Afgreiðsla mála fyrir þinghlé

Föstudaginn 26. apríl 2002, kl. 10:12:57 (8246)

2002-04-26 10:12:57# 127. lþ. 130.91 fundur 550#B afgreiðsla mála fyrir þinghlé# (aths. um störf þingsins), LB
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 127. lþ.

[10:12]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Gleðilegt sumar. Það er alveg ljóst að eftir áætlun þingsins verður ekki lengur unnið. Það liggur fyrir. Áætlunin gerði ráð fyrir því að við mundum hætta þingstörfum á miðvikudaginn. Sá dagur er liðinn og því er alveg ljóst að setjast þarf niður og semja um nýja áætlun. Þess vegna eru menn að kalla eftir samningum um það. Það er enginn að kvarta undan því að þurfa að fara yfir þau mál sem hér á að ræða, ekki nokkur einasti þingmaður. En þetta þarf að liggja fyrir.

Hins vegar þykir mér heldur miður þegar menn koma hér upp og tala um það að ef ræða eigi störf þingsins, hvernig eigi að ljúka því o.s.frv., þá sé það eitthvert brot gegn meiri hlutanum, eitthvert brot gegn lýðræðinu. Ég vil segja það, virðulegi forseti, að þegar gengið er til kosninga þá er ekki kosinn einhver sérstakur meiri hluti. Það eru einstakir hv. þm. sem eru kosnir á þing. Síðan koma forustumenn eða heilu þingflokkarnir sér saman um hverjir ætli að vinna saman. Ég verð því að segja, virðulegi forseti, að hv. þm. Pétur H. Blöndal verður að fara betur yfir þær hugmyndir og hugsanir sem hann ákveður að koma á framfæri í ræðustól en hann gerði áðan.