Ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar

Föstudaginn 26. apríl 2002, kl. 14:45:55 (8262)

2002-04-26 14:45:55# 127. lþ. 130.11 fundur 714. mál: #A ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar# frv. 87/2002, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 127. lþ.

[14:45]

Jóhann Ársælsson (frh.):

Hæstv. forseti. Ég hef farið yfir nokkur atriði hvað varðar lagafrv. sem hér er til umræðu, um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast útgáfu skuldabréfa vegna fjármögnunar nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar ehf.

Mig langar til þess að vitna í umsögn Seðlabanka Íslands. Það skal ekki verða langt. Í umsögninni stendur, með leyfi forseta:

,,Seðlabanki Íslands ræður ekki yfir þeirri sérfræðiþekkingu sem naðusynleg er til þess að meta áhættu sem framkvæmdinni fylgir og gæti fallið á ríkissjóð verði ríkisábyrgð veitt. Seðlabanki Íslands hefur hins vegar áður lýst þeirri afstöðu sinni til ríkisábyrgða að þær séu almennt ekki heppilegar. Þegar þær eru veittar er nauðsynlegt að ákvarðanir séu teknar á grundvelli ítarlegs mats á þeirri áhættu sem þeim fylgir.``

Þetta er alveg skýrt. Þeir bankastjórar Seðlabankans, Birgir Ísleifur Gunnarsson, formaður bankastjórnar, og bankastjórinn Finnur Ingólfsson segja fyrir hönd Seðlabankans að þetta mál hafi ekki verið undirbúið þannig að í raun og veru sé hægt að taka afstöðu til þess, upp á það vanti verulega, því að þegar ríkisábyrgðir séu veittar sé nauðsynlegt að þær ákvarðanir séu teknar á grundvelli ítarlegs mats á þeirri áhættu sem fylgir. Þetta ítarlega mat er ekki fyrir hendi.

Mörg önnur álit ganga út á svipaða hluti. Ég ætla ekki að eyða tíma þingsins í að fara yfir þau. Mig langar þó að vitna í umsögn Greiningar Íslandsbanka. Þar er fjallað um áhrif fréttarinnar af því að íslenska ríkisstjórnin ætlaði að leggja til að Íslenskri erfðagreiningu yrði veitt þessi ríkisábyrgð, þ.e. hvaða áhrif af þessari frétt voru á markaðinn.

Hér stendur, með leyfi forseta:

,,Fréttir um veitingu ríkisábyrgðar til deCODE höfðu jákvæð áhrif á gengi krónunnar sem styrktist í allmiklum viðskiptum. Fréttin styrkti þannig væntingar um gjaldeyrisinnflæði en stærstur hluti fjárfestingarinnar fer til greiðslu launa og þjónustu hér á landi á næstu árum.

Gengi bréfa deCODE hækkaði um 1,4% við birtingu fréttarinnar í viðskiptum sem voru talsvert yfir meðalveltu undanfarinna vikna. Ljóst er að ábyrgðin styrkir langtímahorfur deCODE og eykur trúverðugleika fyrri áætlana um lyfjaþróun. Gengisþróun eftir birtingu fréttarinnar bendir hins vegar til að markaðurinn horfi í mun meira mæli á tekjur félagsins til skemmri tíma, þ.e. tekjur af gagnagrunnstengdum upplýsingum og tekjur af þjónustustarfsemi. deCODE væntir þess að prófanir á lyfjum geti hafist eftir um þrjú ár og því er ljóst að fyrsta lyfs fyrirtækisins á markað er vart að vænta fyrr en eftir a.m.k. átta ár að því er fram kemur í skýrslu ...``

Síðan segir um áhættu, með leyfi forseta:

,,Í rannsókn sem J.A. Dimasi og fleiri gerðu 1995 um árangur lyfjaprófana kom fram að meðaltíminn sem það tók að fara með lyf í gegnum forklínískar og klínískar prófanir og á markað var um tíu ár. Um 20% af lyfjunum sem voru skráð ,,sem nýtt lyf í prófunum`` ... komust á markað.``

Einungis 20% af þeim lyfjum sem voru skráð sem lyf komust á markaðinn.

Það sem ég las þarna á undan um áhrifin á markaðinn er dálítið athyglisvert í ljósi reynslu síðustu daga hvað varðar gengi hlutabréfa deCODE. Þau hafa nefnilega haldið áfram að falla í verði og hafa aldrei orðið lægri í verði en í dag eftir því sem mér skilst. Í morgun voru þau a.m.k. komin niður fyrir 5 dollara og höfðu fallið um 15--20% á síðustu tveimur dögum eða svo.

