Ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar

Föstudaginn 26. apríl 2002, kl. 12:35:58 (8261)

2002-04-26 12:35:58# 127. lþ. 130.11 fundur 714. mál: #A ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar# frv. 87/2002, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 127. lþ.

[12:35]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Hér er sannarlega á ferðinni mál sem ástæða er til að fjalla nokkuð um. Ég verð að segja eins og er að þegar það kom fyrst fram þá kom mér allnokkuð á óvart að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar skyldi standa fyrir því að leggja fram mál af þessu tagi. Ég var samt sem áður jákvæður gagnvart því að skoða þann möguleika sem þarna er verið að hugsa um, þ.e. að standa með einhverjum hætti við bakið á þessari starfsemi sem er að ryðja sér til rúms á Íslandi. Mig langar til að fara nokkrum orðum um málið eftir að hafa velt þessu fyrir mér og hlustað á þær umræður sem fram hafa farið í þjóðfélaginu í framhaldi af því að þetta frv. kom fram.

Ef af þessari afgreiðslu verður leikur enginn vafi á því að hér verður á ferðinni stærsta átak í atvinnustuðningi í landinu á valdatíma þessarar ríkisstjórnar, einfaldlega vegna þess að ef eitthvað annað gæti á þetta skyggt þá væru það helst virkjanaáformin austur á landi. En þau áform eru ekki í hendi. Þarna er verið að skuldbinda ríkissjóð með mjög hárri upphæð og þessi skuldbinding er ekki í neinu gríni gerð. Hún er bæði há og enginn deilir um að áhættan sem í því er fólgin að taka hana á ríkissjóð, er verulega mikil.

Hér er á ferðinni sértækur stuðningur við tiltekna atvinnugrein og það er auðvitað umhugsunarefni a.m.k. þegar í orði er verið að bregða út af yfirlýstri stefnu ríkisstjórnarinnar hvað varðar slík mál. Ætli menn að bregða út af þeirri stefnu hlýtur spurning að vakna um hvaða atvinnugreinar koma þá til greina til þess að styðja við bakið á. Þetta nefni ég vegna þess að í umræðunni eru og hafa verið á undanförnum missirum hugmyndir um nýjar atvinnugreinar á Íslandi, ekki bara þá atvinnugrein sem hér er til umræðu heldur fiskeldi og fleiri nýjar atvinnugreinar. Ég nefni fiskeldi sérstaklega vegna umræðunnar um þorskeldi sem ég hygg að menn séu sammála um að sé svið þar sem við eigum sannarlega að láta til okkar taka. Sú spurning hlýtur að vakna eftir að þetta mál hefur komið fram hvort hið opinbera ætli að standa með sambærilegum hætti að baki hugmyndum eða fyrirætlunum um að fara út í þorskeldi og sannarlega veitir ekki af að standa við bakið á slíkum fyrirætlunum með einhverjum hætti til þess að við náum því að komast í forustu með þeim þjóðum sem eru fremstar í þorskeldi í dag.

Þetta vildi ég nefna vegna þess að menn hljóta að fara yfir það þegar hugmynd af þessu tagi kemur fram hvort stuðningur ríkisins við einstakar nýjar atvinnugreinar eigi að vera til staðar, þ.e. við fleiri hugmyndir en þá sem hér er til umræðu. Mér finnst að þannig eigi að líta á málið, það eigi að líta á allar ákvarðanir eins og þessa með tilliti til almennra sjónarmiða og þá geti menn ekki bara ákveðið að lyfjaþróun eða eitthvað slíkt sé efst á baugi heldur fari þeir yfir sviðið og velti fyrir sér við hvaða atvinnugreinar hið opinbera gæti komið til liðs og ætti að gera, þ.e. ef menn bregða þá út af þeirri stefnu sem hefur verið í orði. Reyndar vil ég meina að hún hafi nú ekki verið á borði í öllum tilvikum og skal koma að því síðar.

Þetta er ekki bara sértækur stuðningur við atvinnugrein heldur er um að ræða sértækan stuðning við einstakt fyrirtæki. Það eru auðvitað enn þá fleiri spurningarmerki við þá aðferð en það hins vegar að velja út atvinnugrein til þess að byggja upp og standa við bakið á, því ef styðja ætti tiltekna atvinnugrein væri hægt að setja um það almennar reglur sem giltu fyrir alla sem vildu taka þátt í því að byggja hana upp. En hér er það ekki á ferðinni heldur er hér á ferðinni sértækur stuðningur við fyrirtæki. Spurningin sem hlýtur að vakna er: Hvers vegna? Hvers vegna er þetta mál komið í sali Alþingis? Á fyrirtækið í vanda? Hafa áætlanir fyrirtækisins staðist? Er þetta fyrirtæki sterkt?

Í gögnum sem fylgja með þessu lagafrv. og athugasemdum sem með því eru kemur fram og þar er fullyrt með sterkum orðum að þetta fyrirtæki sé sterkt, það eigi mikið eigið fé og sé sterkt fyrirtæki. Þær upplýsingar eru örugglega réttar sem þarna eru um tölur í þessu sambandi. En matið á því hvort fyrirtækið sé sterkt hlýtur að byggjast á því hvort menn trúi áætlunum þess. Fyrirtækið hefur gert áætlanir um framtíð sína og samkvæmt yfirlýsingum og gögnum frá því hafa þær áætlanir staðist þannig að ekki er um það að ræða að eitthvað hafi farið úrskeiðis, eða hvað? Ekki held ég það. Ég hef hins vegar þá skoðun að þegar hafist er handa með þróun fyrirtækis af þessu tagi og viðskiptaáætlunin er lögð upp eins og hvað varðar þetta fyrirtæki þá hljóti menn að gera það varfærnislega. Menn hljóta að gera það varfærnislega vegna þess að mjög mikilvægt er að halda trúverðugleika fyrirtækisins og mjög mikilvægt er að viðskiptaáætlanirnar standist. Þess vegna hljóta menn að fara varfærnislega í þær. Það að fyrirtækið sé á áætlun getur verið vísbending um að hlutirnir hafi kannski ekki gengið eins vel og menn höfðu helst vonað. Ég hef ekki neitt í höndunum sem bendir til þess að hér sé ekki allt í lagi. Ég vek hins vegar athygli á þessu.

[12:45]

Eftir að það kvisaðist úr að íslenska ríkið væri tilbúið að ganga til liðs við fyrirtækið sáust fyrst þau viðbrögð á markaði með hlutabréf í þessu fyrirtæki að hlutabréfin hækkuðu dálítið. En síðan hafa þau lækkað aftur. Þau hafa haldið áfram að lækka undanfarna daga og nýjustu fréttir eru að enn lækki hlutabréfin í þessu fyrirtæki. Það er erfitt fyrir þingmenn sem þurfa að taka afstöðu til málsins að meta hvaða sögu þetta segir. Ég hef það á tilfinningunni að lækkun hlutabréfanna í fyrirtækinu sé einfaldlega komin til vegna þess að fjárfestar hafi ákveðið að selja í fyrirtækinu þó að gengið væri svona lágt. Ég tel að þeir hafi metið upplýsingarnar um að fyrirtækið leitaði sér hjálpar opinberra aðila þannig að staða þess væri ekki nógu sterk. Ég býst við að þeir hafi ekki viljað taka meiri áhættu með því að eiga hlutabréf í fyrirtækinu heldur en þeir voru þegar búnir að gera með kaupunum og hafi þess vegna ákveðið að selja og draga sig út úr fyrirtækinu.

Hver önnur gæti ástæðan verið fyrir því að menn seldu á svo lágu gengi sem raunin hefur verið þessa daga? Nú er ekki um það að ræða að þetta gengi hafi myndast í litlum viðskiptum. Samkvæmt fréttum undanfarna daga hafa verið veruleg viðskipti með hlutafé í þessu fyrirtæki. Þannig er hægt að taka fullt mark á því að fjárfestar sem eiga mikilla hagsmuna að gæta meti verðmæti fyrirtækisins afar lágt um þessar mundir.

Hér hefur ítrekað komið fram í umræðunni að mjög litlar líkur væru á gjaldþroti. Ég vona að menn hafi rétt fyrir sér í því. En það tekur töluvert langan tíma að leiða í ljós hvort viðskiptahugmyndin gengur upp. Það er full ástæða til að gefa þessu fyrirtæki tækifæri, þann tíma sem viðskiptaáætlunin nær yfir, því enn hefur ekkert komið fram sem bendir til að fyrirtækið geti ekki staðist þá áætlun sem sett hefur verið fram. Áhættan sem þarna er aftur á móti til staðar er af sérfræðingum talin mjög mikil. Spurningin sem hlýtur að vakna þegar þetta sama fyrirtæki hefur uppi áætlanir um að hefja nú meiri áhætturekstur til viðbótar og fjárfesta í viðskiptahugmynd sem kostar gífurlegar fjárhæðir, 35 milljarða til viðbótar við þá áhættu sem tekin var með stofnun fyrirtækisins og þeirri viðskiptahugmynd sem unnið er eftir í dag, hlýtur að fá menn til að staldra við og velta fyrir sér hvort samanlögð áhætta sé þá að minnka eða aukast.

Að mínu viti er áhættan að aukast. Það er kannski bara tilfinning mín en ég tel að þegar menn fara af stað í áhættufyrirtæki eins og þetta og ákveða síðan að auka umfangið og fara jafnvel í enn áhættusamari rekstur til viðbótar og leggja í það gífurlegar upphæðir sé ástæða til að halda að heildaráhættan í öllu hafi aukist.

Nú ætla ég að hvarfla að öðru atriði hvað þetta varðar, þ.e. spurningunni um út frá hvaða forsendum er verið að fjalla um málið. Er þetta byggðaaðgerð sem hér er til umræðu? Sé þetta er byggðaaðgerð er hún ekki í stíl við byggðastefnu ríkisstjórnarinnar, einfaldlega vegna þess að áhrif þessa fyrirhugaðrar starfsemi á byggðaþróun er þveröfug við stefnuna. Þessi aðgerð mundi auka spennu á höfuðborgarsvæðinu og draga menntafólk til höfuðborgarsvæðisins eða halda því þar og auka umsvifin á allan hátt á höfuðborgarsvæðinu. Staðurinn sem valinn er fyrir þessar fyrirætlanir er hér í Reykjavík.

Þegar hið opinbera ákveður að standa við bakið á tiltekinni atvinnugrein snýst valið ekki bara um atvinnugreinina heldur þarf líka að velja hvaða staðir á landinu verða fyrir áhrifum. Staðurinn sem núna er valinn er Reykjavíkursvæðið. Þá vaknar auðvitað spurningin: Er atvinnuleysi á því svæði? Svarið við því er auðvitað nei. Er einhver hætta fram undan á atvinnuleysi á þessu svæði? Svarið við því er líka nei. Er hætta á atvinnuleysi í greininni sem hér er verið að tala um? Svarið við því held ég að sé líka nei. Ekkert bendir til þess að um sé að ræða atvinnuleysi eða mikla eftirspurn eftir vinnu fyrir sérmenntað fólk á þessu svæði í bili. Þá má spyrja hvort atvinnulífið sé of einhæft og þessi viðbót geti verið mjög skynsamleg. Svarið við því er ekki einfalt. Ég held að ljóst sé að upp er að byggjast þekking og fyrirtæki á skyldum sviðum.

Út frá þessum vangaveltum kemst ég að þeirri niðurstöðu að þetta sé að vissu leyti byggðaaðgerð, þ.e. byggðaaðgerð fyrir Ísland gagnvart löndunum hér í kring. Ég er ekki ósammála því að við þurfum að hugsa um Ísland og atvinnulífið á Íslandi með tilliti til samkeppni við löndin í kring. Ég tel að við eigum að gera það. En þetta er ekki byggðaaðgerð með þeim hætti sem við höfum talað um á Íslandi, nema þá að hún væri fyrirbyggjandi langt fram í tímann gagnvart aðstæðum sem menn teldu að hugsanlega gætu komið upp. Hún stangast hins vegar á við byggðastefnuna sem rekin hefur verið í landinu. Ég held að menn geti ýtt til hliðar öllum hugmyndum um að hér sé á ferðinni byggðaaðgerð, nema að um væri að ræða að styrkja Ísland í samkeppninni við aðrar þjóðir.

Við vitum að þjóðirnar í kringum okkur --- það kemur fram í þeim gögnum sem fylgja þessu máli --- hafa með ýmsum hætti reynt að tryggja starfsemi af þessu tagi hjá sér. Við erum því í samkeppni um starfsemi af svipuðu tagi við þær þjóðir. Hvort ríkissjóðurinn á Íslandi er tæki sem við getum beitt mjög mikið í þessu sambandi þurfa menn að meta.

Ég ætla ekki að fara lengra í þessum vangaveltum, hæstv. forseti. En það sem mig langar til að spyrja um er: Ef niðurstaðan er sú að við viljum styðja við þetta fyrirtæki og þessa grein, er þetta þá rétta leiðin til að gera það?

(Forseti (GÁS): Forseti biður hv. þm. afsökunar á þessari truflun. Forseti ráðgerði að gera hlé á fundinum um klukkan eitt og vill því beina því til hv. þm. að hann hugleiði þá stöðu og geri eftir efnum og ástæðum annaðhvort hlé á ræðu sinni eða slái botn í hana.)

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að halda mjög langa ræðu en mér finnst tíminn fram til klukkan eitt heldur knappur fyrir það sem ég ætlaði að bæta við ræðu mína. Ég vil því setja það í vald hæstv. forseta hvort hann frestar fundi núna eða klukkan eitt. Ég óska þá eftir að halda áfram ræðu minni eftir þann tíma sem forseti velur í þessu sambandi.

(Forseti (GÁS): Ef það hentar hv. þm. að gera hlé núna er forseti reiðubúinn til þess arna.)

Ég geri þá hlé á ræðu minni.