Málefni Þjóðminjasafnsins

Miðvikudaginn 24. apríl 2002, kl. 13:45:15 (8217)

2002-04-24 13:45:15# 127. lþ. 128.5 fundur 697. mál: #A málefni Þjóðminjasafnsins# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., SJS
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 127. lþ.

[13:45]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þetta var nú stuttaralegt svar og hæstv. ráðherra skar frekar við nögl upplýsingar um stöðu málsins.

Ég verð að segja að það er ekki einleikið hvernig til tekst í hverju málinu á fætur öðru þegar Sjálfstfl. tekur til hendinni í opinberum stofnunum og silkihúfur einkaframtaksins og þingmenn Sjálfstfl. raða sér á jötuna og hafa málin með höndum, eins og á við í þessu tilviki og öðrum fleirum. Það er kannski vegna þess sem hæstv. menntmrh. er fáorður í svörum sínum, að hann hefur ekkert sérstaklega mikinn áhuga á því að upplýsa frekar um hvernig mál eru hér á vegi stödd. Kostnaðaráætlun er augljóslega þegar sprungin og húsið þó tæplega fokhelt enn þá eftir fjögur til fimm ár.

Herra forseti. Ég vil segja að það er að mínu mati algerlega óhjákvæmilegt að tekin verði saman skýrsla um stöðu þessa máls og Alþingi fái í haust úttekt á þessum framkvæmdum hingað til, þessum drætti og þessu sleifarlagi og þessari framúrkeyrslu, plús áætlun um hvernig eigi að ljúka verkinu. Það er til vansa að hafa Þjóðminjasafnið lokað árum saman, nema það sé sérstakt aðalsmerki ráðherra Sjálfstfl. að þannig sé.