Ekki er gott að átta sig á því hvað veldur því að fjárfestar eru svo vonlitlir um framtíð deCODE að þeir ákveða að selja sína hluti á lægsta gengi sem sést hefur á markaðnum, en bæði margir og stórir fjárfestar virðast hafa komist að þeirri niðurstöðu að skynsamlegast væri að losna við þessi bréf. Sú niðurstaða er fengin eftir að fyrir liggur að ríkisstjórnin á Íslandi ætlar að fá þetta frv. samþykkt í hv. Alþingi og allir sem hafa kynnt sér málin hér vita að slík ákvörðun ríkisstjórnar verður undantekningarlaust að lögum í sölum Alþingis. Ég þekki a.m.k. ekki neitt dæmi um það, þann tíma sem ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefur setið með Framsfl., að ríkisstjórnin hafi ekki náð fram vilja sínum í sölum Alþingis. Þrátt fyrir þetta falla nú bréf Íslenskrar erfðagreiningar í verði og þær ákvarðanir sem liggja að baki kaupum og sölu á bréfunum hljóta því að byggjast á einhvers konar framtíðarvæntingum sem virðast ekki vera allt of bjartar.

Ég vona að þetta fyrirtæki eigi langra lífdaga auðið. Ég er hins vegar sannfærður um að íslenska ríkisstjórnin er að taka rangan pól í hæðina þegar hún leggur til að stuðningur við þetta fyrirtæki verði sá sem hér liggur fyrir. Í fyrsta lagi er hún ekki að gæta hagsmuna íslenska ríkisins eins og hún ætti að gera, því að ég tel að fyrirtækið sem slíkt og reksturinn sem það stendur í mundi fá fullkomlega jafngildan stuðning ef íslenska ríkið legði fram hlutafé í fyrirtækið eins og hér er ætlað að gera. En það er einn munur á. Munurinn er sá að þeir sem eiga hlutafé í Íslenskri erfðagreiningu og ætla að eiga það hlutafé áfram munu græða miklu meira í framtíðinni á hlutabréfum sínum með þeirri aðferð sem hér er lagt til að verði viðhöfð, ef vel tekst til.

Þess vegna tel ég að tillaga ríkisstjórnarinnar sé röng. Ef hún á að vera verjanleg á hún fyrst og fremst að byggjast á því að styrkja framtíð fyrirtækisins. Hún á ekki að byggjast á því að velja bestu leiðina fyrir þá sem eiga hlutafé í Íslenskri erfðagreiningu þannig að þeir geti grætt sem allra mest.

Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að mjög mikil áhætta er fólgin í þeirri starfsemi sem þarna er á ferðinni. Hve mikil hún er get ég ekki gert mér grein fyrir eða fullyrt neitt um. Ég sé hins vegar að þeir sem þekkja slíkan markað telja að verulega mikil áhætta sé á ferðinni. Eins og ég sagði fyrr í ræðu minni þá er þetta fyrirtæki núna að leggja af stað í fjárfestingu sem er ekki síður áhættusöm en sú fjárfesting sem fyrir er og farið var af stað í í upphafi. Ég met það þannig að framtíðaráhætta fyrirtækisins sé ekki minni heldur líklegast meiri vegna þessara nýju ákvarðana en áður var. Gróðamöguleikarnir hafa að vísu líka aukist þannig að ef vel tekst til þá verður hagnaðurinn að öllum líkindum miklu meiri en menn hefðu annars haft möguleika á.

Ég hef rætt við menn t.d. sem hafa unnið fyrir fyrirtæki á þessu sviði og þeir hafa bent mér á að áhættan lýsir sér dálítið í því að mjög fá lyf nái því að verða lyf sem ná markaðnum og að í raun sé Íslensk erfðagreining að fara út á þá braut að þróa lyf sem hafa ekki verið þróuð áður og tilraunastarfsemin fram undan bendi þess vegna til miklu óljósari framtíðar en jafnvel er í lyfjaiðnaðinum að öðru leyti og að t.d. hafi líklega ekki nema eitt lyf komið á markað sem hægt er að segja með rökum að hafi verið þróað á grundvelli þeirra hugmynda sem Íslensk erfðagreining hugsar sér að nota við þróun lyfja með því fyrirtæki sem hér á að stofna. Sé þetta rétt virðist áhættan í þessu máli vera enn þá meiri vegna þess að þetta er ný braut.

