Afgreiðsla mála fyrir þinghlé

Föstudaginn 26. apríl 2002, kl. 10:10:10 (8244)

2002-04-26 10:10:10# 127. lþ. 130.91 fundur 550#B afgreiðsla mála fyrir þinghlé# (aths. um störf þingsins), KVM
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 127. lþ.

[10:10]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Orð síðasta ræðumanns voru ágæt. Við erum ekkert of góð til að vinna eins og annað fólk og ég vona að við séum að gera það flest. Það er einmitt það sem var verið að lýsa eftir að við mundum gera en ekki að þingi yrði slitið og fólk færi heim allt í einu núna án þess að ræða þau mál til hlítar sem þarf að ræða, mikilvæg mál eins og sjávarútvegsmál. Ef það er rétt að ekki eigi t.d. að fjalla um byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005, ef það er ekki útlit fyrir það þá líst mér ekki á störf þingsins. Ég vona að það sé ekki rétt. Við hljótum náttúrlega að ræða þessi mál. En þessi umræða skapast af því þegar hæstv. forseti þingsins var að tala um það í útvarpinu að það eigi jafnvel að slíta þinginu núna á mánudaginn. Það getur varla verið eðlilegt að tala þannig ef svo kemur annar hv. þm. Sjálfstfl. og segir að við getum rætt fram á sumar. Auðvitað er það allt í lagi. Auðvitað er líka allt í lagi að ræða um þjóðmálin þó að sveitarstjórnarkosningar séu fram undan. Það er enn þá frekar tilefni til þess og þá sérstaklega hver staða sveitarfélaganna í landinu sé undir ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl.