Ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar

Föstudaginn 26. apríl 2002, kl. 11:12:00 (8251)

2002-04-26 11:12:00# 127. lþ. 130.11 fundur 714. mál: #A ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar# frv. 87/2002, GunnB
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 127. lþ.

[11:12]

Gunnar Birgisson:

Herra forseti. Hér er verið að fjalla um frv. til laga um heimild til handa fjmrh., fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast útgáfu skuldabréfa vegna fjármögnunar nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar.

Það er búið að tala mikið um þetta mál í þingsölum og víða annars staðar. Kannski væri rétt að fara aðeins yfir málið og staðreyndir þess.

Í fyrsta lagi: Hvernig er staðan? Hvar er starfsemin, líftæknistarfsemi þessa fyrirtækis, deCODE? Hún er í Bandaríkjunum og hún er hér á landi.

Við stofnun Íslenskrar erfðagreiningar varð bylting í líftæknigeiranum hér á landi, nokkuð sem menn töluðu mikið um á níunda áratugnum og átti öllu að bjarga í íslensku efnahagslífi. Nú er loksins komið að því. Hér á landi starfa um 600 manns á vegum Íslenskrar erfðagreiningar og mun fleiri í Bandaríkjunum.

Önnur staðreynd sem rétt er að halda til haga eru nýleg kaup Íslenskrar erfðagreiningar á MediChem í Bandaríkjunum, bandarísku efnafræðifyrirtæki með 100 starfsmönnum. Menn hafa ruglað því saman að flytja ætti það fyrirtæki hingað til lands. Svo er ekki. Með þessu er meiningin að fara í lyfjaþróun hér á landi og mynda nýja deild í deCODE, þ.e. stækka Íslenska erfðagreiningu.

DeCODE genetics er á mörkuðum, á Nasdaq, ameríska verðbréfamarkaðnum Wall Street. Sé farið yfir skýrslur greiningarfyrirtækja á Wall Street er álit þeirra nánast samhljóða. Af því að hér hefur verið talað um slæma stöðu Íslenskrar erfðagreiningar vil ég benda á að staða fyrirtækisins er ekki slæm. Ef við skoðum niðurstöður fyrsta fyrirtækisins og eins þess virtasta í þessum bransa, Lehman Brothers, telja þeir að fyrirtækið ætti að vera í 12 dollurum á hlut í framtíðinni. Þeir gefa fyrirtækinu góða einkunn.

Svo er annað fyrirtæki, J.P. Morgan. Þeir fara líka yfir málið og telja að fyrirtækið eigi fljótlega að geta farið í 12 dollara á hlut og gefa því líka góða einkunn. Hér er einnig skýrsla frá Robertson Stephens þar sem þeir segja að 12 mánaða verð eigi að vera 10 dollarar á hlut. Í öllum þessum skýrslum segir að deCODE hafi gefið út plön og í öllum þeim skýrslum segir að þeir hafi náð þeim áföngum sem kveðið er á um, og séu heldur á undan heldur en hitt.

[11:15]

Svo er það að lokum Morgan Stanley. Í skýrslu þeirra er gefin upp kostnaðaráætlun eða viðskiptaáætlun fyrirtækisins til ársins 2007. Þar sést að árið 2005 er reiknað með að fyrirtækið fari að skila hagnaði, 2004 verði það ár sem fyrirtækið mun vera í jafnvægi.

Það er líka rétt að halda til haga þeirri staðreynd að fyrirtækið er með 167 millj. dollara á bankabókum þannig að það er ekki að verða gjaldþrota eins og hér hefur verið talað um. Það hefur verið rætt um áhættuna og að 90% möguleikar séu á því að fyrirtækið fari á hausinn o.s.frv. Ég held að menn þurfi aðeins að kynna sér það áður en þeir leggja í slíkar yfirlýsingar.

