gildir um starfsemi svissneskra verðbréfasjóða, enda séu sömu kröfur gerðar til þeirra og til verðbréfasjóða með staðfestu í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins og gerður hafi verið samstarfssamningur á milli Fjármálaeftirlitsins og lögbærra svissneskra yfirvalda.``

Ég vil að það komi sérstaklega fram, herra forseti, af því við erum að bæta Sviss inn sem samstarfsaðila, líka á fjármálasviði, að að sjálfsögðu fellur fjármálastarfsemi í Sviss undir sömu reglur og gilda á Evrópska efnahagssvæðinu. Hafi menn haldið að í Sviss giltu önnur lögmál um upplýsingaskyldu eða annað varðandi fjármálastarfsemi þá er hér eingöngu verið að fella inn það sem gildir á Evrópska efnahagssvæðinu.

Það er sérstakt umhugsunarefni, herra forseti, fyrir þá sem hlýða á umræðuna í þinginu, umræðuna um alþjóðasamninga okkar, hvað þetta virkar flókið. Við erum að ræða um Evrópusambandið, ESB, og deilur um hvort það væri til góðs eða ills fyrir Ísland að setja sér samningsmarkmið og kanna möguleikana. Við erum að tala um Evrópska efnahagssvæðið og EES. Allir eru í dag hæstánægðir með það og tala um það sem hið eina rétta fyrir Ísland, að vera aðili að EES --- þrátt fyrir að það hafi vakið þvílíkar deilur og undirskriftasöfnun á sínum tíma, að lögfesta aðild okkar að EES-svæðinu. Svo komum við hér og tölum um EFTA, upprunalega fríverslunarbandalagið þar sem Ísland var með. EFTA-löndin eru aðilar að EES, utan Sviss. Þar með erum við komin með EFTA/EES-nefnd sem eru EFTA-löndin þrjú og Evrópusambandið og síðan þurfum við að vinna með stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu, af því þar er EFTA og EES og Sviss. Þeir sem eru að reyna að fylgjast með því hvaða ákvarðanir Ísland tekur í samstarfi í Evrópu, hljóta að velkjast í vafa um hvað við erum að gera, til hvers og með hverjum.

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa þessa ræðu lengri. Ég undirstrika að ég var sammála því að utanrmn. gerði þessar breytingar, á lögum sem heyrðu undir svo mörg ráðuneyti án þess að senda tillögurnar frá sér, fyrst og fremst með tilliti til þess að það var afsakanlegt, þ.e. breytingarnar eru ekki mjög miklar og lúta að þátttöku Sviss í þessu samstarfi. Ég undirstrika líka að hefðum við tekið málið fyrir á miðjum vetri er það sannfæring mín að utanrmn. öll hefði formsins vegna sent málið til fagnefndanna til að fá að heyra um afstöðu þeirra og athugasemdir ef einhverjar væru. Þetta vil ég undirstrika, herra forseti.