Þá er spurning hvernig Íslenskri erfðagreiningu hefur gengið á Íslandi. Ég ætla ekki að fara nákvæmlega yfir það. En það er augljóst að starfsemi þessa fyrirtækis hefur lyft atvinnulífinu á Íslandi og þeim geira atvinnulífsins gífurlega sem Íslensk erfðagreining er í. Hún hefur haft mjög mikil áhrif á allt atvinnulíf á Íslandi þar sem mikillar þekkingar og sérþekkingar á þessum sviðum er krafist. Því má virkilega leggja verulega á sig til þess að koma til móts við þetta fyrirtæki og standa við bakið á þeirri grein atvinnulífsins sem þarna er á ferðinni. Ég er ekki að mæla með því að menn hjálpi einstökum fyrirtækjum. Ég vil taka það sérstaklega fram. Ég tel að ef farið verður á vegum ríkisins út í stuðning við fyrirtæki eða atvinnugrein af þessu tagi þurfi reglurnar að vera almennar og þeir sem taka þátt í samkeppninni á þessum markaði standi þá jafnfætis gagnvart því að fá stuðning frá hinu opinbera. Ég tel að ekki séu góð rök í málinu að segja: ,,Við skulum skoða það ef einhverjir sambærilega stórir koma, eitthvað sem er sambærilega stórt í sniðum.`` Það eru ekki rök í málinu. Rökin í málinu verða að vera almenn. Það er ekki eðlilegt að sérhæfa stuðning á þann hátt að íslenska ríkið ætli ekki að rétta viðkomandi atvinnugrein hjálparhönd nema á ferðinni séu fyrirætlanir jafnstórar í sniðum og þessi. Þvert á móti þurfa reglur um stuðning að vera almennar þannig að þeir sem taka þátt í þessari atvinnugrein eigi sömu möguleika. Ég vil ítreka það.

[15:00]

Þá má velta því fyrir sér, og það er ástæða til að hafa um það fáein orð, að það er í raun Sjálfstfl. sem gengur sérstaklega fram í þessu máli. Við sem höfum fylgst með stjórnmálum í nokkur ár munum öll mjög vel eftir því hvers konar herferð Sjálfstfl. fór í fyrir rúmum áratug gegn sértækum aðgerðum og aðgerðum af því tagi sem hér er verið að boða. Sporin sem Sjálfstfl. taldi hræða svakalega voru aðgerðir ríkisstjórna á níunda áratugnum sem ákvarðanir voru teknar um þegar atvinna var hér enn einhæfari en hún er og menn leituðu með logandi ljósi að möguleikum til að styðja við nýjar atvinnugreinar og búgreinar í sveitum landsins. Þá komust menn að þeirri niðurstöðu að loðdýraeldi og fiskeldi gæti komið í staðinn fyrir framleiðslu á búvörum og lyft atvinnustigi í sveitum landsins. Þá voru stofnaðir sjóðir og settar almennar reglur um stuðning við slíka starfsemi.

Það fór eins og menn þekkja. Þetta gekk ekki vel. En á sama tíma var sjávarútvegurinn líka í miklum erfiðleikum og þurfti á sértækum aðgerðum að halda að mati stjórnvalda hér, til þess að bjarga sjávarútvegsfyrirtækjum vítt og breitt um landið eftir gífurlegar fjárfestingar sem hafði verið farið í á áratugnum á undan, þar sem menn höfðu keypt skuttogara á nánast hverja krummaskuð allt í kringum landið. Hægt væri að ræða vel og lengi og hafa langt mál um þann hluta málsins.

Sjálfstfl. tók upp herferð á níunda áratugnum gegn sértækum aðgerðum af þessu tagi. Síðan hefur töluvert verið haldið utan um budduna hjá ríkissjóði og menn verið sparir á ríkisábyrgðir. Svo langt hefur það gengið að menn lögðu mikið á sig til þess að ekki yrði veitt nema mjög takmörkuð ríkisábyrgð, í raun og veru smámunir miðað við það verkefni sem hér er til umræðu, þegar grafin voru göng undir Hvalfjörð. Þar var lagt í gífurlega þýðingarmikla framkvæmd í vegamálum. Það var fjármagnað með einkafjármagni og gerður um það samningur. En ekki mátti heyra á það minnst að ríkissjóður tæki á því ábyrgð til að fjármagnið sem í þetta fengist yrði á sem allra lægstum vaxtakjörum. Þess vegna eru göngin dýrari en þau annars hefðu orðið.