Ég hef nú ekki farið efnislega í afstöðu mína til málsins, en í nál. meiri hluta efh.- og viðskn. stendur að áður en af þessu verði þurfi samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA. Þar stendur, með leyfi forseta:

,,Ábyrgðin er háð samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA, en stjórnvöld telja að hún uppfylli skilyrði ríkisaðstoðar til rannsóknar- og þróunarverkefna eins og þau eru tilgreind í leiðbeiningarreglum stofnunarinnar um ríkisaðstoð. Ef samþykki stofnunarinnar fæst ekki fyrir því að ábyrgðin sé sérstök ríkisaðstoð til rannsóknar- og þróunarverkefnis telja stjórnvöld að ábyrgðin geti jafnframt uppfyllt skilyrði sem sett eru fyrir veitingu almennra ríkisábyrgða í leiðbeiningarreglum stofnunarinnar, en þau eru sambærileg þeim skilyrðum sem kveðið er á um í lögum nr. 121/1997, um ríkisábyrgðir.``

Það er því alveg klárt hvernig það lítur út.

Það er spurning hvernig þetta er hjá öðrum, hvernig ríkisábyrgðir eru hjá öðrum þjóðum, Evrópubandalaginu og annars staðar. Ég er hér með spurningu frá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur sem er með okkur í efh.- og viðskn. Hún spyr um ríkisábyrgðir annars staðar.

Með leyfi forseta er rétt að lesa kannski upp það sem hefur gerst í því hjá Evrópubandalaginu. Í svari fjmrn. til hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur stendur:

,,8. maí 2001 heimilaði framkvæmdastjórnin ríkisaðstoð til Philipp Holzmann AG, þýsks byggingarfyrirtækis, í formi ríkis\-ábyrgðar á 76,7 millj. evra. Heildarfjárfestingarkostnaður var að fjárhæð 1,5 billj. evra.``

Annað dæmi, með leyfi forseta:

,,18. júlí árið 2001 heimilaði framkvæmdastjórnin 27,6 millj. evra ríkisaðstoð til Kartogroup Deutschland GmbH, m.a. í formi ríkisábyrgðar vegna uppsetningar á verksmiðju. Heildarfjárfestingarkostnaður var 85 millj. evra og var aðstoðin í formi ábyrgðar á 35% af heildarfjárfestingarkostnaði.``

Þriðja dæmið:

,,8. maí 2001 heimilaði framkvæmdastjórnin ríkisaðstoð til rannsókna- og þróunarverkefnis í formi styrks, ríkisábyrgðar og láns til Mikroelektronik Center í Danmörku að fjárhæð 6,7 millj. evra.``

Síðan eru hér styrkir og ríkisábyrgðir á sviði lyfjaiðnaðar, með leyfi forseta:

,,8. maí 2001 heimilaði framkvæmdastjórnin fjárfestingarstyrk til Wacker Chemie GmbH í Þýskalandi að fjárhæð 119 millj. evra. Um var að ræða 26% af heildarfjárfestingarkostnaði og var áætlað að verkefnið hefði í för með sér 275 ný störf.``

Enn eitt dæmið:

,,18. júlí 2001 heimilaði framkvæmdastjórnin fjárfestingaraðstoð til lyfjafyrirtækisins Hellenic Petroleum í Grikklandi að fjárhæð 38 millj. evra til uppbyggingar nýrrar starfsemi. Var áætlað að verkefnið skapaði 170 ný störf. Var ríkisaðstoðin 31% af heildarfjárfestingarkostnaði.

26. júlí 2000 heimilaði framkvæmdastjórnin R&D ríkisaðstoð sem austurrísk stjórnvöld veittu til Boehringer til lyfjaþróunar vegna krabbameinsrannsókna og fleiri sjúkdóma.``

Evrópubandalagið hefur lagt áherslu á að styrkja þennan geira þar sem hann hefur dregist verulega aftur úr bandarískum fyrirtækjum á sviði þróunarrannsókna og lyfjaþróunar.

Þá er líka rétt að fara yfir það að þetta mál bar skjótt að og kannski hefur tíminn til að fjalla um það ekki verið nægur. (SJS: Nú!) En það er nú búið að eyða miklum tíma í þetta (Gripið fram í.) nú þegar. Það er m.a. búið að framlengja þingið út af þessu máli þannig að vonandi fáum við allan þann tíma sem við þurfum.

