Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 24. apríl 2002, kl. 20:38:09 (8226)

2002-04-24 20:38:09# 127. lþ. 129.1 fundur 542#B Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)#, GAK
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 127. lþ.

[20:38]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Sértækar aðgerðir í sjávarútvegi og byggðamálum hafa allan valdatíma þessarar ríkisstjórnar verið meginstefna hennar. Með hverri lagabreytingunni á fætur annarri hafa stjórnarþingmenn sérsaumað utan um og aukið á vanda sjávarbyggðanna með þeim afleiðingum að atvinna minnkar og óöryggi fólks á landsbyggðinni vex.

Hvernig er framkvæmd hinnar sértæku eyðibyggðastefnu ríkisstjórnarinnar? Jú, fáum er tryggð eign á nýjum kvótasettum fisktegundum, t.d. síðast keilu, löngu og skötusel. Vont kvótakerfi verður enn verra í framkvæmd. Fiskframboð minnkar, úr útgerð dregur, brottkast vex. Afleiðingin er minni vinna, lægri tekjur og meiri óvissa fólks um framtíð sína.

Smábátunum var troðið inn í kvótakerfið og veiðifrelsi þeirra og því sem eftir var af veiðirétti sjávarbyggðanna var nauðgað inn í krókaaflamarkskerfið. Ufsa, steinbít og ýsu var útdeilt í smáskömmtum til smáútgerðanna og í hvert skipti sem úthlutað er sértækt fara þeir sem áður voru bestu vinir að deila innbyrðis. Þeir verða jafnvel óvinir. Þessar sértæku úthlutanir eru endurteknar nokkrum sinnum. Sumir fá og aðrir ekki í hvert sinn.

Sumir frétta eftir kortlögðum sértækum leiðum af aðgerðum stjórnarþingmanna hvort betra sé að selja eða kaupa smábáta- og kvótarétt. Smábátaútgerðarmennirnir deila. Þeim er misjafnt skammtað. Sumir selja. Aðrir kaupa. Þeir sem best vita fyrir fram hagnast mikið. Þeir sem ekki fá neitt að vita tapa miklu og selja á röngum degi. En þeir sem vita um næstu sértæku aðgerðir stjórnarþingmanna bíða færis. Fólkið sér ósætti. Það sér ósættið vaxa, en það segir fátt. Það óttast að geta orðið fyrir sértækum aðgerðum yfirvaldsins.

Sértæku stjórntökin ganga upp einnig í norsk-íslensku síldinni sem verður nú eign fárra út á veiðiréttarviðmið sem Hæstiréttur dæmdi ólög í desember 1998. Allur sjávarútvegs\-pakkinn nú er sértæk aðgerð. Fiskifræðingar Hafró eiga að ráða því hvort Jón eða Gunna fái möguleika á að stunda rannsóknir í sjónum. Hættulegir áhugamenn um hafrannsóknir þurfa eftirlit. Sértækum byggðapottum er fjölgað, enda veitir ekki af. Kvótabraskskerfið býr sjálfkrafa til vandamál þegar veiðirétturinn er seldur úr byggðinni. Þá er svo gott að vera við völd með sértækum leiðum og deila og drottna.

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Sértækum aðgerðum gegn byggðum sem voru í vanda vegna minni atvinnu, fækkunar fólks og þar af leiðandi minni tekna var beitt og er sala Orkubús Vestfjarða gott dæmi þar um. Nú liggur fyrir Alþingi lagafrv. sem felur í sér að sveitarfélagið Skagafjörður og ríkissjóður selji hluti sína í Steinullarverksmiðjunni á Sauðárkróki. Á liðnum missirum hefur hvert sveitarfélagið af öðru verið knúið til að selja eigur sínar upp í skuldir. Þannig hafa þau verið neydd til að fórna þeim fyrirtækjum sem mestan arð gefa. Það reynist svo skammgóður vermir og alls engin framtíðarlausn. Enn á ný er vegið að undirstöðu byggðanna. Fyrirtæki sem skila fólkinu í byggðunum arði eru seld með sértækum aðgerðum. Framkoma ríkisins gagnvart hinum dreifðu byggðum er forkastanleg. Sértæku ríkisstjórnarflokkana á fólkið hvergi að kjósa. Og nú skal metið slegið. Sjálfstæðisflokkurinn vill sértæka aðstoð við eitt fyrirtæki með því að veita því 20 milljarða kr. ríkisábyrgð. Þessu flókna og einstaka máli fylgir mikil áhætta. En Alþingi er ætlað að fjalla um það á örfáum dögum. Frumvarpið hefur mætt mikilli andstöðu fjármálamarkaðar, fulltrúa atvinnulífsins, Þjóðhagsstofnunar, Hagfræðistofnunar háskólans og fyrirtækja á líftæknisviði. Þó svo að Íslensk erfðagreining sé framsækið fyrirtæki í hátækniiðnaði er aðkoma ríkisvaldsins og löggjafarvaldsins óeðlileg og felur í sér gríðarlega áhættusama fyrirgreiðslu við eitt fyrirtæki.

