Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 24. apríl 2002, kl. 20:30:51 (8225)

2002-04-24 20:30:51# 127. lþ. 129.1 fundur 542#B Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)#, félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 127. lþ.

[20:30]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Veturinn er að kveðja. Vorið er á næsta leiti. Það hefur birt yfir í tvennum skilningi. Á öndverðum vetri voru horfur dökkar í efnahagsmálum, en með samræmdu þjóðarátaki hefur tekist að kveða verðbólguna niður og er verðbólguhraði á ársgrundvelli nú um eða undir tveimur prósentum. Allar horfur eru á því að við verðum undir rauða strikinu í maí og kjarasamningarnir haldi. Krónan er að styrkjast. Vextir fara lækkandi. Hagvöxtur er á uppleið. Kaupmáttur hefur aukist um árabil meira en í öðrum löndum og lífskjör og lífsgæði hér eru með því besta sem þekkist í veröldinni. Við höfum sannarlega fólk í fyrirrúmi.

Nokkur reynsla er komin á lögin um fæðingar- og foreldraorlof. Þegar þau eru komin að fullu til framkvæmda, en það verður um næstu áramót, búa íslenskar fjölskyldur við betri og fjölskylduvænni fæðingarorlofslög en aðrar þjóðir, jafnan rétt kvenna og karla og sama rétt á öllum vinnumarkaði. Lögin hafa reynst vel og næstum allir feður taka fæðingarorlof. Því ættu lögin að stuðla mjög að launajafnrétti kynjanna eins og þeim var ætlað. Þá munu lögin tryggja barninu samvistir við bæði föður og móður, gera ábyrgð þeirra gagnvart barninu jafna og gefa körlum og jafnt sem konum kost á að samræma atvinnu- og fjölskyldulíf. Þá er foreldrum heimilt að taka sér frí til að vera með barni sínu allt að þrettán vikum hvoru foreldri á fyrstu átta árum ævi barns. Enn fremur er óheimilt að segja fólki upp störfum vegna þess að það þurfi að sinna fjölskylduábyrgð.

Endurskipulagningu húsnæðismála er að ljúka. Við höfum stóraukið félagslega aðstoð í húsnæðismálum. Við hurfum frá úreltu félagslegu íbúðakerfi og tókum upp félagslegt lánakerfi. Með lagabreytingu sem nú er til lokameðferðar á Alþingi er fjölskyldum í félagslegum eignaríbúðum frjálst að velja hvort þær láta sveitarfélög sín leysa íbúðirnar til sín eða selja þær sjálfar á frjálsum markaði. Þetta er geysilegt hagræði fyrir fjölskyldur á þeim svæðum þar sem markaðsverð íbúða er hátt.

Jafnframt er með þessari lagabreytingu komið til móts við þau sveitarfélög sem hafa orðið að innleysa félagslegar íbúðir og eru í erfiðleikum með rekstur þeirra. Myndaður er sérstakur sjóður, varasjóður húsnæðismála, úr tveimur sjóðum í eigu sveitarfélaganna og árlegu ríkisframlagi næstu fimm ár. Þessi sjóður fær það hlutverk að aðstoða sveitarfélög sem vilja selja íbúðir og einnig að aðstoða sveitarfélög við rekstur leiguíbúða þar sem markaðsleiga í viðkomandi sveitarfélagi stendur ekki undir rekstri íbúðanna. Með þessum aðgerðum er talið unnt að leysa þennan vanda um land allt á næstu fimm árum. Þá hefur verið ákveðið að sveitarfélög sem hafa orðið að innleysa félagslegar eignaríbúðir megi láta upphafleg lán á lágum vöxtum standa út lánstímann. Einnig hefur verið ákveðið að ríkið niðurgreiði vexti á lánum til 400 nýrra leiguíbúða á ári sem ætlaðar eru námsmönnum, öryrkjum, öldruðum og öðru fólki undir skilgreindum tekju- og eignamörkum.

Í samstarfi við Íbúðalánasjóð, lífeyrissjóðina og sveitarfélög er félmrn. að hrinda af stokkunum átaki til að fjölga leiguíbúðum á almennum markaði. Áformað er að byggja í þessu átaki með niðurgreiddum vöxtum 150 íbúðir árlega næstu fjögur ár eða 600 leiguíbúðir alls. Búseti mun byggja og reka 300 þessara leiguíbúða og önnur leigufélög hafa þegar sótt um flestöll þau lán sem í boði eru. Ætla má að með þessum aðgerðum þróist hér heilbrigður leigumarkaður. Húsaleigubætur hafa verið hækkaðar, aukið tillit tekið til fjölskyldustærðar og húsaleigubætur gerðar skattfrjálsar og það er umtalsverð kjarabót fyrir tekjulága.

Tekjulágir einstaklingar geta leitað til húsnæðisnefndar í sveitarfélagi sínu og óskað eftir aðstoð við að kaupa húsnæði. Samþykki húsnæðisnefnd fer viðkomandi og velur sér íbúð á markaði, fær húsbréf fyrir 60% af kaupverði eða 70% ef um fyrstu íbúð er að ræða gegn veði í íbúðinni og síðan peningalán til viðbótar þannig að heildarlánsupphæð verður 90% af kaupverði. Sveitarfélagið leggur 5% af upphæð viðbótarlánsins í varasjóð því til tryggingar. Síðan Íbúðalánasjóður tók til starfa 1999 hafa um 5.000 tekjulágar fjölskyldur fengið þessa aðstoð við að komast í eigið húsnæði.

Landsmenn fengu að heyra svartsýni hv. þm. Árna Steinars Jóhannssonar. Ósköp hlýtur þeim að líða illa að þurfa að berjast á móti, alltaf að berjast á móti, en aldrei fyrir neinu. Það er náttúrlega fjarstæða, það hefur engum dottið í hug að einkavæða vatnsveitur. Þær eru skylduverkefni sveitarfélaga.

Eins og ég sagði í upphafi eru horfur í efnahagsmálum okkar ólíkt bjartari nú á sumarmálum en þær voru í skammdeginu. Okkur hefur tekist með sameinuðu þjóðarátaki að koma böndum á verðbólguna. Aðilar vinnumarkaðarins, og þá sérstaklega Alþýðusamband Íslands, eiga miklar þakkir skildar fyrir framgöngu sína í þeirri baráttu. En það sem gerði okkur mögulegt að ráða við verðbólguna var að við höfum okkar eigin mynt og getum því brugðist við áföllum og ráðum okkar málum sjálfir. Þróunin í vetur sýnir okkur glögglega hversu fráleitar þær hugmyndir eru að hagsmunum Íslands gæti verið betur borgið innan Evrópusambandsins.