Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 24. apríl 2002, kl. 20:54:38 (8228)

2002-04-24 20:54:38# 127. lþ. 129.1 fundur 542#B Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)#, menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 127. lþ.

[20:54]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Á undanförnum tíu árum hefur orðið gagnger breyting á íslensku efnahagslífi og samfélaginu öllu. Atvinnulífið hefur styrkst stórlega og lífskjör hafa batnað mun hraðar en í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við. Eitt af því besta í þeirri þróun þegar litið er til lengri tíma er að fagþekking hefur stórlega aukist í fyrirtækjunum. Náðst hefur samspil milli atvinnulífs, rannsókna og vísinda sem styrkir alla aðila. Á tíu ára tímabili hafa heildarútgjöld vegna rannsókna og þróunar farið úr rúmlega 6 milljörðum í rúma 20 milljarða á verðlagi ársins 2001. Hlutur fyrirtækjanna í framlögum til rannsókna og þróunar hefur vaxið úr 21,8% árið 1991 í 64,2% árið 2001. Við erum nú meðal þeirra þjóða heimsins sem hlutfallslega verja mestu fjármagni til rannsókna og þróunar. Störfum í þessum geira atvinnulífsins hefur fjölgað úr 1.200 árið 1991 í 2.500 árið 2001. Vísindin hafa eflt atvinnulífið og atvinnulífið hefur styrkt vísindin. Þessi samskipti hafa verið mikill aflvaki í þjóðfélaginu.

Við lifum á tímum mikilla breytinga. Aðlögunarhæfni og viðbragðsflýtir eru lykilorð í heimi nútímans. Menntun, rannsóknir og vísindi eru nú drifkraftur breytinga og framþróunar í atvinnulífinu. Í samræmi við þetta hefur ríkisstjórnin ákveðið að þessir málaflokkar fái þann sess sem þeim ber við stefnumótun stjórnvalda í efnahags- og atvinnumálum. Lögð hafa verið fram þrjú vísindafrumvörp þar að lútandi. Þau nýmæli sem í frumvörpunum felast eru mikilvæg, þau eru í fyrsta lagi forsenda þess að við getum nýtt betur þá fjármuni sem til rannsókna og tækniþróunar renna. Í öðru lagi eru þau forsenda þess að hægt sé að auka stuðning við vísindi og rannsóknastarfsemi.

Á sama tíma og unnið er að því að efla viðbragðsflýti og samkeppnishæfni atvinnuveganna finnum við Íslendingar þörf fyrir rótfestu. Við erum ekki einir um það. Og ræturnar liggja í menningunni og menningararfinum. Eftir því sem hraðinn vex og samræming í alþjóðlegum viðskiptum eykst verður menningaráhugi fólks meiri. Að sama skapi eflist áhugi og skilningur á menningarlegri sérstöðu. Það þýðir að menning fær aukna efnahagslega þýðingu.

Íslendingar hafa mikla sérstöðu á sviði menningarmála. Í haust er leið kynnti samgrh. skýrslu nefndar um menningartengda ferðaþjónustu. Nefndin fjallaði um sóknarfæri á sviði menningartengdrar ferðarþjónustu og gerði tillögur um þau skref sem nauðsynleg eru til að þessi tegund ferðaþjónustu nái að skjóta rótum. Með hliðsjón af því að íslensk ferðaþjónusta verði byggð upp á tveimur meginstoðum, íslenskri náttúru og íslenskri menningu og samverkan þessara tveggja þátta, hafa samgrh. og menntmrh. nú sammælst um að stuðla að vexti og viðgangi menningartengdrar ferðaþjónustu. Megináherslan verður lögð á að kynna menningu þjóðarinnar, náttúru landsins og gagnkvæm áhrif þessara tveggja þátta. Er ljóst að bæði ferðaþjónustan og menningarstarfsemin munu eflast til muna við þær nýju áherslur.

Mjög veigamikill áfangi í að efla ferðaþjónustu og menningarsamstarf náðist við undirritun samnings um byggingu tónlistarhúss og ráðstefnumiðstöðvar í Reykjavík. Tónlistar- og ráðstefnuhús er forsenda þess að Ísland geri sig gildandi á ráðstefnumarkaði sem er einn mikilvægasti og arðvænlegasti markaður ferðaþjónustunnar. Ríkið og Reykjavíkurborg taka þar á sig umtalsverðar skuldbindingar. Undirbúningur þeirra framkvæmda hefur tekið langan tíma sem eðlilegt er, því hér er um fjárfreka og stóra framkvæmd að ræða.

Vinna við undirbúning framkvæmda við menningarhús á landsbyggðinni hefur gengið vel, en þar er einnig um mjög metnaðarfullar áætlanir að ræða. Í sumum tilfellum eru hugmyndafræði og undirbúningsvinna á lokastigi. Ég mun beita mér fyrir því að áætlun um vel skilgreinda framkvæmda\-áfanga verði sett fram á árinu. Í krafti slíkrar framkvæmdaáætlunar geta ríki og heimamenn stillt saman strengi sína og gert áætlanir um fjármögnun og framkvæmdir. Ljóst er að metnaðarfullar áætlanir um menningarhús munu reyna á fjárhag sveitarfélaga, ekki síður en á ríkissjóð. Hér er því um mikla fjárfestingu að ræða fyrir alla aðila og brýnt að verkefnið í heild sé vandað og stuðli að fjölbreyttara menningarlífi á landsbyggðinni og skili ferðaþjónustunni auknum tekjum.

Á undanförnum árum hefur vaxandi áhersla verið lögð á uppbyggingu safna víða um land. Eitt af metnaðarfyllstu verkefnum á sviði safnamála er að sjálfsögðu endurbygging Þjóðminjasafnsins. Að gefnu tilefni er rétt að taka fram að ég hef ekki ástæðu til að ætla að kostnaður við þetta verkefni hafi farið úr böndum. Ég legg hins vegar megináherslu á að þegar safnið verður opnað, verði þar boðið upp á nútímalega sýningu í safnahúsi sem við getum verið stolt af.

Megináhersla þeirra sem á landsbyggðinni búa tengist menntun og aðstöðu til menntunar. Tilkoma fjarnáms hefur gjörbreytt aðgangi landsmanna að menntun og símenntunarmiðstöðvar hafa vaxandi hlutverki að gegna. Þeirri uppbyggingu verður haldið áfram og þá er hafin endurskoðun á reglum um jöfnun námskostnaðar í því skyni að sníða af þeim reglum agnúa sem í ljós hafa komið.

Það er stefna menntmrn. að leita leiða til að stytta nám til stúdentsprófs. Hér er um flókið viðfangsefni að ræða sem hefur áhrif á öll skólastig. Verkefnisstjórn hefur verið skipuð og verður leitað víðtæks samráðs við alla aðila málsins.

Góðir áheyrendur. Fram undan er mikið átak í uppbyggingu vísinda, mennta- og menningarmála og stórir áfangar í sjónmáli. Í heild munu þessi verkefni, efla atvinnulíf okkar og samfélag og stuðla að enn hraðari breytingum og jákvæðari en við höfum orðið vitni að á undanförnum áratug. Það eru bjartir tímar fram undan. --- Góðar stundir og gleðilegt sumar.