Við fengum mjög góða yfirferð frá fulltrúum fjmrn. og ríkisendurskoðanda í efh.- og viðskn. (Gripið fram í: Það var frábært.) Þeir höfðu farið mjög vel ofan í málið og hafa svarað öllum þeim spurningum sem þeir hafa verið beðnir um og gert glögga grein fyrir málinu.

Síðan er rétt að fara yfir enn eina staðreynd málsins. Ef af þessu verður mun þetta skapa 250--300 ný störf. Þetta eru hálaunastörf. Þetta er hátækniiðnaður og stuðlar náttúrlega enn frekar að hagvexti og bættum lífskjörum í þessu landi. Allir vilja það. Enginn ber á móti því.

Þá kemur kannski að því hver sé ástæðan fyrir aðkomu ríkisins að þessu máli. Hvers vegna? Fyrirtækið á náttúrlega möguleika á að setja upp þessa deild sína í Bandaríkjunum og leita eftir fjármagni eftir öðrum leiðum eða þá að koma með hana hingað til lands og gera það með þessum hætti. Ég held að allir séu sammála um að þetta mun hafa mjög jákvæð áhrif á íslenskt efnahgslíf í öllu falli.

Það er rétt aðeins að fara yfir þá punkta sem koma fram í greinargerð með frv. um ástæður fyrir aðkomu ríkisins. Ég held að það lýsi málinu mjög vel, með leyfi forseta:

,,Sérhæft verkefni. Með því að hefja lyfjaþróun á grundvelli erfðafræði er ljóst að Ísland væri að skipa sér í flokk með þróuðustu ríkjum á sviði hátækni. Lyfjaþróun á grundvelli erfðafræði er ein af þeim hátæknigreinum sem kallaðar hafa verið ,,iðnaður 21. aldarinnar``.

Staðsetning verkefnisins. Ein meginforsenda þess að unnt verði að starfrækja verkefnið á Íslandi er aðkoma ríkisvaldsins með þeim hætti sem hér er lagt til.

Efnahagsleg áhrif. Verkefnið hefur jákvæð efnahagsleg áhrif. Þegar litið er til þjóðhagslegra áhrifa er varlegt að ætla að margfeldisáhrif 250--300 starfsmanna í frumframleiðslu, rannsóknum og þróun séu a.m.k. tvöföld miðað við bein efnahagsleg áhrif.

Stærð verkefnisins. Verkefnið er af þeirri stærðargráðu að eðlilegt er að leitað sé eftir samstarfi við stjórnvöld.

Nýsköpun. Um er að ræða verkefni á sviði nýsköpunar, þekkingar- og hátækniiðnaðar sem er til þess fallið að auka fjölbreytni í atvinnulífi, efla menntun og þekkingarstig og gera landið eftirsóknarverðara fyrir hátækni- og háþekkingarfyrirtæki.``

Ég held að allir séu sammála um að hið besta mál sé að fá þessa starfsemi inn í landið. Ég hef ekki heyrt nokkurn mann tala á móti því. Það sem menn greinir á er hvort það eigi að vera ríkisábyrgð á láninu og hver áhættan sé. Líka hefur verið talað um að viðskiptaáætlun fyrir þessa starfsemi vanti.

Í svörum fjmrn. við spurningum hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur kemur fram kostnaðaráætlun eða viðskiptaáætlun vegna uppbyggingar á lyfjaþróunardeild Íslenskrar erfðagreiningar. Þetta er áætlun til ársins 2008. Þar kemur fram að heildarfjárfestingarþörfin eða fjármagnsþörfin, bæði í rekstur og fjárfestingar, sé 36 milljarðar kr. Það er reiknað með 8 milljörðum í fjárfestingar, 5,2 í vexti og 23 í þróunarstarf. Hér er ekki getið um tekjur enda er spurning hvernig menn fara með slíkt, hvenær þeir selja og annað. En menn geta hugsað sér það þannig að lyfjaframleiðslu er skipt í þrennt. Rannsóknir og þróun gætu verið fyrsti þriðjungurinn. Annar þriðjungurinn gæti verið lyfjaþróunin og síðasti þriðjungurinn markaðssetning og framleiðsla. Síðan er spurning hvenær þessi lyfjafyrirtæki selja framleiðslu sína. Ef við tökum þetta á skalanum tíu, selja þau þá þegar þau eru komin 50% af leiðinni eða 60--70% af leiðinni eða kaupa þau af öðrum sem eru komin t.d. 20% af leiðinni og bæta svo við og selja svo? Það eru allir möguleikar í þessu.

