Húsnæðismál Kvikmyndasafns Íslands

Miðvikudaginn 24. apríl 2002, kl. 13:04:49 (8197)

2002-04-24 13:04:49# 127. lþ. 128.1 fundur 655. mál: #A húsnæðismál Kvikmyndasafns Íslands# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 127. lþ.

[13:04]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Við spurningunni: Hver eru áform ráðherra varðandi húsnæðismál Kvikmyndasafns Íslands? er svarið eftirfarandi:

Gerðir hafa verið tveir samningar varðandi húsnæðismál Kvikmyndasafns Íslands. Þar er annars vegar um að ræða samning við Hafnarfjarðarbæ vegna húseignarinnar Bæjarbíós, Strandgötu 16, og hins vegar samningur við Hafnarfell hf. vegna húseignarinnar Vesturgötu 11--13. Eins og fram hefur komið hafa borist upplýsingar um fyrirhugað niðurrif allra húsa á norðurbakka hafnarinnar í Hafnarfirði en þar er húseignin Vesturgata 11--13 sem Kvikmyndasafn Íslands er með leigusamning um. Þetta mál verður að sjálfsögðu skoðað í samvinnu við Hafnarfjarðarbæ og fundin lausn á því.