Ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar

Föstudaginn 26. apríl 2002, kl. 17:12:01 (8264)

2002-04-26 17:12:01# 127. lþ. 130.11 fundur 714. mál: #A ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar# frv. 87/2002, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 127. lþ.

[17:12]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. hefur greinilega ekki hlustað á ræðu mína um þetta mál þegar ég gerði grein fyrir breytingartillögu minni.

Ég vil byrja á að taka fram að ég hef mikla trú á starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar. Ég hef einnig mikla trú á þessu nýja lyfjaþróunarfyrirtæki en hvort tveggja er bundið afskaplega mikilli áhættu. Ég tel fráleitt að fjármagna slíka áhættu með lánsfé, hvað þá með ríkisábyrgð.

Ég mun draga tillögu mína til baka til 3. umr., því lýsti ég yfir og einnig að ég er eindregið á móti þessu máli. Ég mun greiða atkvæði gegn tillögu hv. efh.- og viðskn. Ég mun greiða atkvæði gegn frumvarpinu í heild sinni og ég mun greiða atkvæði gegn því að málinu verði vísað til 3. umr., sem ég annars geri aldrei. Ég er það mikið á móti málinu.

En að því gefnu að tillaga hv. efh.- og viðskn. verði samþykkt af hv. Alþingi og að því gefnu að lögin liggi þannig fyrir vil ég milda skaða ríkissjóðs, tap ríkissjóðs, þannig að ríkið geti breytt skuldabréfunum í hlutafé, með þeim umbreytingarskilmálum sem eru í gangi, á genginu 18 dollarar á hlut. Ríkissjóður tæki þannig þátt í þeim hagnaði sem yrði ef vel gengur. Það eru ákveðnar líkur á að gengi hlutabréfa --- ef hv. þm. gæti hlustað --- yrði nálægt núlli eða núll, þ.e. gjaldþrotalíkur, en það eru einnig líkur á því að vel gangi, en þá yrði gengið mjög hátt vegna áhættunnar. Þá verður gengið væntanlega 50--100, jafnvel 200. Í því tilfelli, ef vel gengur, vil ég að ríkissjóður njóti meira en ríkisábyrgðargjalds vegna þeirrar áhættu sem hann tekur og megi skuldbreyta bréfunum í hlutafé og njóta hagnaðarins.

Að sjálfsögðu er þetta ríkisvæðing. Að sjálfsögðu er allt dæmið andstætt einkavæðingarhugmyndum. Að sjálfsögðu er þessi tillaga andstæð hugmyndum Sjálfstfl. um að ríkið skuli ekki skipta sér af atvinnurekstri.