Ekki hefði nú verið mikil áhætta fólgin í því fyrir ríkissjóð að taka ábyrgð á því máli. Ekki hefðu göngin farið mikið í burtu. Að vísu er hægt að halda því fram að fjárhagsleg ábyrgð á rekstri ganganna hefði þá færst til. Það hefði verið hætta á því að ríkið hefði lent í því að greiða einhverjar ábyrgðir. En landsmenn sem að lokum munu auðvitað greiða þessi göng með gjöldum fyrir ferðir í gegnum þau hefðu greitt minna að lokum ef í þetta hefði fengist lánsfé með hagstæðari kjörum. Mín skoðun er reyndar sú að það hefði verið besta og hagkvæmasta fjármögnunin sem hefði getað orðið á Hvalfjarðargöngum ef ríkissjóður hefði staðið sjálfur fyrir málinu. Nóg um það.

Ég nefndi áðan að Íslensk erfðagreining hefði komið með mjög mikilvægum og kraftmiklum hætti inn í íslenskt atvinnulíf. En ég man eftir því í sambandi við umfjöllunina um málefni Íslenskrar erfðagreiningar að hún hefur gert samninga við fjölmargar heilsustofnanir á Íslandi um starfsemi og greiðslu fyrir þjónustu eða aðgang að upplýsingum. Nú langar mig að spyrja hæstv. ráðherra, ef hann er einhvers staðar nærri, hvort Íslensk erfðagreining hafi reitt þessar greiðslur af hendi, hvort þessir samningar við Íslenska erfðagreiningu hafi staðist og greiðslur sem samið var um hafi borist til þessara heilbrigðisstofnana eða hvort samningarnir hafi ekki gengið í gildi af einhverjum ástæðum. Ég tel mjög mikilvægt að það komi fram í þessari umræðu einfaldlega vegna þess að samkvæmt reglum um ríkisábyrgð er ekki hægt að veita neinum aðilum ríkisábyrgð nema þeir séu skuldlausir við ríkið og ríkissjóð. Þess vegna er ástæða til að fá þetta upplýst.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa mál mitt miklu lengra en þetta. Ég verð því miður að segja eins og er að ég get engan veginn stutt þetta mál eins og að því er staðið. Ég hefði talið miklu meiri von til að hægt hefði verið að ná meiri samstöðu um að styðja það ef menn hefðu staðið að því með almennum hætti, með því að leggja hlutafé í þetta fyrirtæki, fremur en með því sem hér er gert ráð fyrir, þar sem öll áhættan er hjá ríkissjóði en allur hagnaðurinn, fyrir utan óbeinan hagnað, mun lenda hjá þeim sem eiga hlutabréfin.

Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst frágangur málsins benda til þess að umræða hafi orðið og togstreita og samningar um hvernig ætti að gera þessa hluti vegna þess að ákvæði eru í samningnum um að þessi skuldabréf geti breyst í hlutabréf í fyrirtækinu við tiltekið gengi. Það gengi er í raun 24 vegna þess að þeir sem ráða hjá fyrirtækinu geta tekið ákvörðun um að þetta gerist ekki fyrr en gengið hefur náð 24.

Vel kann að vera að það gengi hafi verið of hátt metið að mati íslensku ríkisstjórnarinnar og að þeir hafi þess vegna tekið ákvörðun um að vilja frekar fara ábyrgðarleið en að leggja fram fé í fyrirtækið á gengi sem þeir hefðu ekki verið sáttir við. Ég fer þó ekki ofan af því að ég tel að íslenska ríkið hefði verið miklu betur sett með hlutabréf í deCODE í höndunum en með einfalda ábyrgð af þessu tagi sem mun falla á ríkissjóð ef illa fer hjá fyrirtækinu. Vegna þess um hve áhættusaman atvinnuveg er að ræða getur enginn í dag fullyrt neitt um hvort þessu fyrirtæki skilar að landi og það verði að öflugu framtíðarfyrirtæki á Íslandi fyrr en reynslutíma þess er lokið. Sá reynslutími er a.m.k. þrjú ár fjögur ár í viðbót við þau sem liðin eru.