Eins og þetta dæmi hefur verið sett hér upp hjá andstæðingum þess er það annaðhvort allt eða ekkert, hér séu menn í einhverri rússneskri rúllettu. Það er ekki um slíkt að ræða.

Þegar þetta mál kom hér fyrst var ég einn af efasemdarmönnum hvað það varðaði. En oft er betra að spara yfirlýsingarnar og reyna að kynna sér málið en að fara á torg og tala málið niður. Eftir að hafa kynnt mér málið er ég því fylgjandi.

Svo er það spurningin um áhættu í þessu máli. Eftir að hafa farið gegnum ársreikninga fyrirtækisins deCODE og þá möguleika sem það hefur upp á að bjóða tel ég að áhættan sé ekki mjög mikil fyrir ríkið. Við erum að tala um að þetta sé sjö ára mál, sjö ára ábyrgð, og fyrst er náttúrlega gengið að fyrirtækinu áður en gengið er að ríkinu.

Það sem hefur kannski hins vegar staðið helst í mér er fordæmið fyrir slíkum málum. Ég er ekki stuðningsmaður mikillar ríkisábyrgðar nema í undantekningartilfellum. Úr nál. frá efh.- og viðskn. er rétt að lesa klausu um þetta mál, með leyfi forseta:

,,Töluvert var um það rætt í nefndinni hvort veita ætti öðrum fyrirtækjum sambærilega fyrirgreiðslu og fyrirtækið Lyfjaþróun hf. lagði fram upplýsingar þar sem fram kemur að það telur sig í sambærilegri starfsemi og Íslensk erfðagreining ehf. Meiri hlutinn bendir á að þegar ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA liggur fyrir um hvort ábyrgðin uppfylli skilyrði ríkisaðstoðar til rannsóknar- og þróunarverkefna verður grundvöllur til að fjalla um það hvort ástæða sé til að veita ábyrgð öðrum fyrirtækjum hér á landi sem fást við lyfjaþróun á sambærilegum forsendum og Íslensk erfðagreining ehf. hefur í hyggju.``

Þetta er lykilatriði málsins. Ef önnur fyrirtæki í sambærilegri starfsemi, eins og Lyfjaþróun, sækja um tel ég að það þurfi að skoða mjög gaumgæfilega til að jafnræðis sé gætt í slíkum málum. (Gripið fram í: Vill þingmaðurinn gera þetta í Kópavogi?) Það væri mjög gott ef við fengjum þetta fyrirtæki inn í Kópavog. Ég mundi fagna því mjög mikið að fá lyfjaþróunarfyrirtæki í Kópavog.

Skoðun mín er sú að þetta hafi gífurlega jákvæð áhrif fyrir íslenskt efnahagslíf. Við skulum gefa okkur að það mundi ganga mjög vel hjá þessu fyrirtæki. Hvað mundi þá gerast? Andstæðingar þessa máls hafa hér reynt að tína upp neikvæða punkta, talað um að 90% líkur séu á að þetta fari á á hausinn og öll þau ósköp. Þetta eru miklir garpar og sérfræðingar. Þeir eru kannski með önnur gleraugu en ég. Það er alveg greinilegt.

Ég held að menn ættu að kynna sér þetta á hlutlægan hátt eins og ég hef a.m.k. reynt að gera. Ég var úrtölumaður til að byrja með í þessu máli, hafði aðallega efasemdir um hvort þetta mundi ganga upp. En eftir að hafa lesið gögn frá virtum greiningarfyrirtækjum á Wall Street hef ég sannfærst um að meira kjöt er á beinum þessa fyrirtækis en menn vilja vera láta.

Niðurstaða mín er því sú að ég styð málið. En menn verða að hafa það á hreinu að jafnræðis verði gætt gagnvart öðrum fyrirtækjum í hliðstæðum tilfellum.