Þá má minna á að umrætt fyrirtæki hefur þegar fengið sérstaka fyrirgreiðslu umfram önnur sem fólst í því að veita því einkaleyfi til tólf ára á ættfræðirannsóknum. Það á ekki að setja þingmenn í þá stöðu að velja eitt fyrirtæki til að styðja umfram önnur og brjóta með því almennar jafnræðisreglur.

Fram hefur komið hörð gagnrýni á þau áform ríkisstjórnarinnar að leggja niður Þjóðhagsstofnun og hefur minni hluti efh.- og viðskn. fært gild rök fyrir þeirri gagnrýni í nefndaráliti sínu. Þar segir m.a. að hagfræðileg og fagleg rök skorti fyrir því að leggja niður óháða stofnun sem hafi svo mikilvægu hlutverki að gegna við greiningu á þróun efnahagslífsins. Verði þjóðhagsspár og þjóðhagsáætlanir færðar undir fjármálaráðuneytið, er vafasamt að það efli trúverðugleika þeirra. En um það segir svo í nefndaráliti, með leyfi forseta:

,,Minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar telur það ganga gegn öllum faglegum vinnubrögðum og aðhaldi við efnahagsstjórnina að færa gríðarlega mikilvæg verkefni á sviði efnahagsmála frá óháðri stofnun til hagstjórnaraðila eins og Seðlabanka og fjármálaráðuneytisins sem lýtur pólitískri forustu ráðherra.``

Ekki hefur heldur verið sýnt fram á að það hafi sparnað í för með sér að leggja stofnunina niður í núverandi mynd.

Frjálslyndi flokkurinn hefur lagt fram þáltill. um lágmarksbætur til handa þeim lífeyrisþegum sem búa við lökust lífeyrisréttindi í lífeyrissjóðum. Hér er í flestum tilfellum um að ræða fólk sem á starfsævi sinni hafði frekar lág laun og naut ekki greiðslu af launum sínum í lífeyrissjóð að hluta eða öllu leyti fyrr en of seint miðað við aldur til þess að öðlast lífeyri sem dugar til framfæris á efri árum. Tillaga þessi er flutt til þess að fá fram hver vilji meiri hluta Alþingis er gagnvart þeim lífeyrisþegum sem búa við lökust lífeyrisréttindi í lífeyrissjóðum. Hér er um að ræða verulega réttarbót sem varðar fjölmargar stéttir, svo sem bændur, húsmæður og almennt verkafólk. Vitað er að lífeyrisgreiðslur eru enn of lágar til þess að geta verið meginstoð lífeyrisþega. Sú aðferð sem lögð er til í þáltill. leiðir til þess að greiðsla úr lífeyrissjóði undir 40.000 kr. á mánuði skerðir engar bætur sem lífeyrisþeginn fær úr almannatryggingum. Útfærslan virkar einnig þannig að eftir því sem fleiri landsmenn fá hærri lífeyri en 40.000 kr. á mánuði, en þeim fjölgar vonandi hratt á næstu árum, fækkar þeim sem njóta þessarar reglu. Það leiðir til þess smám saman að kostnaður ríkissjóðs minnkar.

Rétt er að vekja athygli á því að eins og reglan er útfærð minnkar hún svokölluð jaðarskattaáhrif. Því miður fáum við ekki að mæla fyrir þessari tillögu á þessu þingi, en Frjálslyndi flokkurinn leggur einnig mikla áherslu á velferðarmál á vettvangi sveitarstjórnarmála.

Já, stjórnarflokkarnir geta sagt: ,,Við deilum og drottnum með sértækum aðgerðum.``

,,Við skulum höggva í tönn,`` sögðu félagarnir Karíus og Baktus um þann skítuga kjaft sem þeir höfðu svo gott útsýni yfir. Það þarf að þvo og skola út því kvótabraskskerfi sem við búum við. Þegar kjósendur taka þá ákvörðun sem þeir þurfa nú að taka, bæði í bæ og borg, og að ári í alþingiskosningum, þ.e. að losa okkur við völd stjórnarflokkanna þá kemur nýr tími viðgerða þess sem skemmt hefur verið. Holur verða grafnar út og gert við. Yfir þær djúpu sem menn komast ekki upp úr og fengið hafa nafnið Davíðsholur verður vandlega steypt. Sértækri mismunun stjórnarflokkanna mun örugglega ljúka.

Ég óska landsmönnum öllum gleðilegs sumars.