Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 24. apríl 2002, kl. 20:48:19 (8227)

2002-04-24 20:48:19# 127. lþ. 129.1 fundur 542#B Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)#, GÖ
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 127. lþ.

[20:48]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Góðir landsmenn. Að undanförnu hafa verið miklar annir hér í þingsölum, mörg mál, stór sem smá, hafa verið afgreidd í mismikilli sátt. Enn eru eftir nokkur mál sem krefjast talsverðrar umræðu og um nokkur þeirra er mikill ágreiningur milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Málefni útlendinga er eitt þeirra, heildarlöggjöf sem á að vísa fram á veginn, á að vera í takt við aðrar þjóðir og á að vera í takt við tímann. Svo er að sjálfsögðu ekki og margar breytingar þyrfti að gera ef svo mætti vera.

Ég vil minna á eitt lítið mál, ef lítið skyldi kalla, og búið er að afgreiða sem lög frá Alþingi. Það lýtur að kosningarrétti útlendinga og norrænna borgara til sveitarstjórna. Þar var ákveðið að við ein Norðurlandaþjóða skyldum ekki bjóða norrænum borgurum sama rétt og við höfum á öðrum Norðurlöndum. Við veitum þeim minni rétt hér heima en við fáum í heimalandi þeirra. Þeir þurfa að bíða í þrjú ár meðan við fáum að kjósa um leið og við fáum lögheimili í öðru norrænu landi.

Af hverju teljum við okkur svo sérstök að við eigum að fá allt en ekki láta meira af hendi en nauðsyn krefur? Þetta tel ég vera mismunun þó ekki séu þetta samlandar mínir sem eiga í hlut, heldur norrænir frændur. Auðvitað eigum við að virkja þetta fólk sem allra fyrst til að taka þátt í málum síns sveitarfélags, bæði með því að gefa kost á sér til framboðs og taka þátt í mótun á nánasta umhverfi sínu. Við eigum að láta af þessari sérhyggju og horfa í átt til jafnræðis.

Útlendingar sem hingað koma hafa verið nauðsynlegt vinnuafl fyrir Ísland. Þeir hafa unnið þá vinnu sem við höfum ekki viljað vinna. Stundum hefur verið talað um að sennilega legðust heilu byggðirnar í eyði væru þeir ekki til staðar til þess að vinna í sjávarútvegi. Við eigum að þakka fyrir þetta og við eigum að tryggja hag þeirra sem best í samræmdri löggjöf. Við eigum að bjóða þá velkomna í samfélagið en ekki líta á þá sem einhverja afgangsstærð með minni og önnur réttindi en okkar. Þeir greiða hér skatta og skyldur, eiga fjölskyldur og húsnæði, njóta menningar og tannhjól efnahagslífsins liti öðruvísi út ef við hefðum ekki notið krafta þeirra.

Góðir áheyrendur. Ein af þeim hugmyndum sem hafa mjög rutt sér til rúms hér á landi er íbúalýðræði og íbúaþing. Reykjavíkurborg hefur nýtt sér þetta, t.d. vegna vinnu við skipulag og þróun á Kjalarnesi þar sem þróa á vistvæna byggð. Þar komu allir íbúar að og lögðu sitt af mörkum og forgangsröðuðu verkefnum. Íbúaþing er skilvirk leið til þess að hafa samráð um stefnumótun, skipulag og önnur verkefni ríkis og sveitarfélaga. Með því að halda íbúaþing gefst yfirsýn yfir hag íbúa til ákveðinna þátta og hug þeirra til þeirra og verkefni sem verið er að vinna í nánasta umhverfi þeirra. Það er t.d. auðvelt að sjá fyrir sér vinnu með öldruðum og öryrkjum og samtökum þeirra þar sem mál þeirra væru skoðuð heildstætt, horft til lausna fremur en vandamála og komið með tillögur til úrbóta.

Kosningarrétturinn er okkur helgur. Án hans er ekkert lýðræði. Það er afar mikilvægt að nýta sér hann, hvort sem kosið er til þings eða sveitarstjórna. Frakkar vöknuðu upp á dögunum við vondan draum. Kosningaþátttaka var með minnsta móti og margir höfðu gleymt að kjósa í forkosningum til forsetaembættisins. Jean-Marie Le Pen lenti í 2. sæti, öllum að óvörum. Le Pen hefur verið talsmaður kynþáttahaturs, fordóma og öfga og reyndar hlotið dóm fyrir ummæli sín í garð gyðinga. Eitt er víst að franska þjóðin er miður sín vegna þessa og mikill lærdómur í þessu falinn. Kosningarnar í Frakklandi sýna að ákveðin þróun á sér stað í Evrópu og þetta er ekkert einangrað fyrirbæri. Skemmst er að minnast þess sem gerðist í kosningum í Danmörku og Austurríki. Gegn þessari þróun þarf að berjast með öllum tiltækum ráðum og það þurfa fleiri að vakna en Frakkar.

Við vitum að hatur og fordómar ala af sér ofbeldi. Við eigum ekki að stuðla að aðgreiningu, við eigum að stuðla að samstöðu, samstöðu gegn fordómum með uppfræðslu og samræðum milli ólíkra hópa. Við eigum að taka virkan þátt í að uppræta fordóma gagnvart þeim sem eru öðruvísi, meta margbreytileikann, sjá ríkidæmið í honum. Við eigum ekki að mismuna fólki eftir uppruna, litarhætti, trúarbrögðum eða stöðu. Sinnuleysi og andvaraleysi er helsti óvinur lýðræðisins.

Góðir landsmenn. Lýðræði og mannréttindi eru fyrir okkur Íslendingum sjálfsögð, en svo er ekki hjá öllum þjóðum, því miður. Við sem þjóð eigum að leggja okkar af mörkum og ríkisstjórn Íslands á að gera allt sem í hennar valdi stendur til þess að stöðva ofbeldi og þau voðaverk sem framin eru gegn varnarlausu fólki í Palestínu. Þar eru saklausir borgarar teknir af lífi, mannréttindi fótumtroðin og að engu höfð, alþjóðasamningar þverbrotnir, meinað er að sinna særðum og jarða látna. Vatn, skolp, vegir, híbýli, menntastofnanir, þjónustustofnanir, allt er lagt í rúst, engu er eirt.

Ef einhvern tímann hefur verið þörf á alþjóðlegum friðarsveitum, þá er það nú. Það hlýtur að vera krafa alþjóðasamfélagsins í dag. Ekki er hægt að horfa upp á þetta öllu lengur. Ríkisstjórn Íslands á að láta til sín taka með afgerandi hætti. Borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi eru fótumtroðin. Það á að sjálfsögðu að gera kröfu til Ísraela að þeir framfylgi ályktunum Sameinuðu þjóðanna um stofnun sjálfstæðs ríkis Palestínu og þeir virði réttindi palestínskra flóttamanna, en slíkt hefur að sjálfsögðu ekki verið gert þegar horft er til atburðanna í Jenín.

Góðir Íslendingar. Við skulum hafa hugfast að heimurinn er líka hér heima. Við erum þátttakendur í alþjóðasamfélaginu og berum skyldur í samræmi við þá samninga sem við höfum undirritað og gerst aðilar að. Við eigum að standa vörð um mannhelgi og mannréttindi, um rétt fólks til betra lífs. --- Ég óska landsmönnum gleðilegs sumars.