Afgreiðsla mála fyrir þinghlé

Föstudaginn 26. apríl 2002, kl. 10:16:39 (8248)

2002-04-26 10:16:39# 127. lþ. 130.91 fundur 550#B afgreiðsla mála fyrir þinghlé# (aths. um störf þingsins), HBl
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 127. lþ.

[10:16]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég heyrði utan að mér að hv. 2. þm. Vestf., Karl V. Matthíasson, hefði verið að láta í ljósi undrun sína yfir því að ég skyldi nefna mánudag í stuttu útvarpsspjalli í morgun. Það var vegna þess að áhrifamesti þingmaður Samfylkingarinnar hafði skotið því að mér í fyrradag að mánudagurinn væri líklegur dagur og ég hef ævinlega trúað þeim þingmanni og treyst fyrir mikilsverðum yfirlýsingum.

Ég vil að öðru leyti segja að ég á von á því að þessu þinghaldi, eins og verið hefur, muni takast að ljúka með sóma. Ég geri mér vonir um að það megi takast jafnvel á mánudag. Ég yrði auðvitað mjög glaður ef það tækist í dag eða á morgun en mér fyndist það vera mikil bjartsýni að hyggja að það kynni að takast. En ég legg áherslu á að mikil verkefni bíða þingmanna úti um allt land. Þeir hafa verið boðaðir á fjölda funda. Það eru mörg verkefni sem þeirra bíða á næstu vikum og mánuðum og þess vegna er mikill áhugi á því víða í þingsal að þingmenn geti snúið sér að þeim. Það er auðvitað algjörlega út í hött ef einhver lætur sér detta í hug að þingmannsstarfið sé einungis það að vera innan veggja Alþingis eða á nefndafundum og má segja um slíkar yfirlýsingar að sá sem heldur því fram hefur misskilið sjálfan sig og þingstarfið.