Ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar

Föstudaginn 26. apríl 2002, kl. 18:15:13 (8269)

2002-04-26 18:15:13# 127. lþ. 130.11 fundur 714. mál: #A ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar# frv. 87/2002, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 127. lþ.

[18:15]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég var staddur í gærmorgun á hátíð hjá Reykjavíkurlistanum sem var að kynna kosningastefnuskrá sína fyrir komandi borgarstjórnarkosningar. Þar var eitt aðalatriðið af hálfu frambjóðenda það áhersluatriði að byggja upp þekkingarþorp í Vatnsmýrinni og að Reykjavíkurborg muni beita sér fyrir því að svo miklu leyti sem borginni er það mögulegt.

Þetta er háleitt markmið, herra forseti, og kannski ekki óraunhæft, sérstaklega í ljósi þess að þarna hefur á síðustu árum verið byggt upp fyrirtæki með 500--600 manns í vinnu, þar af um 100 starfsmönnum erlendis frá, og það hefur verið gert fyrir tilverknað einakaðila en ekki hins opinbera, en hins vegar með stuðningi hins opinbera eins og kunnugt er. Þar á ég við Íslenska erfðagreiningu.

Nú eru áform um að halda áfram á þessari braut og byggja upp enn frekari starfsemi, nýja starfsemi þar sem um 250--300 manns, velmenntaðir Íslendingar og útlendingar geta fengið vinnu. Þá bregður svo við að hv. þingmenn Vinstri grænna leggjast gegn þessum áformum sem eru í samræmi við kosningastefnuskrá Reykjavíkurlistans.

Ég hlýt að lýsa yfir nokkurri undrun, herra forseti, yfir þessari afstöðu því hvernig á að byggja upp þekkingarþorp í Vatnsmýrinni að þeirra mati? Er það kannski framtíðarsýn þeirra að slík uppbygging fari eingöngu fram af hálfu ríkisins, þ.e. að stofnanir verði byggðar upp fyrir rekstrarfé úr ríkissjóði, stofnkostnaður greiddur úr rekstrarsjóði og ábyrgð af lífeyrisskuldbindingum starfsmanna verði með ábyrgð ríkissjóðs? Hver er munurinn á því að byggja upp starfsemi með þeim hætti eða kalla til og njóta stuðnings einkaaðila í bland?