Húsnæðismál Kvikmyndasafns Íslands

Miðvikudaginn 24. apríl 2002, kl. 13:01:51 (8196)

2002-04-24 13:01:51# 127. lþ. 128.1 fundur 655. mál: #A húsnæðismál Kvikmyndasafns Íslands# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi RG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 127. lþ.

[13:01]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég spyr hæstv. menntmrh. um áform hans varðandi húsnæðismál Kvikmyndasafns Íslands. Fyrir um þremur árum tók kvikmyndasafnið húsnæði á leigu í Hafnarfirði, óuppsegjanlegt til 15 ára. Húsnæðið hefur að mörgu leyti reynst ákjósanlegt og jafnvel betra en húsnæði sem mörg önnur söfn geta státað af, m.a. vegna gömlu frystiklefanna í frystihúsinu en þeir eru mjög góðir geymslustaðir fyrir gamlar filmur.

Nú ber svo við að bæjarstjórn Hafnarfjarðar hefur ákveðið að fara út í byggingar á hafnarsvæðinu þar sem safnið er til húsa og þar með verða öll húsakynni á norðurbakkanum þar sem safnið er rifin. Þetta er mjög bagalegt þar sem safnið hefur eytt tugum milljóna í að koma sér upp sértækum geymslum.

Safnið heyrir undir menntmrn. sem sér um að greiða rekstrarkostnað. Reyndar hefur starfsmönnum verið fækkað úr þremur í tvo. Gert er ráð fyrir að safnið verði að flytja í júní eða júlí og þegar þessi fyrirspurn var lögð fram í mars var allt enn óráðið með framtíð safnsins.

Það gerist svo eftir að ég legg fram fyrirspurnina, virðulegi forseti, að fjallað er um málið í blöðunum 7. apríl undir fyrirsögninni ,,Starfsemin lömuð og húsnæðið rifið`` og sagt frá því, að sögn Þorfinns Ómarssonar, framkvæmdastjóra Kvikmyndasjóðs Íslands, sem safnið heyrir undir, að starfsemi þess sé að mestu lömuð og að ekki séu til fjármunir til að ráða nýjan forstöðumann og hefur hann áhyggjur af því tilefni sem ég er að gera að fyrirspurn, að Hafnarfjarðarbær hefur ákveðið að rífa öll húsakynni. Það kemur fram 7. apríl að á þeirri stundu er alls óvíst hvert safnið flyst eða hvernig staðið verði að málum.

Það sem blandast inn í umræðuna um framtíð safnsins og húsnæðismál eru fjármálin. Þar virðist hafa verið farið mjög mikið fram úr, m.a. miklum peningum eytt í að koma Bæjarbíói í viðunandi stand þannig að þar verði hægt að vera með sýningarstarfsemi til frambúðar sem er auðvitað einkar eftirsóknarvert.

Herra forseti. Það má ekki gerast að þetta safn verði nafnið tómt vegna skorts á sómasamlegu húsnæði. Þetta er menningarsögulega þýðingarmikil stofnun og hlutverk þess getur enn aukist ef sett verða lög um skilaskyldu kvikmyndagerðarmanna en um það hefur verið rætt. Þess vegna spyr ég: Hver eru áform ráðherra varðandi húsnæðismál Kvikmyndasafns Íslands?