Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 24. apríl 2002, kl. 21:22:16 (8232)

2002-04-24 21:22:16# 127. lþ. 129.1 fundur 542#B Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)#, GÁS
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 127. lþ.

[21:22]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Góðir landsmenn. Það er augljóst hverjum manni að ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. sem hefur verið við völd síðustu sjö árin er á síðasta snúningi. Vaxandi pirringur milli stjórnarflokkanna er undirliggjandi. Í hverju málinu á fætur öðru þar sem klúður og klaufaskapur ræður ríkjum eru stjórnarliðar hér í þinginu meira og minna hættir að reyna að verja gjörðir sínar. Það hefur enda komið á daginn í þessum umræðum í kvöld að sannfæringarkrafturinn er ekki beint í fyrrirúmi hjá ráðherrum eða stjórnarliðum öðrum í ræðum þeirra. Öllu heldur eru þeir afsakandi og til að mynda var það eina sem stóð upp úr ræðu félmrh. að hann lagði til atlögu við eigin formann, utanrrh. þjóðarinnar, í afstöðu sinni til Evrópusambandsins. Þetta er talandi dæmi um það ástand sem nú ríkir á stjórnarheimilinu.

Ég ætla að stikla á stóru. Hneykslismálin í kringum Landssímann og uppgjöf samgrh. í þeim efnum eru ofarlega í hugum landsmanna. Þar voru á ferðinni skólabókardæmi um það hvernig ekki á að stýra og stjórna málefnum þjónustufyrirtækis í eigu þjóðarinnar. Svo mikið var klúðrið að þetta annars prýðilega fyrirtæki reyndist óseljanlegt á alþjóðamarkaði þrátt fyrir að verðmæti þess hafi fallið um tugi milljarða króna. Þarf meira að segja?

Forstjóri Þjóðhagsstofnunar leyfir sér að leggja fram þjóðhagsspá sem er lögum samkvæmt. Forsrh. er óánægður með spána, finnst hún ekki nægilega jákvæð. Hann bregst við með því að leggja stofnunina niður. Það má hvergi sjást kusk á hvítflibbanum.

Fyrir nokkrum árum ákvað ríkisstjórnin að veita einu fyrirtæki, Íslenskri erfðagreiningu, einkaleyfi á öllum heilsufarsupplýsingum Íslendinga. Þetta vakti athygli og gagnrýni, ekki bara hér á landi heldur víða um lönd. En það eitt var ekki nóg. Nú ætlar ríkisstjórnin líka að veita þessu sama fyrirtæki ríkisábyrgð vegna áformaðra fjárfestinga þess. Heila 20 milljarða, 20 þúsund millj. kr. af fjármunum almennings á að leggja undir. Enginn veit hver áhættan er. Enginn veit hver ávinningurinn er. Ekki nokkur maður getur svarað því hvaða fordæmi þetta skapar og hversu miklar fjárhæðir verði þá um að tefla þegar önnur fyrirtæki fara fram á svipaða fyrirgreiðslu. Og svo hefur enginn hugmynd um hvort þetta standist ákvæði alþjóðasamninga sem við höfum undirgengist. Jafnvel efast sumir um að þessi vinargreiði upp á 20 milljarða króna standist jafnræðisákvæði stjórnarskrárinnar. En allt þetta skiptir ríkisstjórnina engu máli. Það á samt að keyra málið í gegn.

Ríkisstjórnin var komin út í ógöngur með efnahagsmálin. Verðbólga var komin úr böndum, gengið komið í himnahæðir og okurvextir innheimtir af lántakendum til viðbótar við verðtrygginguna, það séríslenska fyrirbæri. Alþýðusamband Íslands sá að við svo búið mátti ekki standa og hóf mikla og þakkarverða baráttu til þess að snúa þessari öfugþróun við. Það tókst Alþýðusambandinu að vissu marki. Hins vegar er ekki útséð um stöðu og þróun efnahagsmálanna og aukin vanskil og skuldasöfnun almennings eru hættumerki sem ástæða er til að vara við. En ríkisstjórnin er stikkfrí og bíður þess er verða vill.

Einhvers staðar hlýtur samt þessi ríkisstjórn að láta til sín taka þótt hún keyri á síðustu bensíndropunum og sé búin að nýta öll sín varadekk. Er ekki allt í standi í byggðamálunum? Finna landsmenn ekki vel fyrir því hversu fast er tekið á þeim málum? Ónei, herra forseti, þannig er það ekki, því miður. Álver í Reyðarfjörð er horfið af sjónarsviðinu, í bili a.m.k. Fólk streymir enn af landsbyggðinni á suðvesturhornið. Ríkisstjórnin er ráðalaus.

Hægri hallinn í velferðarmálunum er allsráðandi. Það dregur úr þjónustu við almenning enda þótt ríkisútgjöld hækki stórlega ár frá ári. Margir aldraðir, öryrkjar og aðrir þeir sem höllum fæti standa finna það á eigin beinum að þeir standa ekki framarlega á forgangslista þessarar ríkisstjórnar.

Hvað með önnur mál? Eru ekki löggæslumálin í góðu lagi, eða hvað? Er ekki almenn ánægja með að viðhaldið er óréttætinu í sjávarútveginum þar sem enn og aftur á að festa gjafakvótakerfið í sessi? Eru ekki allir glaðir með að borga hæsta verð í Evrópu fyrir matvæli? Er almenningur ekki afskaplega ánægður vegna þess metnaðarleysis sem ríkjandi er í menntamálum þjóðarinnar? Voru menn ekki á toppi tilverunnar vegna tilviljanakenndrar stefnu í umhverfismálum? Er ekki allt í stakasta lagi? Nei, því miður, herra forseti, veruleikinn er sá í áðurnefndum málaflokkum og fjölmörgum fleirum að mikilvægt er að taka til hendi og færa mál til betri vegar.

Ég dreg ekki í efa eitt andartak að stjórnarherrarnir vilji vel. Vandinn er einfaldlega sá að þeir geta ekki betur. Þeim er þrotinn kraftur og þrek. En þessu er hægt að breyta. Það vorar jafnan að vetri loknum. Samfylkingin, flokkur jafnaðarmanna, er tilbúin í verkin. Landsmenn munu ganga til sveitarstjórnarkosninga að mánuði liðnum og það er eingöngu eitt ár í næstu þingkosningar sem betur fer. Þá geta landsmenn lagt sínar línur. Þá breytum við rétt. Við þurfum ný viðhorf. Við þurfum kraft og við þurfum þor. Við þurfum að nýta tækifærin. Við þurfum lífssýn og úrræði okkar jafnaðarmanna. Við þurfum Samfylkinguna að landstjórninni og við stjórn sveitarfélaga vítt og breitt um landið allt. Það skiptir nefnilega máli hverjir stjórna. --- Góðar stundir.